/

Deildu:

Auglýsing
Golf á Íslandi – Viðtal við Garðar Eyland sem lét af störfum sem framkvæmastjóri GR um síðustu áramót

Garðar Eyland lét af störfum sem framkvæmdastjóri GR eftir aðalfund stærsta golfklúbbs landsins í byrjun desember. Garðar er sjötugur að aldri en hann hefur lifað tímana tvenna í golfíþróttinni, sem kylfingur og síðar sem stjórnandi. Golf á Íslandi mætti á skrifstofu Garðars á Korpúlfsstaðavelli í lok nóvember s.l. þar sem hann var að fara yfir síðustu verkin áður en aðalfundur GR hæfist. Það væri hægt að skrifa margar bækur um reynslusögu Garðars úr golfíþróttinni enda er hann einn sá reyndasti á því sviði á landinu.

Það voru golfhögg á Hólmsvelli í Leiru sem kveiktu áhuga Garðars á golfinu og hann tók íþróttina föstum tökum áður en hann byrjaði fyrir alvöru.

„Ég byrjaði í golfi fyrir tilviljun eins og margir aðrir. Upp úr 1980 sló ég mín fyrstu högg á Hólmsvelli í Leiru en það voru tveir vinir mínir sem drógu mig með sér, Ibsen Angantýsson og Hörður Falsson. Mér fannst þetta skemmtilegt og í framhaldinu fór ég á golfnámskeið yfir vetrartímann hjá John Nolan sem þá var golfkennari hjá GR og var með aðstöðu í Skeifunni. Ég æfði mig þar í einn vetur áður en ég fór út á völl. Skömmu seinna gekk ég í GR og fór fljótlega inn í stjórnina, haustið 1982. Síðan rakti þetta sig allt saman, ég tók að mér kappleikjanefndina og var liðsstjóri í sveitakeppninni. Árið 1992 tók ég að mér formennsku hjá GR og var í því embætti til 1998. Ég hvarf um stundarsakir úr starfinu hjá GR og varð framkvæmdastjóri hjá Golfklúbbnum Oddi árið 2003. Árið 2006 kom ég aftur til GR sem framkvæmdastjóri og hef verið hér síðan,“ segir Garðar þegar hann rekur golfsögu sína í stuttu máli.

Það hefur margt breyst á 20 árum, mynd af Garðari á skrifstofu GR árið 1994.
Það hefur margt breyst á 20 árum, mynd af Garðari á skrifstofu GR árið 1994.

Hann bætir því við að golfið á Íslandi hafi verið í „örstærð“ á þessum tíma og margt hafi breyst.

„Þegar ég var að byrja var ekki þessi fjöldi í golfinu sem er í dag.  Grafarholtsvöllur, Keilir með níu holur og Leiran með níu holur. Þetta voru vellirnir sem notaðir voru í mótahaldinu að mestu og Akureyri var einnig með mót reglulega. Fjöldi þeirra sem stundaði golf var ekki eins mikill og er í dag. Það var meiri klúbbstemmning, engin vandamál með rástíma, þú mættir bara í Grafarholt. Þetta var mest bara spurning um með hverjum þú vildir spila. Menn voru að spila Grafarholtið á rétt rúmlega þremur tímum. Á þeim tíma voru aðeins þrír kylfingar í hverjum ráshóp. Leikhraðinn var því meiri og þetta gekk allt saman hraðar fyrir sig,“ segir Garðar og leggur áherslu á að bættur leikhraði sé lykilatriði fyrir golfhreyfinguna í heild sinni.

„Stór þáttur í því litla brottfalli sem er í golfíþróttinni er tíminn sem fer í að spila golfhring. Ef maður reiknar saman þann tíma sem tekur að fara frá heimili sínu og þangað til maður kemur til baka eftir 18 holur þá getur þetta verið rúmlega 6 – 6 ½ klst. Nánast heill vinnudagur. Þessu þarf að breyta.“

GR hefur stækkað mikið sem golfklúbbur og þá sérstaklega á fyrsta áratug þessarar aldar. Garðar segir að klúbburinn sé ekki of fjölmennur og það sé góð stemning í GR.

„Golfklúbbur Reykjavíkur býður félagsmönnum sínum upp á gríðarlega mikið þegar allt er tekið með í reikninginn. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hvað þeir fá mikið fyrir félagsaðild að GR miðað við það sem þeir væru að greiða í öðrum klúbbi.“

Samstarfsmenn: Ómar Friðriksson og Garðar Eyland hafa verið samstarfsmenn til margra ára á skrifstofu GR. Ómar er í dag framkvæmdastjóri GR og tók við keflinu af Garðari.
Samstarfsmenn: Ómar Friðriksson og Garðar Eyland hafa verið samstarfsmenn til margra ára á skrifstofu GR. Ómar er í dag framkvæmdastjóri GR og tók við keflinu af Garðari.

[pull_quote_right]Garðar hefur tekið þátt í uppbyggingu Korpúlfsstaðavallar allt frá því að ákveðið var að ráðast í framkvæmdir á öðrum velli fyrir GR. Hann er ánægður með hvernig til hefur tekist en aðrir kostir hafi verið skoðaðir á sínum tíma.[/pull_quote_right]

„Upp úr 1990 var skipuð nefnd til þess að finna stað fyrir nýjan völl GR. Félagatalið var um 700-800 á þessum tíma og það var horft til sjávarsíðunnar fyrir nýjan völl til þess að lengja golftímabilið. Það var haldin samkeppni um tillögur að velli við Keldnaholt og í Gufunesi. Tillögurnar voru margar mjög áhugaverðar og þar á meðal var ein sem tengdi saman nýjan völl í Keldnaholtinu við Grafarholtsvöllinn – með undirgöngum við Vesturlandsveg. Við nánari athugun voru óvissuþættir við bæði þessi landssvæði. Gufunesvöllurinn yrði reistur á gömlum sorphaugum og að mati nefndarinnar var ekki búið að rannsaka svæðið nægjanlega vel til þess að fara í framkvæmdir. Þar gætu leynst m.a. eiturgufur. Sömu sögu var að segja af Keldnaholtinu þar sem rannsóknarstofa var til staðar.  Þar var m.a. búið að urða dýr í gegnum árin, landið var í ríkiseigu og leigugjaldið var hátt.  Þá fór nefndin að beina augunum að Korpúlfsstöðum og taldi að það væri besti staðurinn fyrir nýjan völl GR. Þar var búið að setja upp lítinn æfingavöll. Niðurstaðan varð sú að byggja völlinn á Korpúlfsstöðum.“

Þegar talið berst að stærð GR er Garðar sannfærður um að félagar í GR geti leikið golf nánast þegar þeir óski þess.

Frá 7. braut í Grafarholti, sem er ein af uppáhaldsholum Garðars. Mynd-Golfmyndir.is
Frá 7. braut í Grafarholti, sem er ein af uppáhaldsholum Garðars. Mynd-Golfmyndir.is

„Það má alveg færa rök fyrir því að þegar GR var með tvo 18 holu velli þá hafi verið erfitt að fá rástíma fyrir félagsmenn. Eftir stækkunina á Korpunni í 27 holur hefur aðgengi fyrir klúbbfélaga gjörbreyst. Við erum nánast með jafnmarga hringi skráða sem níu holu hringi og 18 holu hringi hér á Korpunni. Það er mikið af fólki sem spilar níu holur. Þetta er búið að vera skemmtilegur tími. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að taka þátt í uppbyggingunni á Korpunni frá upphafi.“

Það er undantekning ef GR-ingar fá ekki rástíma, þú færð kannski ekki alltaf þann rástíma sem þú vilt fá, en rástíma færðu.

Sameiginleg inniæfingaaðstaða

[pull_quote_left]Garðar telur að huga þurfi að mörgu í framtíðaruppbyggingu GR. Þar nefnir hann m.a. inniæfingaaðstöðu sem ætti að hans mati að vera samvinnuverkefni margra golfklúbba.[/pull_quote_left]

„Í mínum huga er mikilvægast að halda áfram að gera betur og bæta það sem fyrir er. Viðhalda þeim gæðum sem eru til staðar.  Það sem helst skortir hjá GR er betri inniæfingastaða í tengslum við Básana. Þegar Básarnir voru byggðir var gert ráð fyrir að þar yrði mótttaka og aðstaða fyrir inniæfingar.

Það er mín skoðun að klúbbarnir hér á höfuðborgarsvæðinu ættu að sameinast um að byggja stóra inniæfingaaðstöðu þar sem allir gætu keypt sig inn. Þannig gætum við þjónað hinum almenna kylfingi og fjármunir nýttust betur. Í stað þess að að byggja litlar einingar til æfingaaðstöðu á mörgum stöðum þá tel ég að það sé betra að sameinast í að byggja stærri aðstöðu sem væri hagkvæmari og myndi nýtast fleirum. Helst miðsvæðis.“

Siggi Pé og Raggi Ó. hefðu farið alla leið

Garðar er afar liðtækur kylfingur sjálfur og hefur m.a. leikið með landsliði +55 og hann er með um 7 í forgjöf í dag. Hann er sannfærður um að frumkvöðlar í afreksgolfi hefðu farið alla leið inn á Evrópumótaröðina ef þeim hefði staðið til boða þær aðstæður og umgjörð sem boðið er upp á í dag.

„Fyrst og fremst er þetta spurning um vilja, þeir sem ná langt ná langt vegna þess að þeir eru með meiri vilja en aðrir. Ég er sannfærður um það að Sigurður Pétursson og Ragnar Ólafsson hefðu náð inn á Evrópumótaröðina sem atvinnukylfingar á sínum tíma hefðu þeir fengið fjárhagslegan stuðning sem veittur er til afrekskylfinga í dag. Það munaði bara hársbreidd að Sigurður færi inn.“

Yfirllitsmynd frá 14. braut á Korpúlfsstaðavelli sem er ein af uppáhaldsholum Garðars. Mynd-Golfmyndir.is
Yfirllitsmynd frá 14. braut á Korpúlfsstaðavelli sem er ein af uppáhaldsholum Garðars. Mynd-Golfmyndir.is
Uppáhaldsholurnar

[quote_box_left]„Tólfta holan á Korpunni er verulega skemmtileg hola, það er einnig gaman að standa á fjórtánda teignum í dag, glæsileg hola og skemmtileg tilfinning. Í Grafarholtinu er einnig gaman að standa á teignum á fimmtándu braut, þar er mikil víðátta í útsýninu. Sjöunda brautin er náttúruleg hola, gjörsamlega lögð í landið eins og það liggur.[/quote_box_left]

Garðar er ekki lengi að hugsa sig um þegar hann spurður um hvað standi upp úr á ferlinum hjá GR. Samstarfsfólkið.

„Það sem stendur upp úr er allt það ágæta fólk sem ég hef unnið með og kynnst. Bæði félagsmönnum, starfsfólki og stjórnarmönnum. GR væri ekki á þessum stað ef það hefði ekki valist gott fólk í stjórn klúbbsins. Það sem mér finnst standa upp úr er að það hafa ekki allir fengið tækifæri til þess að starfa hérna eins og ég. Það eru forréttindi. Það eru margir sem tala um að þeir séu að fórna sér fyrir hina og þessa. Það er nú bara þannig að það sem maður gerir það gerir maður fyrir sjálfan sig. Þú gerir það af því þú hefur gaman af því. Þetta er búinn að vera lærdómsríkur og góður tími.“

En hvernig klúbbfélagi verður framkvæmdastjórinn þegar hann mætir á GR-vellina á næsta ári? Mun hann skipta sér af hlutunum eða horfa á úr fjarlægð og njóta?

„Ég verð þýður og rólegur klúbbfélagi. Ég hef ekki lagt það í vana minn að vera með hávaða og læti í samskiptum. Ef ég þarf að leysa erfið mál þá geri ég það á lágu nótunum. Ég mun ekki skorast undan því ef til mín verður leitað með einhver ráð um einhver mál sem þeir teldu að ég gæti aðstoðað við að leysa.“

Garðar segir að hann sé ánægður með að hafa ráðið fagmann til starfa í uppbyggingarferli Korpúlfsstaðavallar – það hafi reynst heillaspor.

Með góðum GR-ingum á Korpu- Stefán Gunnarsson, Jón Pétur Jónsson, Margeir Vilhjálmsson og Garðar Eyland.
Með góðum GR-ingum á Korpu- Stefán Gunnarsson, Jón Pétur Jónsson, Margeir Vilhjálmsson og Garðar Eyland.

„Margeir Vilhjálmsson kom til mín ásamt frænda sínum Páli Ketilssyni þegar Margeir hafði lokið námi í grasvallafræðum frá Skotlandi. Margeir var að leita eftir starfi. Á þeim tímapunkti var margt að gerast hér í uppbyggingunni á nýjum velli á Korpunni. Það myndaðist hinsvegar millibilsástand í byggingu vallarins. Í fyrstu var það á áætlun að Reykjavíkurborg myndi byggja og við yrðum rekstraraðilar. Eftir stjórnarskipti í Reykjavík árið 1995 urðu breytingar í áherslum. Ég var formaður á þessum tíma.  Átti margar andvökunætur og marga fundi með embættismönnum borgarinnar. Niðurstaðan var sú að GR yfirtók allar framkvæmdirnar og við tókum það að okkur að klára að byggja völlinn. Að mínu mati var það vænlegt til árangurs að ráða mann sem hafði þekkingu á faginu. Við réðum Margeir til starfa. Hann stjórnaði uppbyggingu á Korpunni og varð framkvæmdastjóri síðar. Ég hef alltaf haldið því fram að það hafi verið gæfuspor að ráða Margeir. Hann er fyrsti menntaði vallarstjórinn í golfvallafræðum sem er ráðinn í fullt starf hjá GR. Mér fannst það vel við hæfi.“

Heilsufarið er gott

Að lokum var Garðar inntur eftir því hvort hann ætlaði sér að komast í landslið eldri kylfinga á ný þegar hann gerðist „atvinnumaður“ í golfi á næsta ári.
„Ég hef verið í landsliði 55 ára og eldri. Heilsufarið er gott. Persónulega á ég nóg eftir í skrokknum og eitthvað í kollinum. Ég veit ekki hvað ég mun gera hvað golfið varðar. Ég tel mig heppinn að fá að starfa svona lengi. Mörgum sem eru aðeins 65 ára er hent í burtu á mörgum vinnustöðum. Það ber að þakka. Ég á eftir að skoða hvað ég mun gera, ég á hjól, veiðistöng og byssur, áhugamálin eru til staðar, en ég veit ekki hvað tekur við.“

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ