Golfsamband Íslands

LPGA stjörnur mæta á góðgerðarmót KPMG og Ólafíu Þórunnar

Góðgerðarmót KPMG og Ólafíu Þórunnar til styrktar Umhyggju – félagi langveikra barna

KPMG og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur halda góðgerðargolfmót á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði til styrktar Umhyggju – félagi langveikra barna. Mótið fer fram miðvikudaginn 18. júlí og hefst það kl. 13:00.

Þetta er í annað skiptið sem KPMG og Ólafía Þórunn standa fyrir góðgerðargolfmóti og er það hluti af því samstarfi sem varð til í ársbyrjun 2017 þegar Ólafíu Þórunn varð merkisberi KPMG í félagi við aðra frábæra kylfinga eins og Phil Mickelson, Stacy Lewis og Paul Dunne. Í ágúst 2017 var haldið sambærilegt mót þar sem alls söfnuðust um 4 millj. kr. til styrktar Barnaspítala Hringsins.

Líkt og í fyrra hefur Ólafía Þórunn tekið með sér nokkra kylfinga af LPGA mótaröðinni, eitthvað sem ekki er daglegt brauð að sjá hérlendis. Þær heita; Alexandra Jane Newell, Allison Emrey, Cheyenne Woods og Madeleine Sheils. Markmiðið með mótinu er fyrst og fremst að styðja við gott málefni en á sama tíma búa til flottan golfviðburð þar sem íslenskir kylfingar og áhorfendur geta notið þess að sjá þessa flottu atvinnukylfinga spila við íslenskar aðstæður. Nánar er hægt að lesa um fyrirkomulagið og sjá myndband um mót síðasta árs á kpmg.is

„Ég hlakka ótrúlega mikið til að koma heim eftir nokkuð langa og stranga keppnislotu. Það gefur mér mikið að standa að og taka þátt í svona viðburðum og mótið í fyrra heppnaðist frábærlega. Ég hef nánast ekkert spilað golf heima í tvö ár þannig að það verður mjög gaman að koma og spila með góðum félögum og styrkja um leið þetta frábæra málefni. Höfum gaman og #verumgóð,“ segir Ólafía Þórunn.

„Það er frábært að vinna með Ólafíu Þórunni og ekki síst að viðburðum sem þessum þar sem verið er að styðja við frábært málefni. Það er heilmikið verkefni að koma á svona viðburði með öllum þessum erlendu kylfingum á miðju keppnistímabili. Þetta er hins vegar annað árið í röð sem það tekst og í fyrra heppnaðist það virkilega vel þó svo að veðrið hafi verið afar slæmt. Ég vona bara að sem flestir leggi leið sína á Hvaleyrina á miðvikudag og sjái þess frábæru kylfinga leika listir sínar,“ segir Jón S. Helgason framkvæmdarstjóri KPMG.

Golfklúbburinn Keilir í Hafnarfirði kemur að framkvæmd mótsins og er mótið haldið á Hvaleyrarvelli og hefst kl. 13:00.

Cheyenne Woods
Exit mobile version