Nýverið var samþykkt tillaga frá mótanefnd GSÍ þess efnis að GSÍ standi fyrir stigakeppni golfklúbba sem er liðakeppni golfklúbba innan valinna móta á mótaröð fullorðinna, sbr. reglugerð um stigamót. Keppnin fer fram í þeim mótum á mótaröð fullorðinna þar sem hámarksfjöldi þátttakenda er 60 eða meiri.
Í hverju liði eru fjórir keppendur í karlaflokki og þrír í kvennaflokki. Í karlaflokki telja þrjú bestu skor og í kvennaflokki tvö bestu skor.
Klúbbar sem vilja senda lið til keppni skulu tilkynna liðsskipan til GSÍ a.m.k. tveimur sólarhringum áður en mót hefst (t.d. í síðasta lagi kl. 23:59 á miðvikudegi ef mótið hefst á föstudegi).
Berist liðsskipan ekki innan þeirra tímamarka skulu fjórir forgjafarlægstu keppendur í karlaflokki teljast í liðinu og þrír forgjafarlægstu í kvennaflokki. Ef tveir eða fleiri keppendur hafa sömu forgjöf skal hlutkesti ráða.
Lið fá stig í keppninni í samræmi við árangur liðsins í hverju móti. Stig reiknast eins og fram kemur í viðauka I í reglugerð um stigamót.
Stigameistarar golfklúbba í flokki karla og í flokki kvenna eru þau lið sem eru efst að samanlögðum stigum eftir lokamót keppnistímabilsins.
Ef tvö lið eru jöfn telst það lið sigurvegari sem efst hefur orðið í fleiri mótum og ef þau eru enn jöfn sigrar það lið sem hefur lægra heildarskor úr stigamótunum. Fáist ekki úrslit með þessu móti ræður hlutkesti.