Martin Rooney, var 95 ára þegar þessi mynd var tekin á Royal County Down. Mynd/ Edwin Roald
Auglýsing
– Áhugaverðar niðurstöður úr sænskri rannsókn – greinin birtist fyrst í tímaritinu Golf á Íslandi.

Þeir sem stunda golfíþróttina lifa að meðaltali fimm árum lengur samkvæmt sænskri rannsókn frá árinu 2008. Rannsóknin var framkvæmd á árunum 2004-2008 af þeim Anders Ahlbom og Bahman Farahmand sem starfa við Karolínska sjúkrahúsið í Solna í Stokkhólmi.

Úrtakið í rannsókninni voru sænskir kylfingar og var stuðst við gögn úr félagaskrám golfklúbba hjá sænska golfsambandinu. Niðurstöðurnar sýndu fram á að þeir sem stunda golfíþróttina lifðu að meðaltali fimm árum lengur en þeir sem stunda ekki golf. Niðurstöðurnar vöktu mikla athygli þegar þær voru fyrst birtar. Það sem kom líklega mest á óvart var að þeir sem nota golfbíl við golfleik eru einnig líklegir til þess að lifa allt að fimm árum lengur en þeir sem ekki stunda golf.

Golfíþróttin hefur jákvæð áhrif á blóðrásarkerfið, öndunarfærin og almenna líkamsheilsu

Til eru fjölmargar aðrar rannsóknir sem styðja við niðurstöðu sænsku vísindamannanna. Í háskólanum í Edinborg í Skotlandi hafa sérfræðingar rannsakað áhrif golfíþróttarinnar á líkamsstarfsemina. Niðurstöðurnar benda eindregið til þess að golfíþróttin hafi jákvæð áhrif á blóðrásarkerfið, öndunarfærin og almenna líkamsheilsu. Dr. Andrew Murray fór fyrir rannsóknarteyminu í Edinborg í rannsókninni sem kallast Golf & Health Project. „Við vitum að sú hreyfing sem kylfingar stunda í gegnum golfíþróttina eykur lífslíkur. Golfíþróttin getur haft jákvæð fyrirbyggjandi áhrif á um 40 sjúkdóma á borð við hjartaáfall, heilablóðfall, sykursýki, brjósta- og ristilkrabbamein,“ sagði Murray í viðtali við CNN fréttastofuna.

Við vitum að sú hreyfing sem kylfingar stunda í gegnum golfíþróttina eykur lífslíkur

Kylfingar sem eru á síðari hluta æviskeiðsins geta aukið hreyfigetu sína umtalsvert og bætt jafnvægið með því að ganga úti á golfvellinum og slá golfbolta. Útiveran hefur einnig fleiri jákvæð áhrif, t.d. ferskt loft og aukna D-vítamín upptöku í gegnum húðina á góðviðrisdögum. Góð áhrif golfleiks eru ekki aðeins líkamleg.

Murray bætir því við í viðtalinu að þeir sem stundi golf séu síður líklegri til þess að þróa með sér kvíða og þunglyndi.

„Þeir sem stunda golf fá aukið sjálfstraust, og það eykur líkurnar á því að þeim líði betur andlega og líkamlega.“

Martin Rooney, var 95 ára þegar þessi mynd var tekin á Royal County Down. Mynd/ Edwin Roald

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ