Auglýsing

Landsliðshópur Golfsambands Íslands kom saman til æfinga um liðna helgi en þar mættu leikmenn sem eru að stunda golfíþróttina hér á landi með sínum golfklúbbum. Að þessu sinni vantaði leikmenn í landsliðshópinn sem eru staddir erlendis í verkefnum með háskólaliðum sínum.

Dagskrá æfingahelgarinnar var fjölbreytt og mörg krefjandi verkefni voru lögð fyrir leikmenn.

Á föstudeginum héldu Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ, og Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ, fyrirlestur um hvernig kylfingar huga að sínu vörumerki og hvernig best sé að koma sér á framfæri.

Hópurinn æfði á laugardeginum hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar þar sem að æfingaaðstaða í klúbbhúsi GM var nýtt ásamt aðstöðu í nýju knattspyrnuhúsi við Varmá.

Sunnudeginum fóru æfingarnar fram í aðstöðu Golfklúbbsins Keili í Hraunkoti.

Ólafur Björn segir í samtali við golf.is að hann hafi verið ánægður með niðurstöðuna eftir landsliðshelgina – en hópurinn mun æfa á ný helgina 18.-20. mars.

„Það var frábært að fá Huldu til að koma með góð ráð handa landsliðskylfinunum. Hún er með mikla reynslu og fjölbreyttan bakgrunn í markaðsmálum og fjölmiðlum. Ég fann að leikmenn voru mjög þakklátir að fá innsýn inn á þetta mikilvæga svið afreksíþrótta. Við skelltum í margar skemmtilegar og spennandi keppnir og náðum að snerta á öllum þáttum leiksins. Það var einstaklega ánægjulegt að æfa í knattspyrnuhúsinu Fellinu í Mosfellsbæ en þar fengu kylfingar tækifæri að spreyta sig á hinum ýmsu höggum í stutta spilinu. Mig langar að nýta tækifærið og hrósa okkar landsliðskylfingum fyrir mikinn kraft og metnaðarfulla viðleitni á æfingahelgunum, frábært að fylgjast með þeim leggja sig alla fram og halda góðri einbeitingu allan tímann. Jafnframt vil ég þakka Golfklúbbi Mosfellsbæjar og Golfklúbbnum Keili fyrir afnot að þeirra æfingaaðstöðu og frábærar móttökur,” segir Ólafur Björn Loftsson.

Hulda Bjarnadóttir, forseti Golfsambands Íslands, tók virkan þátt með ýmsum hætti. Hún segir að það hafi verið gaman að fá að upplifa æfingarnar með afrekskylfingunum.

„Það var gaman að koma og fylgjast með því metnaðarfulla starfi sem Ólafur Björn og Afreksnefnd sambandsins undir stjórn GSÍ vinna að með veglegum hætti. Umhverfið sem mætir afrekskylfingunum okkar á stóra sviðinu er krefjandi og mikilvægt að afrekskylfingarnir okkar fái meira en bara tæknilega þjálfun. Fáir skilja það betur en afreksstjórinn sjálfur og því hafði ég sérlega gaman af því að geta lagt mitt af mörkum með honum í fræðsluerindum er tengjast kostun, fjölmiðlaframkomu og ímyndaruppbyggingu. Ég hafði sérlega gaman af því létta og góða andrúmslofti sem ríkir í landsliðsbúðunum okkkar. Það þarf að vera gaman að æfa golf og þessi hópur kann það svo sannarlega. Þar kenna þeir eldri og reyndari þeim yngri og það er ekki síður mikilvægt. Framtíðin er björt með þessa metnaðarfullu leikmenn í framvarðarsveit okkar,“ segir Hulda Bjarnadóttir forseti GSÍ við golf.is.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ