/

Deildu:

Auglýsing

Starfsemi lyfjaeftirlits á Íslandi var færð í sérstaka sjálfseignarstofnun í dag þegar Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, skrifuðu undir skipulagsskrá Lyfjaeftirlits Íslands.​

Lyfjaeftirlit Íslands mun skipuleggja og framkvæma lyfjaeftirlit á Íslandi, og birta og kynna bannlista um efni þau sem óheimilt er að nota í íþróttum. Lyfjaeftirlit Íslands mun einnig standa að fræðslu og forvörnum gegn lyfjamisnotkun og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi í tengslum við baráttuna gegn lyfjamisnotkun í íþróttum. Stofnuninni er ætlað að hvetja til rannsókna sem tengjast starfi þess og markmiðum, vekja athygli á málaflokknum og taka þátt í umræðum um hann.​

Málefni lyfjaeftirlits hafa verið á ábyrgð menntamálaráðuneytis frá 1989 þegar undirritaður var samningur Evrópuráðsins um slíkt eftirlit. Frá 2005 hafa stjórnvöld og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands borið sameiginlega ábyrgð á verkefninu á grundvelli samnings UNESCO um lyfjaeftirlit. Ákvæði um lyfjaeftirlit var sett í íslensk íþróttalög árið 2012 en ráðgjafanefnd lyfjaeftirlits Evrópuráðsins mælti þá með því að sjálfstæð stofnun annaðist lyfjaeftirlit.​

Þetta mikilvæga skref gerir lyfjaeftirlit á Íslandi sjálfstætt, í samræmi við ályktanir Alþjóðaólympíunefndarinnar og Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA). Væntanleg stjórn Lyfjaeftirlits Íslands mun skipuleggja starfsemina á næstu misserum.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, skrifuðu undir skipulagsskrá Lyfjaeftirlits Íslands.​

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ