Í vetur hefur Golfklúbbur Kópavogs – og Garðabæjar, GKG, staðið fyrir námskeiðum fyrir börn á aldrinum 7-11 ára í Kórnum í Kópavogi. Frítt hefur verið á þessi námskeið þar sem lögð hefur verið áhersla á skemmtilegar skemmtilegar golfþrautir með SNAG og venjulegum kylfum, auk annarar hreyfingar.
Þessi námskeið hafa verið á dagskrá annan hvern laugardag frá því í byrjun febrúar. Þetta framtak hefur mælst vel fyrir og hafa börnin og ekki síst foreldrar þeirra skemmt sér vel við að læra undirstöðuatriðin í golfi.
Um 30 krakkar mættu á seinasta námskeið og segja myndirnar frá því námskeiði meira en mörg orð.
María Guðnadóttir, íþróttakennari og SNAG leiðbeinandi, hefur haft yfirumsjón með námskeiðunum. Einnig hafa afrekskylfingar aðstoðað við námskeiðið ásamt þjálfurum GKG, þeir Haukur Már Ólafsson, PGA golfkennari og Úlfar Jónsson íþróttastjóri.
„Við ákváðum í vetur að bjóða krökkum á golfkynningu til að kynda undir áhugann fyrir vorið, þannig að þegar grasið grænkar þá leiði þau hugann frekar en ella að golfíþróttinni. Barna- og unglingastarf hefur alltaf verið hjartans mál hjá GKG og hefur gríðarlegur fjöldi kynnst íþróttinni hjá okkur. Ef með eru talin sumarnámskeiðin þá eru um 800-900 krakkar sem stunda golf hjá GKG á hverju sumri. Hins vegar má ekki sofna á verðinum og fækkun barna og unglinga í golfi á landsvísu er áhyggjuefni. Við erum í mikilli samkeppni við aðra afþreyingu og því viljum við efla okkar kynningarstarf enn frekar. SNAG námskeiðin hafa verið skemmtileg viðbót í vetur og höfum við m.a. nálgast skólana nálægt Kórnum í vetur og boðið ákveðnum árgöngum að koma með aðstandendum og prófa. Að mínu mati er það lykilatriði að virkja foreldrana í leiðinni og leyfa þeim að taka þátt á námskeiðunum. Golf er frábær fjölskylduíþrótt og fyrir unga krakka að stíga sín fyrstu skref þá er nú oft gott að hafa mömmu og pabba með sér á vellinum. Öll umgjörð hér í GKG er til fyrirmyndar með faglærða PGA kennara í hverju horni mikla uppbyggingu á allri aðstöðu þannig að við horfum björtum augum til framtíðarinnar,“ sagði Úlfar Jónsson, íþróttastjóri GKG í samtali við golf.is.