Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GR og Nick Carlson úr GM hefja leik í dag, föstudaginn 8. nóvember, á lokaúrtökumótinu fyrir DP World atvinnumótaröðina í karlaflokki – en mótaröðin er í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í karlaflokki í Evrópu.
Alls eru leiknir sex keppnishringir á sex keppnisdögum. Á lokaúrtökumótinu keppa 156 kylfingar og fá 20 efstu kylfingarnir keppnisrétt á DP World Tour á næsta tímabili.
Nick Carlson er með Ítalanum Lorenzo Scalise og Finnlendingnum Kalle Samooja í ráshóp fyrstu tvo keppnisdagana. Kalle á að baki fimm tímabil á DP World mótaröðinni og einn sigur árið 2022.
Guðmundur er með Benjamin Follett-Smith frá Zimbabwe og Englendingnum Eddie Pepperell í ráshóp fyrstu tvo keppnisdagana. Eddie hefur leikið á DP World mótaröðinni síðan 2013 og sigraði til að mynda tvívegis þar árið 2018.
Keppnisvellirnir, Hills og Lakes, eru á Infinitum golfsvæðinu á Spáni rétt hjá Tarragona borginni.
Að loknum fjórða keppnisdegi komast 65 efstu áfram á síðustu tvo keppnisdagana. Þeir kylfingar sem komast í gegnum niðurskurðinn en ná ekki að vera á meðal 20 efstu fá takmarkaðan keppnisrétt á DP World mótaröðinni og fullan keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour.
Síðustu tvö ár hafa kylfingar þurft að vera á -5 eða betur til að komast í gegnum niðurskurðurinn eftir fjórða hring.
Smelltu hér fyrir stöðuna á lokaúrtökumótinu á DP World Tour.
Skorið er uppfært á þriggja holu fresti.