Auglýsing

– Þriðji elsti golfklúbbur landsins er í Vestmannaeyjum

Helgi Bragason hefur, þrátt fyrir ungan aldur, verið hátt í tvo áratugi formaður Golfklúbbs Vestmannaeyja. Íslandsmótið 2018 verður þriðja Íslandsmótið sem GV tekur að sér frá því hann tók að sér formennskuhlutverkið í Eyjum. Golf á Íslandi ræddi við Helga á dögunum um stöðuna á GV, Íslandsmótið og margt annað áhugavert.

Viðtalið er að finna í 3. tbl. GÁÍ sem er á leiðinni til kylfinga út um allt land þessa stundina.

Rafræna útgáfu af Golf á Íslandi er að finna hér.

Helgi Bragason. Mynd/seth@golf.is

„Það voru margir í nánasta umhverfi mínu þegar ég var að alast upp hérna í Eyjum sem stundaði golf með einum eða öðrum hætti. Ég eignaðist fljótlega golfkylfur, kúlur og poka – sem ég fékk í gjöf frá hinum og þessum í hverfinu þar sem ég ólst upp. Það varð til þess að ég fór upp á golfvöll og kynntist þessari frábæru íþrótt,“ segir Helgi þegar hann er inntur eftir því hvernig hann byrjaði sjálfur í golfi. Formaðurinn er með 11 í forgjöf og þegar best lét var hann með 9 í forgjöf.

„Ég ætla mér alltaf að bæta mig á hverju ári. Það gefst ekki alltaf tími til að spila golf en ég reyni að mæta í golfmótin og það er í raun allt það golf sem ég spila í dag. Ég á eftir að grísa á það að fara holu í höggi en það kemur að því,“ segir Helgi en uppáhaldsholur hans á vellinum eru 5. og 8.

Helgi, sem er fæddur árið 1971 og er því 47 ára gamall, rekur lögmannsstofu í Vestmannaeyjum. Hann fór á bólakaf í félagsmálin þegar hann flutti til Eyja á ný eftir að háskólanáminu lauk árið 1997.

„Eftir að ég lauk laganámi í Reykjavík kom ég aftur hingað til Eyja árið 1997. Þá fór ég að spila mikið meira en áður. Árið 2001 fór ég inn í stjórn GV í fyrsta sinn og hef verið formaður frá þeim tíma. Ég var alveg blautur á bak við eyrun hvað varðar þekkingu á þessum rekstri og það blés aðeins í fangið á okkur á þessum tíma – og þetta var mjög erfitt oft á tíðum,“ segir Helgi þegar hann rifjar upp fyrstu árin sem formaður GV.

Stöðugleiki og góð staða

Eitt af fyrstu verkum stjórnar GV var að ráða Elsu Valgeirsdóttur sem framkvæmdastjóra en hún hefur gegnt því starfi allar götur síðan. Helgi segir að stöðugleiki hafi einkennt reksturinn hjá GV og staðan sé góð hjá klúbbnum á 80 ára afmælisárinu.

 

Golfskálinn í Vestmannaeyjum. Mynd/seth@golf.is

„GV er nánast skuldlaus og staðan hefur ekki verið betri að mínu mati. Mannvirkin eru til staðar, góður völlur og frábært umhverfi, vélageymsla, æfingaskýli og við tókum golfskálann í gegn í fyrra. Skálinn okkar var í mörg ár sá stærsti og setti á þeim tíma ný viðmið. Í dag eru klúbbar með mun stærri byggingar sem þeir hafa reist með aðstoð sveitafélaganna. Fyrir okkur er þessi aðstaða sem við eigum í dag mjög góð. Vélakosturinn hefur einnig verið endurnýjaður og við keyptum tvær sláttuvélar fyrir 15 milljónir kr. á þessu ári og höfum verið að endurnýja tækjakostinn á síðustu árum.

Félagsstarfið er með svipuðum hætti og áður. Félagafjöldinn er rúmlega 400, eða 10% af íbúafjöldanum hér í Eyjum. Á landsvísu er það mjög hátt hlutfall.“

 

Elsa Valgeirsdóttir á þönum við golfskálann í Eyjum. Þetta eru einu augnablikin þar sem hægt er að ná mynd af framkvæmdastjóra GV. Mynd/seth@golf.is
Útsýnið er frábært frá 15. teig í Eyjum. Mynd/seth@golf.is

Íslandsmót í áttunda sinn í Eyjum

Íslandsmótið í golfi fer nú fram í áttunda sinn í Vestmannaeyjum og í fjórða sinn frá því að völlurinn varð 18 holur. Helgi formaður segir að það sé metnaður GV að fá að taka að sér stærsta golfmót ársins.

„Til lengri tíma litið getur svona viðburður laðað að sér fleiri gesti til Eyja sem spila golf. Svona verkefni skerpir líka á mörgum hlutum hjá okkur. Það er farið í að klára ýmislegt úti á vellinu, félagsstarfið eflist og þetta þéttir raðir okkar enn frekar. Við höfum ekki farið í risaframkvæmdir á elsta golfvelli landsins. En það hefur margt verið gert og má þar nefna að klára göngustíga, merkingar og ýmislegt annað. Við höfum lagt mesta áherslu á að hafa ástand vallarins sem best og gerðum ýmsar ráðstafanir vegna þess og það hefur skilað góðum árangri.

Magnað útsýni frá veröndinni við golfskála Eyjamanna. Mynd/ Unnur Sigmarsdóttir.

Að mínu mati er nauðsynlegt að vera með Íslandsmótið á slíkum stað eins og hér í Eyjum. Það hefur verið rætt mikið um að hafa þetta mót alltaf á höfuðborgarsvæðinu og við höfum barist fyrir því að fá þetta verkefni. Þessi umræða er í takt við margt annað í þjóðfélaginu að færa allt inn á höfuðborgarsvæðið. Ég er ekki á þessari skoðun og í sögulegu samhengi eru Vestmannaeyjar mikilvægur þáttur í uppbyggingu golfsins á Íslandi. GV stofnaði GSÍ og er þriðji elsti klúbbur landsins, hér eru elstu golfholur landsins og völlurinn okkar skorar hátt í því að vera einn af skemmtilegustu golfvöllum landsins. Að mínu mati ætti Íslandsmótið að fara hér fram að minnsta kosti á tíu ára fresti.

Á undanförnum árum hafa viss svæði á vellinum gefið aðeins eftir. Með markvissum aðgerðum hefur okkur tekist að snúa vörn í sókn. Í vetur var margt gert til þess að vernda viðkvæmustu svæðin. Við keyptum dúka sem settir voru yfir flatirnar, allt var þetta gert til að minnka vindkælingu og ágang sjávar á þær flatir sem standa næst sjónum. Vallarstarfsmenn breyttu líka áherslum í áburðargjöf. Allar þessar aðgerðir skiluðu árangri og við erum ánægð með stöðuna á vellinum fyrir þetta Íslandsmót.“  

Skáru á skuldahalann

Eins og áður segir er staðan á Golfklúbbi Vestmannaeyja góð og með markvissum aðgerðum hefur skuldastaða GV gjörbreyst. „Um tíma eftir hrunið 2008 voru heildarskuldir GV um 90 milljónir kr. vegna erlendra lána. Við náðum samningum við lánadrottna með smá aðstoð frá Vestmannaeyjabæ. Klúbburinn er nánast skuldlaus í dag og það er jákvætt. Á einu ári veltir GV um 60-80 milljónum kr., þar af fáum við ca. 10% í rekstrarstyrki frá bænum auk framlaga til uppbyggingar, félagsgjöldin eru um 20 milljónir og sala vallargjalda, veitinga og stuðningur frá fyrirtækjum brúar afganginn. Í raun er ótrúlegt hvað við náum að gera mikið fyrir lítinn pening. GV, ólíkt öðrum íþróttafélögum í Eyjum, byggir upp mannvirki og kaupir tæki í eigin reikning, á þau en fær styrki frá sveitarfélaginu. Við höfum því fengið minna en önnur íþróttafélög í Eyjum til uppbyggingar okkar íþróttamannvirkja og þurfum að fá meiri skilning en golfið er ein fjölmennasta íþróttagreinin.“

Helgi Bragason. Mynd/seth@golf.is

Helgi á ekki von á því að fjöldi félagsmanna breytist mikið en innra starf klúbbsins hefur tekið breytingum. „Kvennastarfið er að eflast og einnig eru eldri kylfingar með sinn eigin hóp sem hittist reglulega og gerir ýmislegt saman. Einar Gunnarsson golfkennari GV er í fullu starfi hjá okkur og faglegi hlutinn er því sterkur.  Við vorum fyrsta íþróttafélagið í Eyjum til að fá viðurkenningu ÍSÍ sem fyrirmyndarfélag. Þetta er allt á réttri leið og við erum að koma upp með yngri kylfinga sem eru í fremstu röð á landsvísu í sínum aldursflokkum.“

Eigum mikið inni

„Verðmætin hjá GV liggja í umhverfinu og þeirri upplifun sem gestir fá þegar þeir heimsækja okkur. Byggingarnar sem hafa risið hér hafa verið felldar eins og hægt er inn í umhverfið. Við fáum alltaf talsvert af Íslendingum af fastalandinu og eitthvað af útlendingum en gætum náð í enn fleiri erlenda gesti til okkar. Þeim hefur farið fjölgandi en við eigum mikið inni þar.“

Það eru fáir sem hafa verið lengur í formannstól hjá golfklúbbi en Helgi Bragason.

„Það er ekki markmið í sjálfu sér að vera sem lengst. Ég á ekki von á öðru en að það fari að líða að lokum hjá mér í þessu formannsembætti. Óskar Pálsson hjá Golfklúbbi Hellu er líklega sá eini sem hefur verið lengur samfellt sem formaður. Ég veit ekki hvenær ég hætti en það er farið að styttast í þessu hjá mér. Þetta hefur verið skemmtilegur tími en það kemur að því að ég stíg til hliðar – og það verður fyrr en seinna,“ sagði Helgi Bragason formaður GV.

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar, seth@golf.is 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ