Golfþing 2023 fer fram 11. nóvember n.k. á Grandhótel í Reykjavík.
Alls hafa 11 aðilar tilkynnt um framboð til stjórnarkjörs.
Stjórn Golfsambandsins skal samkvæmt lögum GSÍ skipuð 11 mönnum.
Hulda Bjarnadóttir býður sig fram í embætti forseta, en ekkert mótframboð barst, og er hún því sjálfkjörin sem og aðrir stjórnarmenn.
Eftirtaldir bjóða sig fram til stjórnar GSÍ á golfþinginu 2023.
Birgir Leifur Hafþórsson
Ég, Birgir Leifur Hafþórsson hef áhuga á að gefa kost á mér í stjórn Golfsambands Íslands á komandi golfþingi.
Ég hef mikinn metnað fyrir golfíþróttinni og vil ég halda áfram að gefa af mér til golfhreyfingarinnar. Ástæða þess að ég sækist eftir að sitja í stjórn Golfsambands Íslands er fyrst og fremst ástríða mín fyrir golfíþróttinni sem er mér kær, enda hefur hún verið stór partur af lífi mínu síðustu 35 ár.
Ég hef komið að golfíþróttinni frá mörgum hliðum. Fyrst sem áhugamaður, keppnismaður í landsliði Íslands, keppnismaður í atvinnumennsku, þjálfari, aðstoðarlandsliðsþjálfari, íþróttastjóri GL, markaðs- og viðburðastjóri GKG, formaður PGA og einnig sem foreldri barna sem hafa æft golf.
Ég hef setið í fjölda nefnda innan GKG, GSÍ og PGA á Íslandi, má sem dæmi nefna Íslandsmótsnefnd GKG, vallarnefnd, stefnumótunarnefnd fyrir íþróttastarf GKG, stjórn PGA á Íslandi (2 ár sem formaður) og sit núna í afreksnefnd GSÍ.
Ég hef barist fyrir bættri æfingaaðstöðu fyrir alla kylfinga og tók þátt í uppbyggingu íþróttarmiðstöðvar GKG. Ég er afar stoltur af því að hafa tekið þátt í þeirri vinnu sem stjórn GKG og við starfsmenn skiluðum af okkur.
Ég heillaðist af golfi 12 ára gamall og hef stundað síðan. Ég er menntaður PGA kennari og er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Í dag starfa ég hjá ACRO Verðbréfum við eignastýringu. Ég veit að sú reynsla sem ég bý yfir innan vallar og utan komi til með að nýtast golfhreyfingunni til framtíðar.
Ég er mikill keppnismaður og hef metnað til þess að gera betur í dag en í gær. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að styrkja enn frekar ímynd GSÍ ásamt því að vinna að þeim fjölmörgu verkefnum sem framundan eru hjá GSÍ.
Elín Hrönn Ólafsdóttir
Áhugi minn á golfi og golfhreyfingunni hefur aukist undanfarin ár í takt við verulega aukna spilamennsku.
Ég jók þekkingu mina og þá um leið áhuga minn á golfhreyfingunni þegar ég leiddi starf 100 sjálfboða á Evrópumóti kvennalandsliða sumarið 2016 sem haldið var á Urriðavelli með glæsilegri samvinnu GSÍ og starfsfólks GO.
Ég var formaður Golfkúbbsins Odds í þrjú ár, á árunum 2017 til 2019. Ég tel þá reynslu sem ég öðlaðist þar afar góða fyrir golfsambandið og mig langar því að nýta krafta mína þar. Tími minn sem formaður Odds var mér afar dýrmætur og lærdómsríkur.
Ég hef haft töluverðan áhuga á stjórnarsetu í GSÍ til að vinna kröftulega með golfhreyfingunni að þeim markmiðum sem þar hafa verið sett. Mér finnst rétti tíminn núna.
Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt og hef bætt við mig diplóma í verkefnastjórnun og leiðtogafræðum ásamt MBA gráðu frá Háskóla Reykjavíkur vorið 2021.
Ég hef sinnt ótal stjórnunarstörfum um árabil hjá fyrirtækinu Vistor hf ásamt því að hafa sótt fjölbreytt námskeið bæði hérlendis og erlendis sl 20 ár. Ég starfa í dag sem forstöðumaður í Maríuhúsi á vegum Alzheimersamtakanna.
Hansína Þorkelsdóttir
Ég býð mig fram í stjórn Golfsambands Íslands til næstu fjögurra ára. Ég hef setið í stjórn GSÍ frá árinu 2015 og fór fyrir Útbreiðslunefnd í fjögur ár en síðastliðin fjögur ár hef ég farið fyrir Tölvunefnd GSÍ.
Í Útbreiðslunefnd unnum við að framgangi og útbreiðslu golfíþróttarinnar með því að sinna kynningar- og markaðsmálum, þátttöku í verkefnum og viðburðum sem styðja við markmið um fjölgun kylfinga og gegn brottfalli úr hreyfingunni.
Síðan golfhreyfingin tóku upp nýtt tölvukerfi, Golfbox, hefur verið almenn ánægja með kerfið sem heldur áfram að þróast. Tölvunefnd GSÍ sér frekari tækifæri til þróunar og frekari umbóta. Golfsambandið beitir sér fyrir því að koma ákveðnum umbótaverkefnum á framfæri.
Aldrei hafa kylfingar verið fleiri á Íslandi og hefur jákvæð umræða um golf aukist undanfarin ár. Staða golfs á Íslandi er góð, en mikilvægt er að nýta tækifærin sem bjóðast til að gera enn betur.
Tölvunefnd hefur hafið umræðuna um hvernig við getum komið að frekari tækniþróun í þágu golfhreyfingarinnar en það þarf sameiginlegt átak hreyfingarinnar allrar í þeim verkefnum. Að mínu mati gæti golfsambandið komið á þessum samráðsvettvangi.
Í 19 ár hef ég leikið golf af ástríðu sem meðlimur í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæja. Ég er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hef lokið meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík.
Ég hef reynslu af ýmsum stafrænum umbreytingarverkefnum og starfa í dag sem viðskipta- og verkefnastjóri hjá OK. Ég er tilbúin að bjóða krafta mína áfram og tel að ég geti nýtt mína þekkingu og reynslu í þágu golfhreyfingarinnar.
Hjördís Björnsdóttir
Ég heiti Hjördís Björnsdóttir og býð mig fram til stjórnarsetu í stjórn GSÍ næstu 4 árin.
Ég hef setið sem formaður markaðs- og kynningarnefndar síðan ég bauð mig fyrst fram árið 2021.
Ég er félagskona í tveimur klúbbum, Golfklúbbi Reykjavíkur og Golfklúbbnum í Úthlíð og hef sinnt félagsstarfi í GÚ síðan á ofanverðri síðustu öld. Einnig kom ég að því að stofna Golfklúbb Íslandsbanka og hef lagt mig fram um að breiða golfíþróttina út og kynna hana fyrir fólki sem verður á vegi mínum. Fjölskylda mín á og rekur Ferðaþjónustuna í Úthlíð og rekum við golfvöllinn þar.
Ég hef BA próf í íslensku og hef starfað við markaðsmál og vefmál síðustu áratugina hjá nokkrum íslenskum fyrirtækjum.
Golfsamband Íslands hefur skýra sýn í markaðsmálum og hef ég tekið þátt í því að koma henni á framfæri. Með metnaðarfulla stefnu að leiðarljósi er mikilvægt að sinna markaðsmálum vel. Við viljum fjölga iðkendum í golfi, við viljum auka hlutfall kvenna og barna í golfi, við viljum hafa kylfinga í fremstu röð í heiminum á stærslu mótaröðunum og við viljum hafa Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu okkar starfi.
Þetta eru allt stór verkefni sem verður að vanda vel og ég er til í að taka þátt í því.
Hulda Bjarnadóttir
Ég hef ákveðið að gefa áfram kost á mér til embættis forseta Golfsambands Íslands.
Stefna sambandsins, sem gildir til ársins 2027 verður leiðarljós mitt fram á við og innleiðing stefnunnar. Ég tel mikilvægt nú þegar hún er hálfnuð að við metum, endurmetum, bætum það sem við höfum lært eða rekið okkur á og setjum fókus í að innleiðingin verði farsæl í heild. Og setjum jafnvel inn enn fleiri mælanlega þætti.
Það krefst áframhaldi samtals við golfhreyfinguna, eða forsvarsmenn klúbbana og stjórnir þeirra. Kjarninn í þeim fókus verður á mótahald sambands, líkt og kveðið er á um í stefnunni. Í afreksmálum er mikilvægt að halda áfram að bæta í og hlúa að okkar bestu kylfingum. Þetta eru okkar helstu fyrirmyndir og árangur þeirra á erlendum vettvangi er ein forsenda fyrir nýliðun meðal ungra kylfinga og umfjöllun um íþróttina eykst samhliða árangrinum.
Einnig vil ég leggja upp með að GSÍ veiti golfklúbbunum framúrskarandi þjónustu og að sambandið sé vettvangur góðra samskipta og öflugrar ákvarðanatöku. Þannig hef ég áhuga að leiða áframhaldandi dýpkun og framhaldssamtöl við ÍSÍ í afrekshlutanum sem og að dýpka verkfærakistu okkar gagnvart ríki og sveitafélögum. Þar mun lýðheilsa og sjálfbærnimælingar styrkja okkur trúi ég.
Árið 2025 tel ég mikilvægt að hefja nýjan fasa fyrir þá stefnu sem tekur við af þessari og mun ég nýta síðara árið í slíkan undirbúning. Þannig vil ég reyna að viðhalda og koma enn meiri langtímasýn inn í verkefni og vinnulag sambandsins.
Á persónulegum nótum – Bakgrunnur
Ég er meðlimur í Nesklúbbnum og golf hefur verið fjölskylduíþrótt okkar í nær tuttugu ár. Ég hef tekið þátt í sveit Nesklúbbsins í Íslandsmótum golfklúbba og ég hef verið mjög virk í öllu starfi klúbbsins frá því ég varð meðlimur upp úr aldamótum. Maki hefur keppt og starfað í hreyfingunni lengi og því hef ég fylgst með hreyfingunni frá nokkrum sjónarhornum. Lengi vel beindist áhugi minn á að efla þáttöku kvenna i golfi og fór ég fyrir komu Anniku Sörenstam til Íslands.
Áður en ég tók við forseta í stjórn Golfsambandsins sat ég í fjögur ár í stjórn og bar þá ábyrgð á útbreiðslumálum sambandsins. Ég hef reynslu af stjórnarsetu m.a. í stjórn Krabbameinsfélags Íslands, HaPP, stjórnarformaður í Klíníkinni Ármúla og Skema, forritun barna. Starfaði framan af starfsævinni við fjölmiðla, bæði í dagskrárgerð og kom að rekstri þeirra. Er lærður Viðskiptafræðingur með MBA. Var framkvæmdastjóri Krafts stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein, framkvæmdastjóri FKA, vann hjá Straumi fjárfestingarbanka fyrir hrun, almannatengslaráðgjöf hjá KOM og um tíma á Alþjóðasviði Viðskiptaráðs Íslands.
Áður en ég tók sæti í stjórn GSÍ var ég í aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Fram þar sem eitt aðalverkefna var flutningur félagsins í Úlfarsárdal. Ég hef verið viðriðin íþróttir frá unga aldri þar sem ég keppti fyrir FRAM í handbolta og var í U-liðum Íslands.
Samhliða störfum mínum fyrir Golfsambandið hef ég unnið undanfarin fimm ár á Starfsmannasviði Marel hf. (Global). Þar vinn ég við innleiðingar, verkefnastýringu, innri samskipti og markvissa vörumerkjastjórnun (e. branding) sem styður við hæfileikaöflun (Talent Aquisition). Fyrirtækið er í dag með um 8000 starfsmenn með starfsemi í yfir 32 löndum.
Jón B. Stefánsson
Ég er áhugamaður um golf og hef stundað íþróttina um árabil og tel að ég hafi ýmislegt til málanna að leggja og að ég geti komið að góðu gagni við uppbyggingu golfíþróttarinnar sem stjórnamaður GSÍ.
Í gegn um árin hef ég sinnt ýmsum störfum tengdum íþróttum almennt bæði sem stjórnarmaður og áður fyrr sem þjálfari.
Árið 2016 var ég kjörinn í stjórn GR og hef setið í stjórninni síðan þá og haft af því ánægju og trúi að gagn hafi verið af.
Árin 2017 til 2020 var ég formaður LEK Landssambands eldri kylfinga.
Árið 2017 var ég kjörinn í stjórn GSÍ og og hef setið í stjórninni síðan og tala ég gjarnan fyrir málum tengdum eldri kylfingum innan stjórnar GSÍ.
Ég hef áhuga á að halda áfram stjórnarsetu í GSÍ og vinna áfram að málefnum golfhreyfingarinnar
Menntun og fyrri störf: Kennaraskóli Íslands, Íþróttakennaraskóli Íslands
Fjöldi námskeiða heima og erlendis tengd stjórnum og rekstri bæði lengri og skemmri námskeið heima og lengri við háskóla erlendis. Fyrrverandi skólameistari Tækniskólans og núverandi ráðgjafi og verkefnisstjóri nýbyggingar skólans. Starfaði áður við stjórnunarstörf heima og erlendis hjá Eimskip, Heklu og 66° Norður.
Jón Steindór Árnason
Golfíþróttin hefur fylgt mér stóran hluta ævinnar. Framan af fór mestur tími í að spila golf, en eftir að þeim stundum fór fækkandi færðist áherslan yfir í störf í þágu golfhreyfingarinnar.
Ég var fyrst kjörinn í stjórn GSÍ árið 2017. Fram að þeim tíma hafði ég átt sæti í stjórn Golfklúbbs Akureyrar sem varaformaður og gjaldkeri, auk þess að hafa setið í ýmsum nefndum á vegum GA.
Samhliða þessu áhugamáli mínu hef ég starfað við fjárfestingar og sinnt stjórnunar- og sérfræðistörfum af ýmsum toga.
Fyrstu fjögur árin fór ég fyrir afreksnefnd en undanfarin tvö ár hef ég leitt fjárhagsnefnd sambandsins sem gjaldkeri.
Ég hef mikinn áhuga á að vinna áfram að hag golfhreyfingarinnar og býð mig þess vegna fram til áframhaldandi setu í stjórn GSÍ.
Karen Sævarsdóttir
Ég heiti Karen Sævarsdóttir og býð mig fram til stjórnar GSÍ.
Ég hef stundað og verið í kringum golfíþróttina frá fimm ára aldri eða í yfir 40 ár. Framan af stundaði ég golfið sem keppnisíþrótt og fór í fyrstu landsliðsferðina 11 ára gömul. Ég hef leikið á heimsmeistaramóti, Evrópumóti einstaklinga og öllum helstu liðamótum sem í boði voru sem áhugakylfingur. Ég fór í háskólagolfið í Bandaríkjunum og þjálfaði svo seinna háskólalið í um eitt og hálft ár og hef hjálpað nokkrum íslenskum kylfingum að komast til Bandaríkjanna í skóla. Ég reyndi fyrir mér í atvinnumennsku og þekki því vel þá leið sem afrekskylfingar þurfa að fara til að komast í fremstu röð.
Ég er markaðsfræðingur að mennt og með MBA gráðu og hef starfað í fjármálageiranum sem stjórnandi og unnið þar að stefnumótun og framfylgt og tekið þátt í verkefnum á sviði breytingastjórnunar o.fl.
Ég er félagsmaður í Golfklúbbnum Keili en ég byrjaði að leika golf og keppti allan minn feril fyrir Golfklúbb Suðurnesja. Tenging mín við golfið í dag er sterk þar sem ég starfa eingöngu í golfinu við kennslu og þjálfun, við sjónvarpslýsingar og golfferðir.
Ég hitti næstum daglega hinn almenna félaga og mikið af nýliðum og fylgist vel með stöðu íþróttarinnar í dag. Þrátt fyrir mikinn vöxt golfsins á síðustu árum þá finnst mér enn mikilvægt að kynna og smita út eins mikið og hægt er hve frábær golfíþróttin er.
Keppnisíþrótt, fjölskylduíþrótt og lýðheilsan, íþrótt sem þjónar hverjum og hvaða tilgangi sem er. Enn eru mörg verkefni framundan sem ég tel mig geta lagt mitt af mörkum til við, til að styrkja íþróttina ennfremur.
Árið 2021 var ég kjörin í stjórn GSÍ og óska áfram eftir trausti til að starfa fyrir íþróttina sem er mér svo kær. Vegna reynslu minnar, áhuga og ástríðu fyrir golfíþróttinni tel ég mig vel í stakk búna til að starfa fyrir golfhreyfinguna á komandi árum.
Ólafur Arinbjörn Sigurðsson
Ég er 52 ára Reykvíkingur og hef leikið golf reglulega öll mín fullorðinsár. Ég er félagi í Golfklúbbi Reykjavíkur og Golfklúbbi Kiðjabergs. Þá er ég einnig meðlimur í St. Andrews Golf Club í Skotlandi. Ég starfa sem lögmaður hjá LOGOS slf.
Framan af einkenndist golfiðkun mín af því að ég spilaði í góðra vina hópi en seinni árin hef ég einnig spilað jöfnum höndum með eiginkonu minni, dætrum og tengdasonum, en hjá okkur er golfið fjölskyldusport. Tvær af þremur dætrum æfa og æfðu golf og í gegnum það hef ég lengi fylgst náið með keppnisgolfi og afreksstarfi, hjá bæði GR og GKG. Mín eigin keppnisþátttaka afmarkast við þátttöku í meistaramótum, almennum mótum og nú nýlega sveitakeppni 50 ára og eldri. Fyrst og fremst veitir golf og allt í kringum það mér mikla ánægju.
Ég hef gengt trúnaðarstörfum fyrir GR, setið í aga- og forgjafarnefnd og stýrt aðalfundum klúbbsins undanfarin ár. Ég tel að ég geti látið gott af mér leiða á vettvangi stjórnar GSÍ þar sem ég hef víðtæka þekkingu á íþróttinni og umgjörð hennar og skoðanir á ýmsu sem mér finnst mega bæta. Þá brenn ég sérstaklega fyrir málefnum yngri kylfinga, bæði keppniskylfinga og eins þeirra sem vilja einungis leika sér til ánægju. Ég vil gjarnan sjá hlutfallslega meiri fjölgun í hópi yngri (fullorðinna) kylfinga af báðum kynjum og tel ég að hlúa þurfi að þessu sérstaklega. Í þessu felst ekki að mér standi á sama um málefni eldri kylfinga og geri mér ljósa grein fyrir jákvæðum áhrifum íþróttarinnar á almenna lýðheilsu.
Ólafur Arnarson
Hef setið í stjórn GSÍ frá árinu 2019. Ég hef setið í afreksnefnd GSÍ frá 2019-2023 og komið að innleiðingu á afreksstefnu GSÍ ásamt öðrum aðilum í afreksnefnd og nýjum landsliðþjálfara. Þær breytingar og áherslur sem gerðar hafa verið í afreksmálum GSÍ hafa verið mjög góðar fyrir afreksmál GSÍ.
Tel ég að grunnur að öflugu barna og unglingastarfi skili sér í öflugu afreksstarfi og þar með náum við að búa til framtíðarkylfinga. Ég hef mikinn áhuga þvi að starfa áfram í afreksnefnd og fylgja eftir því góða starfi sem þar er unnið, ásamt öllum þeim fjölmörgu verkefnum innan GSÍ.
Ég hef ávallt hafti mikinn áhuga á félagsmálum og starfaði ég fyrir knattspyrnufélagið Fram frá 1996-2016. Meðal annars sem formaður Handknattleiksdeildar Fram tímabilið 2001-2005 og tímabilið 2010-2012. Einnig var ég formaður Aðalstjórnar Knattspyrnufélagsins Fram 2012-2016. Tel ég mig hafa töluverða reynslu af stjórnarsetu, félagsstörfum og afreksmálum.
Ég er kvæntur Unni Helgu Óttarsdóttur og eigum við tvö börn Örnu Dís Ólafsdóttur 25 ára og Dag Fannar Ólafsson 19 ára sem er afrekskylfingur í GR.
Ég býð mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu hjá Golfsambandi Íslands til að vinna áfram með hag golfhreyfingarinnar í huga og býð mig þess vegna fram til áframhaldandi setu í stjórn GSÍ.
Ragnar Baldursson
Ragnar er meðlimur í Golfklúbbi Reykjavíkur og Golfklúbbi Öndverðarness.
Hann hefur starfað sem lögmaður frá árinu 1996. Hann lauk meistaranámi í íþróttalögfræði (Sports Law) frá De Montford háskólanum í Leicester, Englandi, árið 2018. Auk þess að sinna lögmannsstörfum kennir Ragnar íþróttarétt við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Ragnar sat í stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur frá 2010 til 2018 þar af sem varaformaður frá 2012-2018. Hann hefur setið í afreksnefnd GSÍ frá 2014 og var formaður dómstóls GSÍ frá 2019-2021. Ragnar tók sæti í stjórn GSÍ árið 2021.
Auk þeirrar mikilvægu grunnþjónustu við golfklúbba og kylfinga sem GSÍ sinnir leggur Ragnar áherslu á að línur verði enn frekar skerptar í forgangsröðun verkefna innan sambandsins, þar sem aukin áhersla verði lögð á afreks- og mótamál. Árangur íslenskra kylfinga á alþjóðlegum vettvangi hefur gríðarlegt gildi fyrir golfíþróttina. Ekki aðeins vegna þess stolts og viðurkenningar sem fylgir frábærum árangri heldur hefur reynslan sýnt að betri kynningu fær íþróttin ekki. Kynningu sem leiðir til fjölgunar iðkenda og eflingar golklúbba sem og golfhreyfingarinnar allrar inn í framtíðina.