Þýskar samhæfingar breyttu öllu fyrir Hlyn Geir Hjartarson – kennsluefni sem birtist í tímaritinu golf.is.
Þýskar samhæfingar eru þessar æfingar kallaðar á æfingum hjá mér. Ég lærði æfingarnar hjá Jóni Halldóri Garðarssyni golfkennara þegar ég var að æfa með Keili,“ segir Hlynur Geir Hjartarson PGA kennari hjá Golfklúbbi Selfoss. Hlynur gefur lesendum góð ráð fyrir golftímabilið en æfingarnar er hægt að gera heima í stofu áður en þær eru prófaðar á æfingasvæðinu.
„Á þeim tíma var ég með 0 í forgjöf en þessar æfingar gjörbreyttu golfsveiflunni hjá mér og bættu mig mikið, sérstaklega í stuttu höggunum og púttunum.
Ég hef notað æfingarnar mikið þegar ég vinn með Valdísi Þóru Jónsdóttur atvinnukylfingi. Þessar æfingar virka fyrir alla kylfinga á öllum aldri og öllum getustigum. Í öllum æfingunum á að nota 9-járn eða fleygjárn. Ég hef líka séð atvinnukylfinga leika 18 holur með þessum hætti á æfingahring. Ég mæli ekki með því fyrir alla en það er hægt þegar getustigið er hátt í golfíþróttinni.“
Æfing 1.
Staðið er á vinstri fæti og tánni á hægri fæti er tyllt niður fyrir aftan eins og sést á myndinni. Boltinn er fyrir miðju. Markmiðið er að framkvæma golfsveifluna rólega og halda góðu jafnvægi á meðan. Mikilvægt er að snúningur í mjöðmum sé til staðar í aftur – og framsveiflu. Forðist að nota aðeins hendurnar til þess að slá boltann, snúið öxlum og mjöðmum, líkt og í venjulegri sveiflu. Sláðu 5-10 golfbolta í hverri æfingu.
Æfing 2.
Þessi æfing er töluvert erfiðari. Staðið er í hægri fót og sá vinstri er settur aftur og tánni er tyllt niður líkt og í æfingu nr. 1. Þessi æfing fær kylfinga til þess að setja þungann með réttum hætti á hægri fótinn, og kemur í veg fyrir að kylfingar halli sér of mikið til hægri og slái of snemma í jörðina í framsveiflunni. Mikilvægt er að halda líkamsstöðunni þannig að mjaðmir og axlir snúist eðlilega um miðjuásinn þegar höggið er framkvæmt. Það er mjög erfitt að hreyfa líkamann rangt í þessum æfingum. Sláðu 5-10 golfbolta með þessum hætti.
Æfing 3.
Fæturnir eru settir saman og boltinn er fyrir miðju. Hér er mikilvægast að finna rétta þyngdarpunktinn í fótunum. Þunginn á ekki að vera í hælunum eða táberginu heldur beint niður í gegnum ristina rétt fyrir neðan slaufuna á skónum. Þessi æfing gerir það að verkum að kylfingar geta ekki hreyft mjaðmirnar til hliðar í fram – og aftursveiflunni, þeir verða að snúa mjöðmunum. Þeir sem eru ekki með mikla hreyfigetu í mjöðmum gætu átt erfitt með þessa æfingu í byrjun en ég get lofað að eftir smá tíma verður ástandið betra.
Æfing 4.
Venjuleg fótastaða, en aðeins hægri höndin heldur á kylfunni, sú vinstri er sett á vinstra lærið og heldur ekki um kylfuna. Hér er mikilvægt að snúa mjöðmum og öxlum með venjulegum hætti. Margir nota aðeins höndina í þessari æfingu, en það má alls ekki. Boltinn er sleginn í þessari æfingu og það tekur tíma að ná tökum á æfingunni. Ekki gefast upp og hafðu þolinmæði til þess að klára nokkur skipti af þessari æfingu, þá verður árangurinn góður.
Æfing 5.
Venjuleg fótastaða, en aðeins vinstri höndin heldur á kylfunni, sú hægri er sett á hægra lærið og heldur ekki um kylfuna. Þessi æfing er enn erfiðari í fyrstu skiptin en sú sem er nr. 4. Snúið upp á axlir og mjaðmir og reynið að halda vinstri hendinni beinni. Samhæfing handa og axla er lykilatriðið í þessari æfingu. Ég mæli með að slá með sandjárninu í þessari æfingu eða fleygjárni. Æfingin mun breyta getu þinni í stuttum innáhöggum, 50-60 metra og nær. Ég sló vindhögg og toppuð högg þegar ég var að byrja á þessari æfingu en það tekur ekki langan tíma að ná tökum á henni. Það verður líka mjög einfalt og árangursríkt að byrja að slá með báðum höndum slík högg eftir þessar æfingar.
Æfing 6.
Venjuleg líkamsstaða fyrir golfsveifluna. Í fyrstu skiptin þarf ekki að vera með golfbolta en það er gott að bæta honum við þegar líða fer á æfingarnar. Í þessari æfingu slæ ég með lokuð augun og ég tía boltann upp. Þarf ekki að tía boltann hátt, bara rétt að lyfta boltanum frá jörðinni. Hér þarf kylfingurinn að hugsa um flæði, takt og jafnvægi og treysta líkamanum fyrir hreyfingunni. Í stöðunni þarf ég að finna þegar ég loka augunum að líkaminn sé í réttu jafnvægi og þyngdin fari í gegnum ristina en sé ekki í hælunum eða táberginu.
Æfing 7.
Að lokum notum við pútterinn og gerum það sama og í 1. æfingunni hvað stöðuna varðar. Staðið er á vinstri fæti og tánni á hægri fæti er tyllt niður fyrir aftan eins og sést á myndinni. Boltinn er fyrir miðju. Síðan púttum við 5-10 sinnum og finnum hve mikilvægt það er að vera með gott jafnvægi.