Golfsamband Íslands

LPGA kylfingar mæta á góðgerðarmót Ólafíu Þórunnar og KPMG

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

KPMG og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur halda góðgerðargolfmót til styrktar Barnaspítala Hringsins á Leirdalsvelli hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Mótið fer fram þriðjudaginn 8. ágúst og er einstakt og sögulegt.

Þar mæta leiks mæta a.m.k. fimm LPGA kylfingar og gefst öllum þátttakendum tækifæri að spila nokkrar holur með einum þeirra. Auk þeirra munu nokkrir aðrir af bestu kylfingum landsins einnig taka þátt í mótinu.

Fjöldi þátttakenda mun takmarkast við 18 holl en um er að ræða boðsmót þar sem fyrirtæki og einstaklingar kaupa sæti í mótinu og styrkja þannig gott málefni en þátttökugjöldin renna óskipt til Barnaspítala Hringsins.

„Ég hlakka ótrúlega mikið til að koma heim eftir nokkuð langa og stranga keppnislotu. Ég hef nánast ekkert spilað golf heima síðan á landsmótinu í fyrra þannig að það verður mjög gaman að koma og spila með góðum félögum og styrkja um leið þetta frábæra málefni sem er mér mjög hugleikið. Höfum gaman og #verumgóð“ segir Ólafía Þórunn.

„Við erum ákaflega stoltir stuðningsaðilar Ólafíu Þórunnar og það að standa að svona viðburði með henni sameinar vel markmið okkar um að styðja við golfíþróttina og að láta gott af okkur leiða“ segir Jón S. Helgason framkvæmdarstjóri KPMG.

„Við vonum bara að sem flestir komi og horfi á þessa kylfinga, það er ekki á hverjum degi sem við fáum LPGA spilara til landsins að spila golf“.


Golfklúbbur Garðabæjar og Kópavogs kemur að framkvæmd mótsins og er mótið haldið á Leirdalsvelli.

„Það er mikill heiður að halda góðgerðarmót KPMG og Ólafíu Þórunnar hér hjá GKG og leggja góðu málefni lið um leið og við sýnum Ólafíu Þórunni þakklætisvott fyrir framlag hennar til golfíþróttarinnar. Við hjá GKG leggjum áherslu á að reka fjölskylduvænan golfklúbb og liður í því er öflugt barna- og unglingastarf og að auka hlut kvenna í golfíþróttinni. Hjá GKG eru um 650 börn og unglingar sem nýta sér þjónustu GKG á hverju ári. Eftir framgöngu Ólafíu Þórunnar á stóra sviðinu og þeirri staðreynd að hún keppir nú á mótaröð þeirra bestu sjáum við aukinn áhuga stúlkna á golfíþróttinni,“ segir Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri GKG.

Exit mobile version