Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri Golfsamband Íslands, hefur tilkynnt hvaða leikmenn skipa kvenna- og karlalandslið Íslands á Heimsmeistaramóti áhugakylfinga 2022.
Í íslensku landsliðunum eru sex kylfingar, þrjár konur og þrír karlar, og fimm þeirra hafa ekki áður tekið þátt á Heimsmeistaramóti.
Heimsmeistaramótin fara fram í næsta mánuði á vel þekktum golfvöllum í París í Frakklandi. Landsliðshópur Íslands hélt til Parísar fyrir tveimur vikum í vel heppnaða æfingaferð og léku báða vellina í undirbúningi fyrir mótið.
Heimsmeistaramót kvenna, Espirito Santo Trophy, fer fram 24.-27. ágúst og Heimsmeistaramót karla, Eisenhower Trophy, fer fram 31.-3. september.
Leikfyrirkomulagið er 72 holu höggleikur. Hvert lið samanstendur af þremur kylfingum og telja tvö bestu skorin hvern dag.
Öll liðin leika tvo hringi á hvorum keppnisvöllunum sem eru Le Golf National og Golf de Saint-Nom-La-Brèteche.
Sá fyrrnefndi var keppnisvöllurinn í Ryder bikarnum árið 2018 og árið 2024 verður keppt í golfi á þessum velli á Ólympíuleikunum.
Heimsmeistaramótið er haldið á tveggja ára fresti. Vegna áhrifa heimsfaraldurs eru nú liðin 4 ár frá því Heimsmeistaramót fór síðast fram, á Írlandi 2018. Ragnhildur Kristinsdóttir tók þátt það ár en aðrir kylfingar taka nú þátt í sínu fyrsta HM.
Íslenska kvennalandsliðið er þannnig skipað:
Andrea Björg Bergsdóttir, Hills GC
Hulda Clara Gestsdóttir, GKG
Ragnhildur Kristinsdóttir, GR

Íslenska karlalandsliðið er þannig skipað:
Hákon Örn Magnússon, GR
Hlynur Bergsson, GKG
Sigurður Bjarki Blumenstein, GR

Þjálfari liðanna er Ólafur Björn Loftsson og sjúkraþjálfari er Baldur Gunnbjörnsson.
Nánari upplýsingar um mótið er að finna hér:
Þátttökulisti mótsins er hér:
Eins og áður hefur komið fram fór Heimsmeistaramótið síðast fram árið 2018 á Carton House völlunum á Írlandi. Bandaríkin stóðu uppi sem sigurvegarar í kvennaflokki árið 2018 og var það í 14. sinn sem kvennalandslið Bandaríkjanna landar Espirito Santo verðlaununum.
Danska karlalandsliðið fagnaði sigri í karlaflokki árið 2018 og var það í fyrsta sinn sem Danir landa Eisenhower verðlaununum.
Alþjóða golfsambandið, IGF, er framkvæmdaraðili mótsins en 150 golfsambönd víðsvegar um veröldina eru undir hatti IGF.
Hér eru myndir úr æfingaferð landsliða Íslands í Frakklandi.


