Golfsamband Íslands

The Lava Challenge – nýtt miðnæturmót fyrir erlenda kylfinga

Þorvaldur Þorsteinsson framkvæmdastjóri GO og Ólafur Þór Ágústsson framkvæmdastjóri GK.

Golfklúbburinn Keilir og Golfklúbburinn Oddur hafa tekið höndum saman og munu standa fyrir The Lava Challenge miðnæturgolfmótinu sem fram fer á golfvöllum klúbbanna í sumar. Hvaleyrarvöllur í Hafnarfirði og Urriðavöllur í Garðabæ hafa á undanfarin ár verið í hópi fremstu golfvalla landsins.

The Lava Challenge er 36 holu golfmót og munu kylfingar fá tækifæri til að leika í miðnætursólinni en gert ráð fyrir að kylfingar ljúki leik vel eftir miðnætti. Leikinn er einn hringur á hvorum velli og er mótið sérstaklega ætlað erlendum kylfingum sem hafa hug á því heimsækja Ísland og leika golf. Mótið er einnig opið íslenskum kylfingum.

Mótið fer fram 20. – 21. júní og er von á fjölda erlenda kylfinga til þátttöku. Stefnt er að því að mótið verði árviss viðburður.

Nafn mótsins, The Lava Challenge, er dregið til hraunsins sem setur sterkan svip á Hvaleyrarvöll og Urriðavöll. Í gegnum tíðina hafa erlendir kylfingar dásamað upplifun sína af því að leika golf í íslensku hrauni og tilvalið tækifæri fyrir erlenda kylfinga að keppa í alþjóðlegu golfmóti á þessum tveimur völlum þar sem hraunið kemur svo sannarlega við sögu.

Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Odds:
„Við erum afar ánægðir með að hefja þetta samstarf með Golfklúbbnum Keili og standa saman að árlegu og alþjóðlegu golfmóti. Það er von okkar að þetta auki áhuga erlendra kylfinga á að heimsækja Ísland. Við finnum fyrir auknum áhuga erlendis frá og ég er þess fullviss að The Lava Challenge miðnæturmótið á eftir að vekja mikla athygli.“

Ólafur Þór Ágústsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Keilis:
„Það var okkar tilfinning að það væri fyrir löngu orðið tímabært að setja á laggirnar stórt alþjóðlegt miðnæturmót á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikil eftirspurn eftir miðnæturgolfi og við teljum okkur vera að svara ákalli um mót af þessari stærðargráðu. Gæði íslenskra golfvalla eru sífellt að aukast og það kemur erlendum kylfingum á óvart hversu góðir íslenskir golfvellir eru í raun og veru. Það er mjög spennandi sumar í vændum.“

Frá Hvaleyrarvelli hjá Golfklúbbnum Keili.
Frá Hvaleyrarvelli hjá Golfklúbbnum Keili

 

Frá Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi

 

Exit mobile version