Auglýsing

„Þetta var hentugur tími fyrir mig að taka við þessu embætti og ég hef brennandi áhuga á því sem er að gerast hjá Keili. Starfið í klúbbnum er mjög faglegt og ég tek við góðu búi frá Arnari Atlasyni fyrrum formanni og núverandi stjórn Keilis,“ segir Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir, formaður Golfklúbbsins Keilis í Hafnarfirði. Guðbjörg Erna var kjörin formaður Keilis á síðasta aðalfundi klúbbsins en hún er aðeins önnur konan sem gegnir þessu embætti í 50 ára sögu klúbbsins. Inga Magnúsdóttir var formaður Keilis fyrir 40 árum. Viðtalið er úr 1. tbl. Golf á Íslandi sem kom út í lok apríl 2018.

Það er óhætt að segja að áhugi Guðbjargar Ernu á golfíþróttinni sé ósvikinn. Hún byrjaði í golfi árið 2010 og hefur verið félagsmaður í Keili frá árinu 2011.

Golf á Íslandi ræddi við Guðbjörgu Ernu í klúbbhúsi Keilis á dögunum og fyrsta spurningin var einfaldlega, hver er nýr formaður Keilis?

„Ég er fædd á Djúpavogi en ég hef búið í Hafnarfirði frá því ég var 9 ára. Ég prófaði aðeins golf þegar ég var um tvítugt á Djúpavogi en það var bara í nokkur skipti. Það var ekki fyrr en ég kynntist manninum mínum, Jóni Inga Jóhannessyni, árið 2009, að ég byrjaði að slá aftur. Jón Ingi er sjómaður og mikill golfáhugamaður. Það var ekkert annað í stöðunni að láta á þetta reyna ef við ætluðum að vera saman. Ég varð fljótlega með meiri golfbakteríu en hann,“ segir Guðbjörg Erna í léttum tón

Jón Ingi er sjómaður og mikill golfáhugamaður. Það var ekkert annað í stöðunni að láta á þetta reyna ef við ætluðum að vera saman. Ég varð fljótlega með meiri golfbakteríu en hann,

Upphafið á golfferlinum var ánægjulegt að sögn Guðbjargar Ernu og móttökurnar í Keili voru hlýlegar að hennar sögn.

„Ég fór á nýliðanámskeið árið 2011 með tveimur vinkonum mínum. Ég þekkti engan í klúbbnum en ég fann strax að við vorum velkomnar. Fljótlega fórum við að keppast við að lækka forgjöfina, keppa á mótum og ná framförum. Það hjálpaði til að ég var barnlaus og átti sjómann sem kærasta. Það var því nægur tími til að spila og eitt sumarið var ég með 60 skráða hringi. Ég náði betri tökum á golfinu með því að æfa mig mikið á Sveinkotsvelli, og þá fékk ég sjálfstraustið til að færa mig yfir á Hvaleyrarvöll. Til þess að komast inn á Hvaleyrarvöll þarf maður að vera með 34,4 eða lægra í forgjöf. Að mínu mati er þetta góð leið fyrir byrjendur því ég var ekkert tilbúin að fara á „stóra völlinn“ alveg strax og mér leið vel á Sveinkotsvellinum,“ segir Guðbjörg Erna en hún er með 21 í forgjöf.

„Ég náði að komast í 19,9 í einn sólarhring á sínum tíma, og ég á skjáskot af því til sönnunar. Markmiðið er að komast í 19 í forgjöf í lok sumarsins 2018.“

„Ég náði að komast í 19,9 í einn sólarhring á sínum tíma, og ég á skjáskot af því til sönnunar. Markmiðið er að komast í 19 í forgjöf í lok sumarsins 2018.“


Eins og áður segir er Guðbjörg Erna mjög áhugasamur kylfingur og hún skráði sig í rástíma með hverjum sem er til þess að komast í golf. „Félagsskapurinn er í raun stærsti kosturinn við golfið. Mér fannst allir taka vel á móti mér, alveg sama hver það var. Ég keppti líka á opnum mótum og kvennamótum hjá Keili. Það fannst mér gaman og finnst enn. Þar hittir maður aðrar konur sem eru að gera það sama og ég. Stemningin er góð og það er nauðsynlegt að setjast aðeins niður í skálanum eftir hringinn og ræða málin.“

Guðbjörg Erna var fljótlega komin á bólakaf í félagsstarfið hjá Keili. Hún fór inn í kvennastarfið sem nefndarmaður og varð síðan formaður eftir tvö ár. „Þetta hefur gerst mjög hratt. Ég fór í stjórn Keilis árið 2014 og hafði þá enga reynslu af slíku. Ég veit ekki hvort öðrum þyki þetta skrítið en ég finn bara fyrir góðum stuðningi frá félagsmönnum. Ég er vissulega frekar ný í klúbbnum en ég lít á það sem kost.“

Þetta hefur gerst mjög hratt. Ég fór í stjórn Keilis árið 2014 og hafði þá enga reynslu af slíku. Ég veit ekki hvort öðrum þyki þetta skrítið en ég finn bara fyrir góðum stuðningi frá félagsmönnum. Ég er vissulega frekar ný í klúbbnum en ég lít á það sem kost.


„Árið 2017 var mjög stórt ár hjá Keili, 50 ára afmæli, miklar breytingar á vellinum og við héldum Íslandsmótið í golfi. Við ætlum að draga aðeins andann á næstu misserum og einbeita okkur að fáum hlutum og klára þá vel, áður en við hefjumst handa við næsta uppbyggingarferli. Starfið hjá Keili er að mínu mati mjög faglegt. Það kom mér á óvart hversu góð verkferli eru t.d notuð hjá klúbbnum. Ég hafði enga reynslu af þessu og ég hélt að það væri meira um skyndiákvarðanir og „við reddum þessu“ hugsunarhátt. Það er ekkert slíkt til staðar og hér er unnið eftir skipulagi sem er hugsað fram í tímann. Mér fannst gaman að koma inn í stjórnina og þar starfar frábært fólk með víðtæka reynslu sem nýtist klúbbnum til margra hluta.“

Í Keili eru um 1.300 félagsmenn og þar af 400 konur. „Kvennastarfið í Keili hefur í mörg ár verið framúrskarandi. Mikið um að vera og ég vona að öllum konum líði vel í þessu umhverfi. Að mínu mati er klúbbhúsið einstakt hjá okkur og sú stemning sem er hér alla daga er einkennismerki Keilis.“

Uppbygging á Sveinkotsvelli er efst á forgangslista stjórnar Keilis á næstu misserum ásamt barna- og unglingastarfinu. „Sveinkotsvöllur verður alvöru golfvöllur þegar framkvæmdum verður lokið þar. Það á eftir að hanna nokkrar flatir og fínpússa ýmislegt í hönnun vallarsins. Ég hlakka til að spila völlinn þegar hann verður klár.“

Uppbygging á barna- og unglingastarfinu er einnig ofarlega á forgangslistanum hjá Keili.

„Við gáfum aðeins eftir á því sviði og markmiðið er að byggja það aftur upp með Karl Ómar Karlsson íþróttakennara og PGA-kennara fremstan í flokki. Afreksstarfið hefur verið á góðum stað með Björgvin Sigurbergsson, PGA-kennara, í fararbroddi. Við ætlum okkur að byggja upp stærri hóp barna og unglinga sem hafa mismunandi framtíðarmarkmið í golfinu. Ef stór hluti þeirra verða félagar í Keili til lengri tíma þá erum við á réttri leið.“

Guðbjörg Erna er fjármálastjóri hjá fyrirtækinu Hlaðbær Colas. Það er því nóg um að vera hjá henni yfir sumartímann.

„Ég hef fengið meiri áhuga á mismunandi spilaformum eftir að sonur minn, Guðmundur Hersir, fæddist árið 2015. Það hefur því aðeins dregið úr spilamennskunni hjá mér eftir að hann fæddist. Mér finnst mjög líklegt að hann fái áhuga á golfinu, það snýst allt um golf hjá okkur,“ segir Guðbjörg en strákarnir eru í meirihluta í fjölskyldunni því Jón Ingi átti fyrir tvo syni, þá Ólaf Inga og Jóhannes.

Fjölbreytt spilaform hefur vakið áhuga hjá Guðbjörgu og hún spilar oftar 9 eða 12 holur
„Tíminn sem fer í golfið þarf ekki alltaf að miðast við 18 holur. Eins og staðan er núna þá er ég mjög hrifin af 12 holu hringjum og það væri ekki verra að geta tekið þátt í 12 holu golfmótum. Ef við ætlum að gera golfið eftirsóknarvert fyrir fólk sem hefur ekki mikinn tíma þá þarf að bjóða upp á fleiri möguleika til að spila.“

Að lokum var Guðbjörg Erna innt eftir uppáhaldsvellinum á Íslandi.

„Hvaleyrarvöllurinn er að sjálfsögðu í uppáhaldi hjá mér. Ég er einnig mjög hugfangin af Silfurnesvelli á Hornafirði. Ég elska að spila þar og finnst ótrúlega kraftmikið starf sem einkennir Golfklúbbinn á Hornafirði.“

Hvaleyrarvöllurinn er að sjálfsögðu í uppáhaldi hjá mér. Ég er einnig mjög hugfangin af Silfurnesvelli á Hornafirði

Séð yfir Hvaleyrarvöll. Mynd/GolfDigest.se


Níu konur formenn golfklúbba

Alls eru níu konur formenn golfklúbba á Íslandi árið 2018. Fyrsta konan til að gegna formennsku í golfklúbbi á Íslandi var Ragnheiður Guðmundsdóttir læknir. Hún gegndi formennsku árið 1958 í Golfklúbbi Reykjavíkur. Ragnheiður var mikil baráttukona og var formaður á þeim tíma þegar færa átti völl GR úr Öskjuhlíðinni og upp í Grafarholt. Ragnheiður barðist ötullega fyrir því að GR-ingar fengju nægilegt landsvæði frá Reykjavíkurborg undir 18 holu golfvöll í Grafarholti.

Eftirtaldar konur eru formenn golfklúbba árið 2018:

Ástfríður Sigurðardóttir, formaður Golfklúbbsins á Selfossi
Elín Hrönn Ólafsdóttir, formaður Golfklúbbsins Odds
Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir, formaður Golfklúbbsins Keilis
Anna Huld Óskarsdóttir, formaður Golfklúbbsins í Vík í Mýrdal
Marsibil Sigurðardóttir, formaður Golfklúbbsins Hamars á Dalvík
Rósa Jónsdóttir, formaður Golfklúbbs Fjallabyggðar
Jóhanna G. Jónasdóttir, formaður Golfklúbbsins Óss á Blönduósi
Bryndís Scheving, formaður Golfklúbbsins Dalbúa.
Eygló Harðardóttir, formaður Golfklúbbsins á Flúðum.

Guðbjörg Erna var kjörin formaður Keilis á síðasta aðalfundi klúbbsins en hún er aðeins önnur konan sem gegnir þessu embætti í 50 ára sögu klúbbsins. Inga Magnúsdóttir var formaður Keilis fyrir 40 árum. Hér eru þær Inga og Guðbjörg. 

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ