/

Deildu:

Auglýsing

Magnús Guðmundsson fæddist þann 30. maí árið 1933 á Siglufirði. Hann lést á heimili sínu í Bandaríkjunum þann 16. janúar, 88 ára að aldri.

Magnús var í fremstu röð afrekskylfinga á Íslandi á sínum tíma og setti ný viðmið í golfíþróttinni. 

Hann var félagi í Golfklúbbi Akureyrar en hann hóf að leika golf 19 ára gamall og fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli aðeins sex árum síðar eða árið 1958. Á sama ári varð hann einnig Íslandsmeistari á skíðum – sem er afrek sem verður án efa ekki leikið eftir. 

Á árunum 1963-1966 sigraði Magnús fjögur ár í röð á Íslandsmótinu í golfi og hafði hann töluverða yfirburði á keppinauta sína á þeim mótum. Aðeins þrír kylfingar hafa afrekað það að sigra fjórum sinnum í röð í karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi, hinir tveir eru Björgvin Þorsteinsson og Úlfar Jónsson. 

Árið 1964 setti Magnús ný viðmið í golfíþróttinni þegar hann lék fjóra hringi á Íslandsmótinu í Vestmannaeyjum á 10 höggum undir pari eða 270 höggum, þar sem hann sigraði með 25 högga mun. Þetta mótsmet á Íslandsmótinu í golfi í karlaflokki var ekki jafnað fyrr en tæpri hálfri öld síðar eða árið 2013 þegar Birgir Leifur Hafþórsson jafnaði það á Korpúlfsstaðavelli í Reykjavík. 

Magnús lét að sér kveða á ýmsum sviðum golfíþróttarinnar. Hann kom að hönnunarferlinu á fyrri 9 holunum á Jaðarsvelli á Akureyri, golfnámskeið á hans vegum nutu vinsælda og Magnús tók þátt í fyrstu verkefnum karlalandsliðs Íslands í golfi. Magnús var mikill afreksmaður í íþróttum en hann á fimm Íslandsmeistaratitla á skíðum og fimm Íslandsmeistaratitla í golfi. Hann var tvívegis á meðal 10 efstu í kjörinu á Íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna, 1963 og 1965. 

Árið 1968 flutti hann til Bandaríkjanna og starfaði lengstum sem skíðakennari. Fyrri eiginkona hans var Vicky Guðmundsson, börn þeirra eru Erika og Markus. Síðari eiginkona Magnúsar er Susy Guðmundsson, sem lifir mann sinn.

Golfsamband Íslands færir fjölskyldu og aðstandendum Magnúsar innilegar samúðarkveðjur.  

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ