Lög GSÍ

Samþykkt af golfþingi í nóvember 2023.

Lög GSÍ á .pdf

Lög um dómstóla GSÍ á .pdf

1. gr.

Golfsamband Íslands, skammstafað GSÍ, er æðsti aðili um allt varðandi golfíþróttina innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, skammstafað ÍSÍ.

Aðsetur þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

GSÍ er samband golfklúbba innan héraðssambanda og íþróttabandalaga, sem mynda ÍSÍ og iðka golfíþróttina samkvæmt reglum „R&A Rules Limited“. Skilyrt er að lög klúbbanna samrýmist lögum GSÍ og ÍSÍ og að klúbbarnir hafi heimavöll.

3. gr.

Tilgangur Golfsambandsins felst í inntaki 1. greinar þessara laga og skal starfsemi sambandsins skiptast í skylduverkefni annars vegar og önnur verkefni hins vegar.

Skylduverkefni Golfsambandsins skulu vera eftirfarandi:

  1. Vinna að framgangi golfíþróttarinnar og útbreiðslu hennar á Íslandi.
  2. Annast mat golfvalla vegna forgjafar.
  3. Hafa umsjón og eftirlit með forgjafarmálum.
  4. Stuðla að fræðslu og menntun dómara vegna golfreglna R&A Rules Limited.
  5. Annast þátttöku og val á keppendum sem keppa fyrir Íslands hönd í alþjóðlegum vettvangi.
  6. Sjá um framkvæmd Íslandsmóta í öllum aldursflokkum.
  7. Annast erlend samskipti.

Önnur verkefni Golfsambandsins eru þau verkefni sem golfþing og stjórn sambandsins ákveða að sambandið skuli sinna hverju sinni.

4. gr.

Málefnum GSÍ stjórna:

  1. golfþing,
  2. stjórn GSÍ,
  3. formannafundur.

5. gr.

Golfþingið fer með æðsta vald í málefnum GSÍ og skal haldið annað hvert ár á tímabilinu 15. október til 30. nóvember. Þingið sitja tilnefndir fulltrúar þeirra golfklúbba sem mynda sambandið.

Fulltrúafjöldi hvers klúbbs fer eftir félagafjölda 1. júlí þingárið, 16 ára og eldri. Tveir fulltrúar fyrir fyrstu 300 félaga eða færri. Síðan einn fulltrúi fyrir hvert byrjað hundrað.

Til þingsins er boðað bréflega með minnst mánaðar fyrirvara. Stjórn GSÍ skal kynna félögum Golfsambandsins dagskrá þingsins og önnur málefni sem hún hyggst leggja fyrir það, 14 dögum fyrir þing. Málefni sem fulltrúar golfklúbba óska að tekin verði til umræðu á þinginu skulu þeir kynna stjórn GSÍ með a.m.k. 20 daga fyrirvara. Þingið getur þó tekið fyrir mál borin upp með styttri fyrirvara, að fengnu samþykki 2/3 hluta þingfulltrúa.

Golfþingið er löglegt, ef löglega hefur verið til þess boðað.

Á golfþingi skal kjósa kjörnefnd skipaða fimm fulltrúum, sem starfar til loka næsta þings. Tilkynningar um framboð til embætta skulu berast skrifstofu GSÍ eigi síðar en tveimur vikum fyrir þing. Hafi ekki nægjanlegur fjöldi gefið kost á sér á þeim tíma er kjörnefnd heimilt að framlengja framboðsfrestinn enda sé það tryggilega tilkynnt golfklúbbum sem mynda sambandið. Hafi þrátt fyrir það eigi borist næg framboð skal kjörnefnd hlutast til um að afla nauðsynlegs fjölda framboða. Að framboðsfresti liðnum skal kjörnefnd kynna frambjóðendur á vef GSÍ.

6. gr.

Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf og fullan atkvæðisrétt samkvæmt þeim, samþykki þingið kjörbréfin. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði, en getur auk þess farið með eitt annað atkvæði, samkvæmt skriflegu umboði klúbbstjórnar.

Við afgreiðslu almennra mála og í kosningum ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða.

Auk þingfulltrúa eiga rétt á þingsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt:

  1. stjórn GSÍ,
  2. endurskoðendur GSÍ,
  3. 2 fulltrúar frá LEK, 2 fulltrúar frá IPGA, 2 fulltrúar frá SÍGÍ og 2 fulltrúar frá GSFÍ sbr. 19. grein.
  4. framkvæmdastjórn ÍSÍ.
  5. einn fulltrúi frá stjórn hvers héraðssambands eða íþróttabandalags sem hefur golf innan sinna vébanda.

Þess utan getur stjórn GSÍ boðið aðilum þingsetu ef hún telur ástæðu til.

7. gr.

Aukaþing má halda er nauðsyn krefur eða helmingur golfklúbba sem mynda Golfsambandið óskar þess. Allur boðunar- og tilkynningarfrestur til aukaþings má vera helmingi styttri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa sem er látinn, veikur eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera lagabreytingar og ekki kjósa stjórn nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum, eða stjórnin að eigin dómi orðið óstarfhæf.

Að öðru leyti gilda um það sömu lagaákvæði og um reglulegt golfþing.

Það ár sem golfþing er ekki haldið skal stjórn GSÍ boða til formannafundar allra þeirra golfklúbba sem mynda Golfsambandið. Til fundarins skal boða með sama hætti og til golfþings. Fundurinn er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Á dagskrá formannafundar skal vera:

  1. Skýrsla stjórnar GSÍ
  2. Samþykkt reikninga GSÍ
  3. Fjárhagsáætlun næsta starfstímabils
  4. Önnur mál.

8. gr.

 Dagskrá golfþings skal vera:

  1. Þingsetning.
  2. Innganga nýrra golfklúbba.
  3. Kosning þriggja manna í kjörbréfanefnd. Nefndin skal yfir fara kjörbréf og gera grein fyrir störfum  sínum áður en 7. dagskrárliður hefst.
  4. Kosning fyrsta og annars þingforseta.
  5. Kosning fyrsta og annars þingritara.
  6. Fráfarandi stjórn gefur skýrslu sína.
  7. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga GSÍ.
  8. Umræður um skýrslu stjórnar auk umræðna og atkvæðagreiðslu um reikninga sambandsins.
  9. Skipað í starfsnefndir þingsins.
  10. Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfstímabil, ásamt tillögum um félagagjöld og mótagjöld.
  11. Lagðar fram lagabreytingar sem stjórninni hafa borist með löglegum fyrirvara.
  12. Teknar til umræðu aðrar tillögur og önnur mál sem borist hafa til stjórnarinnar.
  13. Nefndir starfa.
  14. Nefndaálit og tillögur. Umræður og atkvæðagreiðsla um lagabreytingar og framkomin mál.
  15. Önnur mál.
  16. Kjörnefnd kynnir frambjóðendur til embætta.
  17. Kosning stjórnar sbr. 9. gr.
  18. Kosning tveggja endurskoðenda og tveggja til vara.
  19. Kosning þriggja dómara og þriggja til vara í áfrýjunardómstól GSÍ. Kosning þriggja dómara í dómstól GSÍ. Kosning þriggja fulltrúa og þriggja til vara í áhugamennskunefnd, aganefnd, dómaranefnd og forgjafar-og vallarmatsnefnd. Kosning fimm fulltrúa í heiðursveitinganefnd.
  20. Kosning fimm manna í kjörnefnd, sbr. 6. mgr. 5. gr.
  21. Kosning fulltrúa og varafulltrúa GSÍ á Íþróttaþing ÍSÍ árið sem Íþróttaþing fer fram, skv. lögum ÍSÍ.
  22. Þingslit.

9. gr.

Stjórn Golfsambandsins skal skipuð 11 fulltrúum. Kjörtímabil forseta er tvö ár og annars stjórnarfólks fjögur ár, þannig að fimm eru kjörin á hverju golfþingi. Kjósa skal bundinni kosningu, fyrst forseta og síðan fimm önnur. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.

Hætti stjórnarfulltrúi störfum eða falli hann frá skal kosinn stjórnarfulltrúi í staðinn í hans stað á næsta golfþingi og skal kjörtímabil hans vera það sama og þess sem hann kemur í stað.

Ákvæði til bráðabirgða: Á golfþingi 2023 skal kjósa tíu stjórnarmenn. Að kosningu lokinni skal hlutkesti ráða hverjir fimm eru kosnir til tveggja ára og hverjir fimm til fjögurra ára.

10. gr.

Skyldur stjórnarinnar eru:

  1. að hafa á hendi þær framkvæmdir, sem undir sambandið heyra,
  2. að sjá um að farið sé eftir viðurkenndum golfreglum, lögum sambandsins og fyrirmælum golfþings og samþykktum formannafundar
  3. að setja nauðsynlegar reglur og reglugerðir um golfíþróttina.
  4. að ákveða stund og stað fyrir golfþing.
  5. að tilnefna fulltrúa og varafulltrúa á ársþing ÍSÍ,
  6. að stuðla að opnum mótum,
  7. að skipa fjárhagsnefnd og aðrar starfsnefndir strax að loknu golfþingi og setja nefndunum erindisbréf.
  8. að taka ákvarðanir um veitingu heiðursmerkja og heiðurstitla GSÍ,
  9. að fara yfir umsóknir um aðild að GSÍ og samþykkja nýja golfklúbba. 

11. gr.

Stjórn GSÍ setur nauðsynlegar reglugerðir um þau málefni sem snúa að allri framkvæmd laga þessara. Nær það til allra breytinga á gildandi reglugerðum sem og setningu nýrra reglugerða.

Nýjar reglugerðir og breytingar á þeim skulu kynntar golfklúbbum með rafrænum hætti og taka þær gildi samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar GSÍ. Ekki þarf að birta þær með sérstökum hætti svo þær öðlist gildi heldur er nægjanlegt að þær séu kynntar með rafrænum hætti og á heimasíðu GSÍ.

Óski golfklúbbur eftir setningu nýrra reglugerða eða breytinga á gildandi reglugerðum skal slíkum óskum beint til stjórnar GSÍ.

12. gr.

Stjórn Golfsambandsins getur falið stjórnum golfklúbba og félögum innan GSÍ að vera fulltrúar sambandsins í viðkomandi heimabyggð. Stjórn GSÍ er heimilt að ráða launað starfsfólk. 

13. gr.

Inntökugjald er ekkert. Félagsfólk í golfklúbbum greiðir félagagjald til GSÍ sem er ákveðin fjárhæð fyrir hvern félaga. Félagagjöld eru ákveðin af golfþingi fyrir næstu tvö ár. Gjaldstofn miðast við félagaskrá í gagnagrunni Golfsambandsins 1. júlí ár hvert. Golfklúbbar innheimta félagagjöld fyrir hönd GSÍ og skila fénu þannig að hluti félagagjalds, sem nemur 50% af félagagjaldi liðins árs, skal greiða fyrir fram 1. apríl ár hvert og skal endanlegt uppgjör félagagjalda fara fram 1. ágúst ár hvert.

Ef félagagjöld eru ekki greidd á gjalddaga skal stjórn Golfsambandsins hefja eftirfarandi innheimtuaðgerðir:

  1. Innheimta dráttarvexti af vangoldnum félagagjöldum.
  2. Loka fyrir stjórnendaaðgang klúbbanna að upplýsingakerfi golfhreyfingarinnar ef ekki er greitt innan 30 daga frá gjalddaga.
  3. Loka fyrir almennan aðgang félaga klúbbanna að upplýsingakerfi golfhreyfingarinnar ef ekki er greitt innan 60 daga frá gjalddaga.

Tilkynna skal viðkomandi klúbbi ákvörðun um aðgerðir samkvæmt liðum b) og c) með a.m.k. viku fyrirvara.

14. gr.

Félagatal aðila miðað við 1. júlí skal senda í tölvuskrá til Golfsambandsstjórnar fyrir 1. ágúst ár hvert. Ársskýrslur og ársreikningar aðila skulu sendast í tölvuskrá til Golfsambandsstjórnar fyrir 1. febrúar ár hvert.

15. gr.

Reikningsár Golfsambandsins er 1. október til 30. september. Reikningar sambandsins skulu liggja fyrir undirritaðir á skrifstofu sambandsins viku fyrir golfþing og formannafund.

16. gr.

Árlega skal leggja fjárframlög í sérstakan sjóð sem hefur það hlutverk að styrkja golfklúbba við rekstur golfvalla sinna eða mannvirkja. Golfþing skal ákveða fjárframlög til sjóðsins til næstu tveggja ára samkvæmt tillögu stjórnar Golfsambandsins. Stjórn Golfsambandsins skal setja nánari reglur um starfsemi sjóðsins.

17. gr.

Golfsambandið sér um að haldin séu meistaramót fyrir allt landið. Golfsambandið setur reglur um þau mót sem það gengst fyrir og fyrir opin mót.

18. gr.

Félagaskipti skulu fara fram í samræmi við móta- og keppendareglur ÍSÍ. Skilyrði fyrir félagaskiptum er að félagi sé skuldlaus í fyrri klúbbi.

19. gr.

Dómstóll GSÍ og áfrýjunardómstóll GSÍ skulu starfa samkvæmt lögum um dómstóla Golfsambands Íslands.

Á vegum Golfsambandsins starfa, áhugamennskunefnd, forgjafarnefnd, dómaranefnd og aganefnd, hver um sig skipuð þremur fulltrúum og þremur til vara, og heiðursveitinganefnd skipuð fimm fulltrúum. Fulltrúar eru kjörnir á golfþingi til tveggja ára í senn. Nefndirnar kjósa sér sjálfar formann.

Áhugamennskunefndin fjallar um brot á áhugamannareglunum og starfar samkvæmt samþykktum R&A Rules Limited. Úrskurðum hennar um sviptingu eða endurheimt áhugamannaréttinda má áfrýja til Áfrýjunardómstóls GSÍ.

Aganefndin fjallar um agavandamál keppenda, starfsfólks og áhorfenda vegna opinna móta og móta á vegum GSÍ auk agamála starfsfólks og keppenda á vegum GSÍ vegna annarra móta og keppnisferða sem GSÍ velur þátttakendur í. Málskotsrétt til aganefndar hafa mótsstjórnir, dómarar, eftirlitsmenn GSÍ svo og stjórn sambandsins. Heimilt er að skjóta til Áfrýjunardómstóls GSÍ úrskurðum aganefndar sem kveða á um keppnisbann í meira en þrjá mánuði eða keppnisbann í fleiri en sex mótum. Að öðru leyti eru úrskurðir aganefndar endanlegir. Aganefnd starfar samkvæmt sérstakri reglugerð settri af stjórn GSÍ.

Forgjafar-og vallarmatsnefnd fer með framkvæmd forgjafar- og vallarmatsmála. Hún skal úrskurða um öll deilumál sem til Golfsambandsins er vísað vegna forgjafar eða forgjafarkerfisins. Úrskurðum hennar má áfrýja til Áfrýjunardómstóls GSÍ.

Dómaranefnd skal meðal annars fara með málefni golfdóma, hafa umsjón með menntun golfdómara, vera stjórn GSÍ til ráðgjafar í öllum málum er varða golfdómara og golfreglur. Dómaranefnd starfar samkvæmt sérstakri reglugerð settri af stjórn GSÍ.

Heiðursveitinganefnd skal fjalla um tilnefningar til heiðursveitinga og gera tillögur um heiðursveitingar til stjórnar GSÍ. Heiðursveitinganefnd starfar samkvæmt sérstakri reglugerð sem stjórn GSÍ setur.

20. gr.

Golfsamband Íslands verður ekki lagt niður nema 4/5 þeirra fulltrúa sem sæti eiga á golfþingi samkvæmt þessum lögum samþykki það á tveimur þingum í röð og ekki líði meira en eitt ár á milli þinga. Með slíkri samþykkt á síðara þinginu er störfum þess þings lokið, en samtímis skal það ráðstafa eignum sambandsins.

21. gr.

Lögum þessum má breyta á reglulegu golfþingi með 2/3 atkvæða enda hafi tillögur þar um borist stjórn Golfsambandsins ekki síðar en mánuði fyrir golfþing. Lögin öðlast gildi þegar framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur staðfest þau.

22.gr.

Þannig samþykkt á golfþingi 11. nóvember 2023. Lögin öðlast þegar gildi.

Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ