Auglýsing

Nýverið kom út veglegt afmælisblað sem forsvarsmenn Golfklúbbs Grindavíkur gáfu út í tilefni ef 40 ára afmæli GG. Klúbburinn var stofnaður þann 14. maí árið 1981.

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, skrifaði eftirfarandi pistil í afmælisritið – en rafræna útgáfu af ritinu má nálgast neðst í þessari grein.

Nú eru fjórir áratugir liðnir síðan Jóhann Möller bauð Grindvíkingum að leika golf á þeim fjórum golfbrautum sem hann hafði sjálfur útbúið. Þótt langur tími sé liðinn frá frumkvæði Jóhanns þá er óhætt að segja að aldurinn sé afstæður. Golfíþróttin hefur verið leikin í tæp þrjú hundruð ár, þar af í 87 ár hér á landi. Í mannsárum er Golfklúbbur Grindavíkur rétt að verða miðaldra en í golfsögunni er hann enn á grunnskólaaldri. Hvernig sem á málið er litið þá ber klúbburinn aldurinn vel, umvafinn fögrum Húsatóftavelli og drifinn áfram af heilsueflandi samfélagi.

Íslenskir kylfingar, þeir redda sér og láta fátt stöðva sig þegar kemur að golfiðkun. Við leikum golf á tímum styrjalda og farsótta – meira að segja í íslenskum haustlægðum og nú síðast innan um spúandi eldfjöll. Minna má það ekki vera í Grindavík.

GSÍ Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands

Hjarta og sál golfíþróttarinnar eru golfklúbbarnir og félagsmenn þeirra. Án þeirra væri lítið sem ekkert starf unnið í hreyfingunni og enginn vöxtur ætti sér stað. Það má aldrei líta á það sem sjálfsagðan hlut þegar félagsmenn í golfklúbbum verja frítíma sínum til að gera öðrum kylfingum kleift að leika golf við betri aðstæður. Sjálfboðaliðinn sem sér um ræsinguna í mótinu, tekur að sér dómgæsluna, situr í vallarnefnd, hirðir golfvöllinn eða málar golfskálann gefur þannig öðrum félagsmönnum frítíma sinn. Margar hendur vinna létt verk og þannig hafa heilu golfklúbbarnir orðið til og vaxið í kjölfarið. Golfklúbbur Grindavíkur er skýrt dæmi þess.

Innan klúbbanna verður til vinátta, kynslóðir leika sér saman, börn fullorðnast og eldra fólk nýtur samveru gamalla vina. Golfklúbburinn sameinar félagsmennina og veitir þeim tækifæri til að stunda okkar skemmtilegu íþrótt. Hvort sem það er í keppni eða leik, á níu eða 18 holu velli, þá snýst íþróttin að mestu leyti um félagsstarfið. Það eru forréttindi að tilheyra golfklúbbi en það er golfklúbbum jafnframt lífsnauðsynlegt að eiga félagsmenn. Það á því að vera forgangsverkefni allra aðila innan golfhreyfingarinnar að leggja sig fram við að varðveita félagsandann í hverjum golfklúbbi og þannig næra golfíþróttina og stuðla að framgangi hennar. Þar hefur Golfklúbbur Grindavíkur mikilvægu hlutverki að gegna og ég efast ekki um vilja klúbbsins og getu félagsmannanna til að takast á við verkið.

Kæru félagsmenn Golfklúbbs Grindavíkur. Þið eigið mikið hrós skilið fyrir ykkar vinnu því án vinnuframlags ykkar, áræðni og áhuga væri enginn golfklúbbur til og það má aldrei líta á framlag ykkar sem sjálfsagðan hlut.

Ég ítreka árnaðaróskir mínar til félagsmanna, stjórnarmanna og starfsmanna klúbbsins. Vegni ykkur vel í starfi og leik næstu áratugina.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ