Site icon Golfsamband Íslands

Kveðja frá forseta GSÍ

Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ.

Ágæti kylfingur.

Íslenskir kylfingar hafa í gegnum tíðina ekki haft mikil tengsl við Golfsamband Íslands. Ef frá eru taldir afrekskylfingar, þá sækja íslenskir kylfingar nánast alla þjónustu til golfklúbbanna sinna og taka þátt í störfum þeirra. Mig grunar því að flestir kylfingar séu almennt grandlausir um hlutverk golfsambandsins, markmið þess og daglega starfsemi. Úr þessu er sjálfsagt að bæta.

Golfsambandið mun í framtíðinni senda reglulega út rafrænt fréttabréf til allra skráðra kylfinga á Íslandi, til viðbótar við hefðbundna útgáfu tímaritsins Golf á Íslandi. Það er von mín fréttabréfið gefi þér betri innsýn í störf golfhreyfingarinnar á Íslandi en þeim allra hörðustu bendi ég á að fundargerðir stjórnarfunda má alltaf nálgast á golf.is, eða með því að smella hér.

Á stjórnarfundi golfsambandsins þann 9. febrúar sl. var ákveðið að ráða Brynjar Eldon Geirsson í starf framkvæmdastjóra GSÍ. Brynjar hefur starfað innan golfhreyfingarinnar undanfarin 15 ár, þar af síðastliðin tvö ár í Þýskalandi. Hann er einn fremsti golfkennari landsins og þekkir starfsemi hreyfingarinnar betur en flestir. Ráðning Brynjars felur í sér mikil tímamót fyrir golfsambandið og verður Brynjar einungis þriðji framkvæmdastjórinn í 74. ára sögu sambandsins. Ég vil þakka Herði Þorsteinssyni, fyrrum framkvæmdastjóra, enn og aftur fyrir frábært starf undanfarin 16 ár og býð Brynjar hjartanlega velkominn til starfa. Hans bíða stór og mikilvæg verkefni.

Á síðasta aðalfundi golfsambandsins í nóvember sl., Golfþingi, voru gerðar nokkrar mikilvægar breytingar á starfi sambandsins. Svo eitthvað sé nefnt þá var ákveðið að fjölga stjórnarmönnum hjá GSÍ auk þess sem allir varamenn urðu að aðalmönnum. Óhætt er að segja að núverandi stjórn endurspegli nokkuð vel golfhreyfinguna á Íslandi, hvort sem litið er til reynslu af félagsstarfi eða atvinnulífi, aldurs, búsetu eða getu í golfi ☺. Ég ætlast til mikils af stjórninni og ég vona að okkur takist að leysa komandi verkefni vel úr hendi.

Miklar breytingar voru gerðar á Eimskipsmótaröðinni í kjölfar mikillar undirbúningsvinnu síðastliðið haust, sem fjöldi fólks kom að. Ég er þess fullviss að breytingarnar muni gera góða mótaröð enn betri – fyrir keppendur, samstarfsaðila, golfklúbbana og áhorfendur.

Nánari upplýsingar um mótaröðina og stefnu hennar næstu fjögur árin má finna hér.

Eimskipsmótaröðin

 

Framundan eru verkefni sem snúa að samstarfsaðilum sambandsins (nýjum og gömlum), fjölmiðlum og undirbúningi mótahalds fyrir okkar bestu kylfinga, á öllum aldri. Þá stendur yfir vinna vegna væntanlegra breytinga á Íslandsbankamótaröðinni auk þess sem boðið verður upp á spennandi nýjungar á golf.is. Allt verður þetta kynnt þér betur með hækkandi sól. Sumarið verður komið áður en maður veit af og því borgar sig að bretta upp ermarnar.

Með bestu kveðju,
Haukur Örn Birgisson,
forseti Golfsambands Íslands.

Exit mobile version