Golfsamband Íslands

Minningarorð – Sigurður Pétursson

Sigurður Pétursson. Mynd/Frosti

Sigurður Pétursson fæddist í Reykjavík 29. júní 1960. Hann lést á La Gomera á Spáni 19. apríl 2021. Sigurður giftist Guðrúnu Ólafsdóttur þann 15. júlí 2000. Börn þeirra eru Pétur Óskar, Hannes Freyr, Hanna Lilja, Anna Margrét og Ragnar. Fyrir átti Guðrún Ólaf Örn Jónsson. 

Sigurður útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands árið 1978. Hann hóf störf hjá lögreglunni í Reykjavík árið 1986 og útskrifaðist úr Lögregluskólanum árið 1988. Hann starfaði sem lögreglumaður til dánardags með hléi frá 1991-1997. Sigurður var einnig menntaður sem húsasmiður og starfaði sem slíkur á samningi hjá Olís. 

Sigurður var flestum íslenskum kylfingum kunnugur og snerist líf hans um golfíþróttina allt frá því hann rölti ungur að aldri úr Árbæjarhverfinu yfir á Grafarholtsvöll. Aðeins 16 ára gamall var hann valinn í landslið Íslands. Sigurður var mikil fyrirmynd fyrir unga og upprennandi kylfinga allan sinn feril.

Sigurður varð þrívegis Íslandsmeistari í golfi, árin 1982, 1984 og 1985. Hann varð einnig Íslandsmeistari í holukeppni árið 1989. 

Sigurður Pétursson og Ragnar Ólafsson ruddu brautina fyrstir allra í atvinnumennsku íslenskra kylfinga. Félagarnir úr GR reyndu við úrtökumót fyrir Evrópumótaröðina í lok nóvember árið 1985. Var það í fyrsta sinn sem íslenskir kylfingar reyndu fyrir sér á úrtökumóti fyrir atvinnumannamótaröð í Evrópu. 

Sigurður vann fjölmarga aðra titla á ferlinum og var kjörinn Íþróttamaður Reykjavíkur árið 1988 og sama ár varð hann þriðji í kjörinu á Íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna. 

Sigurður hóf að kenna golf í Hvammsvík í Hvalfirði árið 1990 og hann útskrifaðist sem PGA kennari frá Svíþjóð árið 1994. Hann starfaði sem golfkennari hjá Golfklúbbi Reykjavíkur á árunum 1991-1997 og rak samhliða því starfi golfverslun í Grafarholti. 

Sigurður var brautryðjandi í golfæfingum yfir vetrartímann og rak hann æfingaaðstöðu á þremur stöðum í Reykjavík. Sigurður var um margra ára skeið landsliðsmaður í golfi og hann starfaði einnig með landsliðum Íslands sem kennari og liðsstjóri. Sömu sögu er að segja af keppnisliðum Golfklúbbs Reykjavíkur en þar var Sigurður ávallt tilbúinn að aðstoða á öllum sviðum. Sigurður starfaði einnig sem fararstjóri í golfferðum og vann sem slíkur fyrir ferðaskrifstofuna GolfSaga síðustu ár. 

Fallinn er frá mikill heiðursmaður, keppnismaður og karakter sem skilur eftir sig stórt skarð í golfhreyfingunni. Hans verður sárt saknað.

Golfsamband Íslands vottar aðstandendum innilegrar samúðar.

Útför Sigurðar fer fram í dag, 12. maí, í Grafarvogskirkju kl. 13. Athöfninni verður streymt á þessum hlekk:

www.sonic.is/siggip

Exit mobile version