Í dag hófst Sand Valley Spring Series Final mótið á samnefndum golfvelli í Póllandi. Alls eru níu íslenskir keppendur á þessu móti líkt og fyrstu tveimur mótunum sem hafa farið fram á þessum velli á Nordic Golf League atvinnumótaröðinni.
Axel Bóasson, atvinnukylfingur úr Keili, hefur náð bestum árangri íslensku keppendana en hann varð þriðji á fyrsta mótinu og í öðru sæti á móti nr. 2 sem lauk í gær.
Þetta er þriðja mótið í röð sem fram fer á þessum vel í Póllandi li og eru mótin hluti af Nordic Golf League atvinnumótaröðinni – sem er í þriðja efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu í karlaflokki.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit frá lokamótinu í Póllandi.
Á stigalistanum er Axel í 9. sæti en hann hefur leikið á alls fjórum mótum á þessu tímabili.
Mótaröðin hefur reynst íslenskum kylfingum vel á undanförnum árum og opnað dyr inn á Áskorendamótaröðina (Challenge Tour). Fimm efstu á stigalistanum í lok keppnistímabilsins fá keppnisrétt á Challenge Tour og þrír sigrar á þessu tímabili tryggja einnig keppnisrétt á Challenge Tour.
Íslensku keppendurnir eru: Axel Bóasson, GK, Aron Snær Júlíusson (GKG), Andri Þór Björnsson (GR), Bjarki Pétursson, GKG, Daníel Ísak Steinarsson (GK), Hákon Örn Magnússon, GR, Ragnar Már Garðarsson (GKG), Sigurður Arnar Garðarsson (GKG) og Svanberg Addi Stefánsson (GK)
Aron Bergsson, er einnig á meðal keppenda, en hann á íslenska foreldra en hefur búið að mestu í Svíþjóð. Systir Arons, Andrea Bergsdóttir, hefur leikið með íslenska kvennalandsliðinu undanfarin ár.