Auglýsing

Grein úr fyrra bindi ritverksins Golf á Íslandi þar sem að saga golfíþróttarinnar á Íslandi er rakin allt frá því að hún tók að ryðja sér til rúms á fjórða áratug síðustu aldar. Í þessu riti er sagt frá frumkvöðlum, stofnun golfklúbba og hvernig þessi vinsælu almenningsíþrótt breiddist út um allt land. Rakin eru spor kylfinga landsins fram til nútímans í því mikla uppbyggingarstarfi sem hefur átt sér stað með gerð fjölmargra golfvalla og kröftugu starfi golfklúbba. Höfundar eru þau Steinar J. Lúðvíksson og Gullveig Sæmundsdóttir.

Íslenskir læknar kynntust golfinu ytra og fluttu það heim með sér. Stofnun Golfklúbbs Íslands. Á hrakhólum með aðstöðuna. Fyrstu mótin. Golfið nemur land á Akureyri og í Vestmannaeyjum.


Snemmsumars 1935 mátti sjá menn með torkennilegan búnað á ferð í Reykjavík. Þeir báru með sér poka og upp úr þeim stóð eitthvað sem tilsýndar líktist hrífusköftum eða prikum. Og leið þessara manna lá til sama staðar. Þeir voru á ferð inn að Laugum – þó ekki til þess að fara þar í sund eða þvo þvotta eins og flestir aðrir heldur til að iðka íþrótt sem fæstir bæjarbúar kunnu deili á.

Ákvörðunarstaðurinn var tún bæjarins Austurhlíðar. Þar vippuðu menn sér inn fyrir girðingu, gengu fram og til baka og sveifluðu tólum sínum. Þeir virtust hafa gaman af sem sást best á því að þeir komu aftur og aftur sömu erinda. Sjálfsagt hafa margir hrist höfuð yfir þessu tiltæki og ef nokkrir mannanna sem þarna voru að leik hefðu ekki verið kunnir og mikilsmetnir borgarar í Reykjavík hefðu ugglaust einhverjir talið að viðkomandi væru gengnir af göflunum.

Með ferðum þessara manna inn að Laugum var golfíþróttin að nema land á Íslandi. Allmargir höfðu raunar heyrt hennar getið og lesið lýsingar á því hvernig hún færi fram, ekki síst í blöðum Íslendinga í Vesturheimi sem öðru hverju sögðu frá íþróttinni m.a. frá séra N.S. Thorláksson sem lék golf á hverjum degi þótt hann væri að nálgast áttrætt Lögberg, Winnipeg 18. júní 1931, bls. 1. svo og í erlendum blöðum, aðallega breskum. Einhverja hefur sjálfsagt líka rámað í mikla ferðagrein sem Þorvaldur Thoroddsen hafði skrifað í Skírni endur fyrir löngu eða árið 1906 þar sem hann minntist nokkrum sinnum á að hafa séð golfvelli þegar hann ferðaðist um Bretlandseyjar árið 1906. Þá kom hann m.a. til skoska bæjarins St. Andrews sem hann sagði vera eldgamlan háskólabæ sem margir ferðalangar legðu leið sína til baðvista en þó ekki síður til að stunda golf. “Hér eru aðalheimkynni hnattleika þeirra, sem kallaðir eru “golf ” og Skotar leggja mikla stund á. Tvisvar á ári (í maí og október) eru stórir hnattleikafundir í St. Andrews og kemur þangað múgur og margmenni,” skrifaði Þorvaldur.Ferðaþættir frá Bretlandi eftir Þorvald Thoroddsen. Skírnir, 8. árg. 1906, bls. 320

Gamanið gat kárnað

Þess var gjarnan getið í íslenskum blöðum þá er þau fjölluðu um erlenda fyrirmenn að þeir stunduðu golf í tómstundum sínum og neðanmáls í dag- og vikublöðum voru gjarnan framhaldssögur um fyrirmenn sem léku golf á víðum völlum áður en þeir fóru í fínu klúbbana sína. Ástkonurnar eða eiginkonurnar fylgdust oft með þessum leik þeirra, fullar aðdáunar og gáfu frá sér hálfkæfð óp þegar eitthvað var sérstaklega vel gert. Þótt golfið þætti meinleysislegur leikur gat þó kárnað gamanið. Alla vega hafði Alþýðublaðið ljóta sögu að segja í októbermánuði árið 1931. Hún sagði frá fegurstu stúlkunni í bænum Methuen í Bandaríkjunum. J. Evart Hill hét hún og átti mikinn fjölda af aðdáendum og biðlum. Dag einn fór hún í golfleik með einum af áköfustu biðlum sínum. “Allt í einu sló hann kúluna í 20 metra fjarlægð frá stúlkunni en kúlan sentist í annað auga hennar og sprengdi það út.”Alþýðublaðið 16. október 1931 bls. 4 Þetta þótti mörgum ljótt að heyra og sanna að golfíþróttin væri ekki hættulaus fremur en aðrar íþróttagreinar.

Golfkúlur slegnar á árbökkum


Því fór fjarri að golfkúlurnar sem slegnar voru á túninu í Austurhlíð væru þær fyrstu sem flugu um loft á Íslandi. Löngu áður höfðu bæði útlendingar og Íslendingar reynt fyrir sér þótt engir væru golfvellirnir. Reyndu þeir að finna slétta bala og grundir, gjarnan árbakka, til að reyna hæfni sína í íþróttinni. Þannig fréttist það t.d. þegar árið 1912 að fundist hefðu hvítar kúlur við Laxá í Aðaldal og rifjaðist þá upp fyrir mönnum að enskur laxveiðimaður hefði verið að leika sér að því að slá slíkar kúlur á árbökkunum milli þess sem hann renndi fyrir lónbúann. Sumar kúlurnar höfðu ekki ratað rétta leið og horfið honum í mosa eða gras þar sem þær fundust löngu, löngu síðar. Og víst er að William F. Pálsson sem lengst af ævi sinnar var bóndi og frímerkjakaupmaður á Halldórsstöðum í Laxárdal nyrðra hefur einhvers staðar á heimaslóðum sínum slegið golfbolta. William sem fæddur var árið 1896 átti skoska móður fór með henni til Skotlands á unglingsárum sínum og þar hefur hann kynnst golfíþróttinni.Þjóðviljinn 13.-14. desember 1980 bls. 16. Þegar hann hélt heimleiðis aftur hafði hann í fórum sínum nokkrar golfkylfur og bolta. Engum sögum fer af því hvort og hvernig hann stundaði íþróttina á Húsavík þar sem hann vann sem verslunarmaður um tíma eða þá á Halldórsstöðum. En kylfurnar varðveitti hann og þegar hann var orðinn aldraður maður árið 1977 gaf hann Golfklúbbi Húsavíkur þessa eðalgripi og hanga þeir þar nú uppi á vegg – sennilega elstu golfkylfur sem til eru í landinu. Í Reykjavík höfðu margir veitt athygli ungum pilti, Jóni Thorlacius sem sást oft slá hvítar kúlur þar sem aðstaða var til. Jón hafði ungur flutt með foreldrum sínum til Kanada þar sem kynntist golfinu og keypti sér kylfur og kúlur sem hann hafði meðferðis er hann flutti aftur til Íslands, þá unglingur. Jón sem lengst af starfaði sem prentsmiðjustjóri í Félagsprentsmiðjunnu átti eftir að koma mikið við sögu golfsins á Íslandi. Hann átti m.a. sæti í stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur og var formaður Nesklúbbsins um árabil, auk þess sem hann ritstýrði blaðinu Kylfingi um tíma.

Morgunblaðið 27. júní 1999 bls. 35.

Walter Arneson kom hingað til lands í ársbyrjun 1935 til að kenna golf í gamla Landsímahúsinu. Hann var því fyrsti golfkennari landsins. 

Tískan festi orðið golf í sessi

Ekkert vafamál er hins vegar hvernig Íslendingar kynntust orðinu golf best og hefur sennilega fest það strax í sessi fremur en önnur orð sem notuð voru um íþróttina í frumbernsku hennar í landinu. Snemma á öldinni fóru að berast flíkur til landsins, svokallaðar golfblússur sem urðu fljótlega eftirsóttar og einskonar tískuvara sérstaklega á þriðja og fjórða áratug aldarinnar. Um var að ræða mittisblússur bæði á karla og konur og þótti enginn maður með mönnum sem ekki átti slíka flík hvortheldur til að ganga í hversdags eða nota sem spariflík. Verslanirnar auglýstu slíkan fatnað hver í kappi við aðra og þannig varð orðið golf tamt á tungu landans þegar fæstir vissu að til væri íþróttagrein sem héti þessu nafni. Orðið kólfleikur og afleidd orð af því sem sumir vildu velja íþróttinni náði því aldrei að festa sig í sessi.

Almenningsgolfvellir juku útbreiðsluna

Fjölmargir Íslendingar sem stunduðu nám erlendis kynntust golfíþróttinni ýmist af eigin raun eða af afspurn. Golfið átti hvarvetna auknum vinsældum að fagna og þá ekki síst á þeim slóðum sem Íslendingar sóttu mest, í Bretlandi og á Norðurlöndunum. Þar voru að verða þau þáttaskil í sögu íþróttarinnar að það voru ekki lengur aðeins fyrirmenn og aðallinn sem áttu nóg lönd til þess að gera nothæfa golfvelli sem stunduðu íþróttina. Ýmis sveitarfélög og samtök tóku íþróttina upp á arma sér og sáu til þess að gerðir voru golfvellir sem allur almenningur fékk aðgang að. Aukin eftirspurn hafði það svo í för með sér að farið var að framleiða golfáhöld í verksmiðjum en lengst af höfðu þau verið handgerð og voru þar með rándýrir kjörgripir sem tiltölulega fáir höfðu efni á að eignast. Verksmiðjuframleiðslan varð til þess að farið var að nota nýjar aðferðir við smíðina og verðið lækkaði til muna.

Kólfleikurinn við allra hæfi

Kólfleikur var áður leikur yfirstéttarmanna, sem höfðu efni á að kaupa dýr landflæmi og láta breyta þeim í leikvöll. En í seinni tíð hafa bæjarfélög víða um heim látið gera leikvelli og gert leikinn ódýran og almennan, og svo þarf að verða hér á landi. Við þetta hefir leikurinn farið eins og kólfi væri skotið um löndin, enda er hann við hæfi allra, ungra sem gamalla, íþróttamanna og kyrrsetumanna. Það má iðka hann einn sér og með mörgum félögum. Það má fara hart eða hægt yfir. Það má iðka hann í stillu og stormi, sól og regni, á öllum árstíðum, nema þegar snjór liggur yfir landinu. Kólfleikurinn fellur vel við náttúruskilyrði okkar og ástæður hvers einstaks, en ódýr verður hann fyrst þegar bæjarfélagið kemur til hjálpar og býr í haginn. (Út um grænar grundir. Kylfingur 2. tbl. 1. árg. júní 1935)

Heppileg íþrótt

-Og hvaða íþróttir álitið þér heppilegastar?

-Tvímælalaust allar útiíþróttir fyrst og fremst. Þær eru án efa heilsusamlegastar. Af útiíþróttum skal ég sérstaklega nefna golfíþróttina því það er íþrótt sem óhætt er að iðka án nokkurrar hættu fyrir heilsuna. Golfið þjálfar allan líkamann jafnt og hæfir öllum jafnt, ungum sem gömlum, veikluðum sem hraustum. Auk þess má segja, að golfíþróttin hafi þann eiginleika fram yfir margar aðrar íþróttir að hún er einstaklega aðlaðandi og skemmtileg. Menn gleyma öllum áhyggjum daglega lífsins meðan þeir leika golf og þess vegna er mikil hvíld í að leika þá íþrótt. Og vegna þessa og margs annars nenna menn svo vel að iðka golf, enda hefir það sannast að menn sem einu sinni byrja að iðka golf og komast eitthvað inn í þá íþrótt hætta aldrei.
(Dr. med Halldór Hansen í viðtali við Morgunblaðið 7. maí 1939)

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ