Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Auglýsing

Það eru mikilvægir keppnisdagar framundan hjá Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, atvinnukylfingi úr GR. Íslandsmeistarinn í golfi 2016 hefur leik á lokaúrtökumótinu fyrir sterkustu atvinnumótaröð kvenna miðvikudaginn 30. nóvember. Þar keppa 158 kylfingar um 20 laus sæti á LPGA í Bandaríkjunum. Hér fyrir neðan er velt upp ýmsum spurningum varðandi úrtökumótið og þeim svarað eftir bestu getu. Allar athugasemdir og ábendingar eru vel þegnar á netfangið seth@golf.is 

Hvað þarf Ólafía Þórunn að gera til að komast alla leið?

Ólaf Þórunn þarf að enda í hópi 20 efstu eftir fimmta keppnisdaginn til þess að öðlast keppnisrétt á LPGA mótaröðinni. Í fyrra voru þrír kylfingar jafnir á -4 samtals eftir 90 holur í 19.-21. sæti og léku þær í bráðabana um sæti nr. 19. og 20. Sú sem varð í 21. sæti sat eftir með sárt ennið. Alls komast 70 efstu kylfingarnir í gegnum niðurskurðinn eftir fjórða keppnisdaginn.

[pull_quote_right]Ólaf Þórunn þarf að enda í hópi 20 efstu eftir fimmta keppnisdaginn til þess að öðlast keppnisrétt á LPGA mótaröðinni.[/pull_quote_right]

Hvað eru margir sem taka þátt á lokastiginu?

Það eru 158 kylfingar sem taka þátt og aðeins 20 efstu fá keppnisrétt á LPGA mótaröðinni.

Hvar er leikið og hvenær?

3. stigið (lokaúrtökumótið) hefst miðvikudaginn 30. nóvember og lokakeppnisdagurinn fer fram sunnudaginn 4. desember. Leikið á LPGA International golfsvæðinu við Daytona Beach, Flórída. Keppnisvellirnir eru tveir og heita þeir Hills og Jones.

Lokahringurinn eða sá fimmti verður leikinn á Hills vellinum. Allir keppendur verða að hafa aðstoðarmann með á vellinum og verður Kristinn Jósep Kristinsson bróðir Ólafíu með henni sem kylfuberi. Bannað er að nota rafmagnskerrur.
Ólafía getur með góðum árangir bætt stöðu sína á styrkleikalista Symetra mótaraðarinnar.

Hvað ef Ólafía endar í sætum nr. 21.-45?

Þá fær Ólafía takmarkaðan keppnisrétt í styrkleikaflokki 17 á LPGA. Það þýðir í raun að hún fær einhver tækifæri á þeim mótum sem eru ekki ofarlega í forgagnsröðun hjá þeim kylfingum sem eru með fullan keppnisrétt.

Er verðlaunafé á lokaúrtökumótinu?

þeir kylfingar sem enda í sætum 1.-20. fá verðlaunafé. Sá sem sigrar fær um 550.000 kr. í sinn hlut og verðlaunféð fer síðan lækkandi. Sá sem endar í 20. sæti má gera ráð fyrir að fá um 150.000 kr. í verðlaunafé.

Hver er kostnaðurinn við að taka þátt?

Fyrir þátttöku á 1. stigi úrtökumótsins þurfa keppendur að greiða 280.000 kr. í keppnisgjald. Forgjafartakmörkin eru 4 eða lægra. Ásamt ýmsum öðrum kvöðum um stöðu á heimslista eða atvinnumótaröð. Og þú ert bara úr leik ef þú leikur á 88 höggum eða meira. Engar afsakanir.

Á 2. stigi úrtökumótsins þurfa keppendurnir sem komu úr 1. stiginu að greiða 340.000 kr. En þeir sem komu beint inn á 2. stigið greiða 450.000 kr. í þátttökukostnað. Og samkvæmt reglum LPGA eru aðeins greiðslukort tekin gild.

Ólafía þarf ekki að greiða keppnisgjald á lokastiginu þar sem hún byrjaði á 1. stiginu. Alls hefur hún greitt rúmlega 620.000 kr. í keppnisgjöld fyrir þetta mót. Þeir kylfingar sem koma beint inn á lokaúrtökumótið þurfa að greiða samtals 620.000 kr. fyrir að taka þátt.

Verður sýnt beint frá mótinu?

Nei það verður ekki sýnt í sjónvarpi. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu LPGA verður skor keppenda uppfært eftir hverja holu á heimasíðum LPGA og Symetra. Golf.is mun fylgjast grannt með gangi mála og verður með puttann á púlsinum alla fimm keppnisdagana á Twittersíðu Golfsambandsins og að sjálfsögðu hér á golf.is.

Hvað eru margir sem reyna sig á úrtökumótinu?

1. stigið: Alls reyndu 380 kylfingar við 1. stigið og 92 þeirra komust áfram.
2. stigið: Alls reyndu 192 kylfingar við 2. stigið og komust 84 þeirra áfram á lokastigið.
3. stigið : Alls verða 158 kylfingar sem keppa á lokastiginu og 20 efstu fá keppnisrétt á LPGA.

Hvernig gekk Ólafíu á 1. stiginu

Alls eru úrtökumótin þrjú og er þeim skipt upp í þrjá hluta. Ólafía endaði í fimmta sæti á 1. stiginu sem fram fór í lok ágúst. Þar var keppt á þremur keppnisvöllum. Mission Hills í Kaliforníu, Rancho Mirage,(Palmer og Dinah Shore); Westin Mission Hills (Gary Player). Ólafía endaði í 5. sæti á -7 samtals (68-71-70-72) 281 högg.

Hvernig gekk Ólafíu á 2. stiginu?

Leikið var á Plantation Golf og Country Club í Venice í Flórída, (Bobcat og Panther völlunum) í lok október. Ólafía endaði í 12. sæti á parinu samtals 288 högg (72-73-71-72).

Hvað þýðir það fyrir Ólafíu að hafa komist í gegnum 2. stigið?

Hún hefur með árangri sínum á 2. stiginu tryggt sér keppnisrétt á Symetra mótaröðinni sem er næst sterkasta mótaröðin í Bandaríkjunum. Er samskonar mótaröð og LET Access mótaröð í Evrópu en er jafnvel á styrkleika við sjálfa LET Evrópumótaröðina.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ