Site icon Golfsamband Íslands

„Læt mig dreyma um að komast á risamótin“

Guðmundur Ágúst Kristjánsson stefnir hátt í atvinnumennskunni

Í febrúar á þessu ári sigraði Guðmundur Ágúst Kristjánsson á sínu fyrsta atvinnumóti. GR-ingurinn, sem er fæddur árið 1992, hefur lengi verið í fremstu röð kylfinga á Íslandi. Guðmundur er í fámennum hópi íslenskra kylfinga sem hafa náð að landa sigri á atvinnumóti. Þórður Rafn Gissurarson, Axel Bóasson, Birgir Leifur Hafþórsson og Guðmundur Ágúst eru þeir einu sem hafa náð slíkum áfanga.

Golf á Íslandi settist niður með Guðmundi á dögunum þar sem við ræddum um allt á milli himins og jarðar.  Viðtalið birtist fyrst í 1. tbl. 2019.

„Ég byrjaði mjög ungur að slá golfbolta og leika mér. Óli B. Jónsson, langafi minn og fyrrum knattspyrnumaður og þjálfari, var sá sem kom með golfið inn í fjölskylduna. Golfið hefur því alltaf verið í kringum mig þar sem margir úr fjölskyldunni spila golf. Þegar ég fór til Flórída fjögurra ára gamall fékk ég mínar fyrstu golfkylfur. Þær smellpössuðu fyrir mig og áhuginn var mikill. Ég fór að æfa hjá Golfklúbbi Reykjavíkur þegar ég var 7 ára,“ segir Guðmundur þegar hann var inntur eftir því hvernig hann byrjaði í golfi.    

„Ég á margar minningarnar frá golfvellinum þegar ég var að byrja. Oftast var ég bara að þvælast með mömmu og pabba í golfi. Ég man eftir atviki á Korpunni á gömlu 15. brautinni sem var alltaf kölluð Skeifan. Þar var einhver á eftir okkur og fannst við vera lengi að spila. Hann fór bara fram úr okkur án þess að spyrja. Ég man að pabbi var ekkert sérstaklega ánægður með það. Líklega hef ég verið 6–7 ára á þessum tíma. Það eru einnig margar minningar tengdar golfæfingum hjá GR. Reglukvöldin hjá Hinriki Gunnarssyni voru áhugaverð. Já, við sátum á skólabekk hvað reglurnar varðaði og þar stjórnaði Hinni með sínum hætti. Hann var oft með mjög skrítnar spurningar sem mér þótti fyndnar. Krakkarnir í GR voru því vel að sér í reglunum, þökk sé Hinna blessuðum. Haraldur Þórðarson var fyrsti golfkennarinn sem ég æfði hjá. Síðar tók Derrick Moore við og fleiri. Haraldur Franklín Magnús og Andri Þór Björnsson voru byrjaðir að æfa á þessum tíma. Guðni Fannar Carrico, vinur minn úr Seljahverfinu, var einnig að æfa og það hjálpaði mikið. Minningin frá fyrsta meistaramótinu er að ég náði að leika 18 holur undir 130 höggum. Mér fannst það geggjað á þeim tíma. Í dag hef ég náð að leika 36 holur undir 130 höggum og viðmiðin hafa aðeins breyst.“


Guðmundur Ágúst á sínum yngri árum MyndKristján Ágústsson

Markaskorari í fótbolta sem valdi golf 

„Mér fannst ég ekkert sérstaklega góður þegar ég byrjaði. Með æfingunni varð ég betri. Ég var líka í fótbolta á yngri árum. Ég fór snemma heima úr 5. flokks mótinu á Akureyri, sem heitir í dag N1-mótið, til þess að keppa á stigamóti unglinga. Ég endaði þar í 2. sæti í mínum aldursflokki. Á þeim tíma áttaði ég mig á því að ég væri betri í golfi en fótbolta. Mér fannst gaman í fótbolta, byrjaði fyrst í Val en fór síðan yfir í mitt félag, ÍR. Ég var að sjálfsögðu framherji þegar ég spilaði. Vildi bara skora mörk. Handboltinn kom einnig við sögu, líklega í kringum árið 2004 þegar Ólafur Stefánsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Patrekur Jóhannesson voru aðalkallarnir.“ 

Guðmundur ólst upp í Seljahverfinu þar sem hann býr enn. Hann þakkar foreldrum sínum fyrir allt skutlið upp á golfvöll. 


Guðmundur Ágúst á leiðinni á fyrstu golfæfinguna MyndKristján Ágústsson

Vinna og skemmtun á golfvellinum 

„Það var góður andi hjá afrekskylfingunum á mínum aldri þegar ég var að byrja að vinna sem unglingur. Margeir Vilhjálmsson, sem var framkvæmdastjóri GR á þeim tíma, reddaði okkur öllum vinnu frá 7–11. Síðan var hádegismatur og eftir það var farið að æfa og spila fram á kvöld. Svona voru virku dagarnir. Mér fannst þetta skemmtileg rútína og gott að fá smá pening fyrir að vinna.“

„Líklega höfum við verið um 15 manna hópur fæddir 1989–1993. Við vorum meira í Grafarholtinu að vinna og þegar leið á tvístraðist hópurinn aðeins. Ég á margar góðar minningar frá tímanum þegar við sáum um golfvöllinn í Hvammsvík í Kjós. Þar vorum við saman, ég, Guðni Fannar Carrico, Magnús Sigurðsson, Snorri Páll Ólafsson og Haraldur Franklín Magnús. Eftir að Snorri Páll hætti var ég sá eini sem kunni að slá flatirnar með handsláttuvélinni. Haraldur og Magnús fóru í ýmis sérverkefni sem voru ekki alltaf vel heppnuð. Haraldur flaggaði KR-fánanum einu sinni á planinu við klúbbhúsið. Það var ekki vel liðið og við fengum skammir fyrir.“ 


Guðmundur Ágúst Kristjánsson MyndHari

Mikilvægt að unglingar eigi athvarf í klúbbhúsinu 

„Ég hef ekki sterkar skoðanir á því hvernig á að fjölga yngri kylfingum. Það sem ég veit er það þarf að sinna þeim sem sýna þessu áhuga. Það voru margir strákar í kringum mig sem spiluðu mikið og kepptu – án þess að ætla sér eitthvað með þetta. Þeir vildu bara vera með og hafa gaman. Þessar týpur eru nauðsynlegar til þess að búa til góðan hóp. Stundum fór maður bara upp í Grafarholt og gerði nánast ekki neitt eins og unglingar gera. Kjallarinn í klúbbhúsinu var okkar svæði, undir hringstiganum, og þar eyddum við oft miklum tíma. Eins og unglingar gera. Ég held að það sé mikilvægt fyrir unga kylfinga að eiga „sitt svæði“ í klúbbhúsinu. Eins og ég sagði áðan þá gera unglingar mikið af því að gera ekki neitt. Af hverju ekki að leyfa þeim að gera það uppi á golfvelli?“

Eðlisfræði og golf í Bandaríkjunum 

Guðmundur lauk stúdentsprófi frá MS og hafði úr nokkrum skólum að velja þegar hann hóf nám í bandaríska háskólanum East Tennessee State. 

„Pabbi á stóran þátt í því að ég fór í bandarískan háskóla. Hann dró vagninn með umsóknarferlið og allar pælingarnar sem þarf fyrir slíkt. Þetta er stórt ferli. Ég var í Menntaskólanum við Sund. Haustið 2010 var ég lítið í skólanum og tók sénsinn á að keppa á sterkum áhugamótum víðsvegar um heiminn. Markmiðið var að bæta stöðuna á heimslistanum og opna fleiri möguleika varðandi háskólalið. Ég fór á Duke of York mótið og sigraði þar og fór á mörg mót í Bandaríkjunum. Málið er að þjálfarar í Bandaríkjunum taka mest mark á mótum í þeirra eigin landi. Þeir þekkja styrkleika mótanna og taka frekar eftir manni.

Ég hafði úr nokkrum möguleikum að velja þegar upp var staðið. Augusta State, Charlotte og Stanford komu til greina. Ég sé kannski mest eftir því að hafa ekki lagt mig meira fram við að komast í Stanford. En það er önnur saga. Ég fór að lokum í East Tennessee State og það var góður skóli fyrir mig á þeim tíma.“

Þjálfarar sem öskra 

Guðmundur segir að það hafi oft verið erfitt að tækla lífið einn í fjarlægu landi. 

„Það voru mikil viðbrigði fyrir mig að fara einn út og tækla lífið. Þjálfarar í háskólanum eru ekki eins og þjálfarar og hér heima. Þeir eru meira í ætt við liðsþjálfara. Það er öskrað á þig ef þú stendur þig ekki. Líkt og í körfuboltaleik eða slíkt. Það var lærdómsríkt fyrir mig að læra að standa mig í þessum aðstæðum. Stundum langaði mig bara að pakka saman og segja þjálfaranum það sem ég var að hugsa. Ég barðist bara í gegnum þetta og reyndi að læra af þessu. Það sem ég lærði mest af var að starfa með fólki sem er stundum mjög erfitt í samskiptum. Námið í eðlisfræðinnni gekk vel og smátt og smátt fór mér að líða betur. Eftir á að hyggja þá þurfti ég á þessari reynslu að halda. Slæmu hringirnir mínir eru mun betri en áður – og það telur mikið þegar upp er staðið. Í fyrra var lélegasti hringurinn minn 75 högg, sem er lélegt sem atvinnumaður, en er samt langt frá því sem ég gerði áður þegar ég átti slæman dag.“

Fyrsti sigurinn í háskólagolfinu mikilvægur 

Eins og áður segir stundaði Guðmundur Ágúst nám á eðlisfræðibraut í MS og einnig í East Tennessee State.

„Ég fékk alveg nóg af náminu seint á þriðja árinu mínu. Á þeim tíma sigraði ég á tveimur háskólamótum og komst í lokaúrslit NCAA. Á þeim tíma fann ég að golfið yrði nr. 1 hjá mér, eðlisfræðin mátti bíða betri tíma.“ 

Guðmundur Ágúst komst inn í einstaklingskeppnina á meistaramóti National Collegiate Athletic Association eða NCAA árið 2015. Aðeins tveir íslenskir kylfingar hafa náð þeim árangri. Guðmundur Ágúst og Úlfar Jónsson, sexfaldur Íslandsmeistari og núverandi íþróttastjóri GKG. 

„Liðið mitt komst ekki inn í lokamótið en ég komst inn vegna góðs árangurs í einstaklingskeppninni. Þarna mæta til leiks allir bestu háskókakylfingar Bandaríkjanna. Vellirnir sem notaðir eru á þessu móti eru gríðarlega langir og erfiðir. Skorin eru því ekki lág og allt annað golf í gangi en t.d. á PGA atvinnumóti. Aðstæður hjá East Tennessee State til æfinga og keppni voru fyrsta flokks. Við spiluðum marga geggjaða velli á svæðum sem fáir komast inn á. Æfingasvæðið á háskólasvæðinu var magnað, ProV1 æfingaboltar, Trackcman, myndavélakerfi, risapúttflöt og vippæfingaaðstaða. Allt þetta var á háskólalóðinni. Ég átti ekki bíl og gekk bara á æfingasvæðið frá heimili mínu. Það tók tíma að átta sig á samfélaginu í kringum East Tennessee State. Þar sem háskólar eru í Bandaríkjunum verður samfélagið öðruvísi. Meira frjálslyndi og umburðarlyndi. Í liðinu mínu voru margir Evrópubúar. Ég bjó í íbúð með Pólverja, Adrian Meronk, sem leikur í dag á Áskorendamótaröðinni, næststerkustu mótaröð Evrópu. Ég fylgist því vel með honum.“ 

Árið 2015 var gott ár

„Fyrsti sigurinn í háskólagolfinu er einn af hápunktunum á ferlinum fram til þessa og eitt af því mikilvægasta sem ég hef náð sem kylfingur. Ég lék einn hring á -9 og samtals á -17 og sigraði. Þarna var ég að leika á mjög lágu skori. Skor sem gæti dugað til sigurs á Evrópumótaröðinni. Til samanburðar sigraði ég á Duke of York á +4 samtals í hífandi roki. Ég náði að sigra á tveimur mótum á háskólaferlinum, reyndar deildi ég efsta sætinu á öðru þeirra en það er skráð sem sigur. Árið 2015 var gott ár, ég náði 3. sætinu í höggleiknum á Opna áhugamannamótinu og náði á topp 30 á Evrópumóti einstaklinga í Slóvakíu um haustið. Og ég náði að spila á 29 höggum á 9 holum á Evrópumóti einstaklinga. Það var eitthvað sem mig langaði að gera og ná.“ 

Æfingaferð á Sea Island og nýtt upphaf 

„Árin 2013 og 2014 voru erfið. Þar náði ég botninum á mínum ferli í háskólanum. Mér fannst erfitt að fara út í janúar eftir að hafa verið heima yfir jólin. Það var ekkert sérstaklega hlýtt í janúar og það var skelfilegur mánuður fyrir mig. Um haustið 2014 sagði þjálfarinn við mig að ég þyrfti að laga minn leik og tækni – annars yrði ég settur út. Hann sendi mig til Sea Island þar sem ég fékk yfirhalningu frá tveimur frábærum þjálfurum. Mike Shannon tók púttin hjá mér en hann þjálfaði m.a. Tiger Woods þegar hann var uppi á sitt besta. 

Todd Anderson tók síðan sveifluna hjá mér í gegn en hann hefur m.a. þjálfað Billy Horschel.  

Ég trúði því í rúm 2 ár að ég gæti „hjakkað“ mig sjálfur út úr þessu. Það var allt lélegt sem ég gerði og sjálfstraustið ekkert. Hinn venjulegi kylfingur getur ekki ímyndað sér hversu léleg golfhögg maður getur slegið. Skorið gefur ekki alltaf réttu myndina af því hvernig við erum að slá frá teig að flöt. Stutta spilið og púttin eru oftast í lagi og það bjargar skorinu. Þessi æfingaferð breytti öllu og hjálpaði mér mikið.“

Markvissari æfingar og meiri högglengd

Arnar Már Ólafsson er þjálfari Guðmundar í dag en þeir hafa starfað saman allt frá árinu 2016. 

„Arnar Már er í dag hjá GKG en ég flaug mikið út til Berlínar þegar hann var þar að kenna. Við náum vel saman og það skiptir öllu máli. Við hittumst ekki oft en tökum tarnir þegar tími gefst. Hann hefur hjálpað mér mikið og sérstaklega í að bæta högglengdina.

Ég hef markvisst unnið að því að bæta högglengdina. Líkamsræktin er stór þáttur í því en Vilhjálmur Steinarsson hefur aðstoðað mig mikið og bætt mig. Arnar Már lætur mig bara slá eins langt og ég get á æfingum. „Lúðraðu þessu eins langt og þú getur í 50 skipti,“ eru skilaboðin frá honum. Og síðan aftur og aftur. Árangurinn er töluverður. Kylfuhraðinn var 109 mílur á klukkustund en ég náði að komast upp í 121 mílu á klukkustund um síðustu jól. Venjulegur kylfuhraði er í dag um 112 hjá mér. Upphafshöggin hafa lengst mikið, úr um 240 metrum í 270 metra. Það breytir öllu til að eiga meiri möguleika á að koma boltanum nálægt holu. Meðalskorið í fyrra var 70,8 og ég finn að ég get bætt það töluvert. Ég ætlaði mér alltaf í atvinnumennsku. Það var engin spurning eftir háskólanámið. Ég er með BS-gráðu í eðlisfræði en það bíður betri tíma. 

Að ná árangri og ná langt í golfinu er það eina sem ég hugsa um og ætla að gera þessa stundina. Á síðustu árum hef ég breyst sem persóna. Þá á ég við að mér er alveg sama hvað öðrum finnst og hvað aðrir eru að gera. Það eina sem ég hugsa er hvernig næ ég árangri. Ég er eigingjarnari á þann tíma sem ég þarf til að gera það sem þarf til að ná langt. Í stuttu máli þá vel ég að gera það sem gerir mig betri í golfi. Allt annað er aukaatriði.

Svefn og endurheimt

Það kostar peninga að ná langt og taka þátt í öllum þessum mótum. Peningavitundin hefur breyst mikið hjá Guðmundi að hans sögn.

„Ég get ekki verið með samviskubit yfir því að hlutirnir kosta stundum mikið. Svona er þetta bara. Við strákarnir á Nordic Tour reynum að spara með því að leigja okkur íbúðir saman og elda heima. Það einfaldar lífið. Það er bara geggjað þegar við eldum saman strákarnir. Fajitas kjúklingavefja er minn réttur og góður morgunmatur er lykilatriði. Réttur matur er hluti af því að ná árangri. Svefninn er einnig mikilvægur og ég hef áttað mig betur á því eftir því sem árin líða. Ég er með betri rútínu í svefninum. Reyni alltaf að ná 8 tíma svefni og sofa ekki mikið lengur en 10 tíma ef maður kemst upp með það. Ef ég er ekki með nein plön að morgni til þá vakna ég samt og held rútínunni. Ég hlustaði um daginn á Podcast með LeBron James körfuboltamanni í NBA-deildinni. Svefn og endurheimt var nánast það eina sem hann talaði um. Ef maður er ekki ferskur á æfingasvæðinu þá er lítið gagn í æfingunni. Ég hef minnkað æfingamagnið á undanförnum árum en aukið gæðin í æfingunum í staðinn. Það eru ýmsar leiðir í atvinnumennskunni til að komast inn á mót og nýta þau tækifæri til að komast enn lengra. Haraldur Franklín sýndi það þegar hann kom inn á Opna breska í fyrra í gegnum úrtökumót. Ég fór inn á Evrópumótaröðina í Svíþjóð í fyrra í gegnum úrtökumót. 

Guðmundur Ágúst lék á sínu öðru móti á Evrópumótaröðinni, sterkustu mótaröð Evrópu, í lok maí. Frumraunina þreytti hann á Nordea Masters í Svíþjóð árið 2017. Þar komst hann ekki í gegnum niðurskurðinn. 

„Ég er þakklátur fyrir reynsluna sem ég fékk í Svíþjóð. Í dag er ég betur í stakk búinn til að ná betri árangri. Tæknin er betri, meiri högglengd og sjálfstraustið meira. Ég læt mig dreyma um að komast á risamótin en í augnablikinu er að best að vera í núinu. Klára verkefnið Nordic Tour, koma sér á stærri mótaröð og sjá síðan til hver staðan er eftir það. Nordic Tour er krefjandi verkefni, margir góðir leikmenn að berjast um fimm efstu sætin sem gefa tækifæri á Áskorendamótaröðinni. 

Birgir Leifur og Tiger Woods 

„Birgir Leifur Hafþórsson er sá kylfingur sem hefur haft mest áhrif á mig og ég lít mest upp til. Tiger Woods var að sjálfsögðu aðalmaðurinn þegar ég var yngri og ég fylgist mikið með honum. Birgir Leifur hefur reynst mér vel í gegnum landsliðsverkefnin á liðnum árum. Biggi er ekki bara geggjaður í golfi. Hann er einnig frábær manneskja og það er gott að vera í kringum hann. Biggi er alltaf tilbúinn að gefa góð ráð og ég leitaði ráða hjá honum fyrir 2. stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina. Í landsliðsverkefnum er hann flinkur að fá það besta út úr öllum í liðakeppni. Hann skilur hlutina og hefur reynsluna til að nálgast hlutina þannig að sem flestir nái sínum besta árangri.“

Forskot afrekssjóður er ómetanlegur

„Forskot er grunnurinn að því að ég get verið atvinnukylfingur og gert áætlanir. Stuðningur þeirra fyrirtækja sem standa að afrekssjóðnum er ómetanlegur. Það er undir mér komið að ná árangri og þegar það tekst koma fleiri og vilja styðja mann. Ég legg þetta þannig upp að ég spyr sjálfan mig hvort ég myndi leggja sjálfur pening í að styðja mig. Ég þarf einfaldlega að ná betri árangri til að ná enn lengra og ég hef trú á sjálfum mér í því verkefni. Tekjuhliðin í atvinnumennsku er einföld. Þú þarft að komast í gegnum niðurskurðinn til að fá verðlaunafé og eftir því sem þú ert ofar því hærri laun færðu. Þetta er því allt undir mér komið.“

Ættartréð:
Foreldrar Guðmundar eru Kristján Ágústsson og Guðný María Guðmundsdóttir. Systur hans eru Karen Ósk (1997) og Katrín Lind (2004). Afi og amma í föðurætt eru Ágúst Ögmundsson og Elínborg Kristjánsdóttir. Afi og amma í móðurætt eru Guðmundur Hallvarðsson og Hólmfríður María Óladóttir. 

Íslenskir sigurvegarar á atvinnumóti

2014: Þórður Rafn Gissurarson, GR, Jamega mótaröðin, England.
2017: Axel Bóasson, GK, Nordic Tour.
2017: Axel Bóasson, GK, Nordic Tour.
2017: Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, Challenge Tour, Evrópumótaröðin.
2019: Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, Nordic Tour. 


Helstu titlar á ferli Guðmundar

Alþjóðlegt áhugamannamót:
Duke of York 2010

Háskólamót í Bandaríkjunum:
Seminole Intercollegiate 2015
The Greenbrier Collegiate Invitational 2015

Stigamótaröð GSÍ:
Íslandsmótið í holukeppni 2013
Securitasmótið – GR bikarinn 2018

Klúbbmeistari GR 2010 og 2017

Unglingamótaröð GSÍ:
Íslandsmeistari: 2005, 2006, 2008, 2010
Íslandsmeistari í holukeppni: 2005, 2007, 2008, 2009

Atvinnumót:
Nordic Tour, Mediter Real Estate Masters 2019

Exit mobile version