Mótsmetið í karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi gæti fallið á Íslandsmótinu 2024 á Hólmsvelli í Leiru.
Aron Snær Júlíusson, GKG, er efstur fyrir lokahringinn í karlaflokki á 12 höggum undir pari vallar – en mótsmetið er 12 högg undir pari. Metið er í eigu Bjarka Péturssonar, GKG, frá árinu 2020 á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Alls eru fimm keppendur í karlaflokki á 10 höggum undir pari eða betra skori – og alls eru 21 í karlaflokki sem eru á betra skori samtals en par vallar á 54 holum.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á mótsmetið í kvennaflokki. Hún lék á 11 höggum undir pari á Jaðarsvelli á Akureyri árið 2016 og sigraði með einu höggi en Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, lék á -10 á því móti, sem er næst besta skor frá upphafi í kvennaflokki.
Eva Kristinsdóttir, og Ragnhildur Kristinsdóttir, eru jafnar í efsta sæti fyrir lokahringinn á 1 höggi undir pari vallar, og það eru ekki miklar líkur á að mótsmetið í kvennaflokki verði bætt á lokahringnum á sunnudaginn.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, lék á -3 samtals árið 2019. Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, lék á -1 á þremur keppnisdögum í Vestmannaeyjum árið 2022. Það eru þrjú bestu heildarskor Íslandsmeistara í kvennaflokki frá upphafi.
Bjarki Pétursson, GKG, á mótsmetið í karlaflokki en hann lék á 13 höggum undir pari samtals á Hlíðavelli í Mosfellsbæ árið 2020. Hann lék hringina þrjá á 275 höggum (72-66-69-68) og sigraði með átta högga mun.
Metið var áður í eigu Þórðar Rafns Gissurarsonar sem lék á 12 höggum undir pari vallar á Garðavelli árið 2015 (67-73-66-70). Árið 1964 setti Magnús Guðmundsson, GA, ný viðmið í íslensku keppnisgolfi þegar hann lék á 10 höggum undir pari vallar á Vestmannaeyjavelli á Íslandsmótinu 1964. Hann var sá fyrsti sem lék fjóra keppnishringi á undir pari samtals á Íslandsmótinu í golfi. Hann sigraði með 25 högga mun á því móti. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, jafnaði þetta met 39 árum síðar á Íslandsmótinu á Leirdalsvelli hjá GKG árið 2014. Þar landaði Birgir Leifur sínum sjötta Íslandsmeistaratitli á 10 höggum undir pari samtals.
Árið 2011 sigraði Ólafía á Íslandsmótinu í golfi á Hólmsvelli í Leiru en þar lék hún á 8 höggum yfir pari samtals, 296 högg (72-70-74-80).
Axel Bóasson sigraði í karlaflokki árið 2011 á Hólmsvelli í Leiru og þar lék hann á 2 höggum undir pari vallar eða 286 höggum (65-71-76-74).
Par Hólmsvallar í Leiru var 72 högg á árið 2011. Í mótinu í ár verður par vallar 71.
Heildarúrslit Íslandsmótsins 2011 eru hér: