Þorbjörn Kjærbo fæddist í Sumba á Suðurey í Færeyjum 27. mars 1928. Hann andaðist á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 6. apríl 2023.
Þorbjörn var giftur Guðnýju Sigurbjörgu Ragnarsdóttur en hún lést árið 2013. Synir þeirra eru Guðni Björn, fæddur árið 1952 og Jóhann Rúnar, fæddur árið 1957. Fyrir átti Þorbjörn dótturina Guðrúnu Björgu sem er fædd árið 1947. Hann starfaði sem tollvörður á Keflavíkurflugvelli síðustu starfsárin en hann stundaði ýmis störf um ævina og var um tíma sjómaður.
Þorbjörn var einn af stofnendum Golfklúbbs Suðurnesja og golfíþróttin skipaði stóran þátt í hans lífi.
Hann var annar kylfingurinn úr röðum GS sem fagnaði Íslandsmeistaratitli í golfi árið 1968 og sá fyrsti frá GS sem sigraði í karlaflokki.
Þorbjörn sigraði þrjú ár í röð á Íslandsmótinu í golfi 1968-1970. Hann varð einnig margfaldur Íslandsmeistari í flokki eldri kylfinga og átti farsælan feril sem landsliðs kylfingur.
Fallinn er frá mikill heiðursmaður sem skilur eftir sig stórt skarð í golfhreyfingunni. Hans verður sárt saknað.
Golfsamband Íslands vottar aðstandendum innilegrar samúðar.
Útför Þorbjarnar fór fram í Keflavíkurkirkju í dag, 18. apríl 2023.