„Frístundamiðstöðin breytir allri upplifun af því að spila golf hér á Garðavelli. Það er okkar verk að gera þetta að hlýlegri félagsaðstöðu til lengri tíma litið. Það er hvergi betra að vera en á 19. holu á golfvellinum. Stór partur af því að spila golf er að líða vel í umhverfinu þegar komið er á staðinn og þegar hann er kvaddur,“ segir Þórður Emil Ólafsson formaður Golfklúbbsins Leynis við golf.is við opnunarathöfnina um s.l. helgi.
Formleg opnun á frístundamiðstöðinni við Garðavöll á Akranesi var 11. maí sl. Nýja aðstaðan gjörbreytir starfi Leynis en húsið er rúmlega 1.000 fermetrar, 700 fermetrar á jarðhæð og 300 fermetra kjallari þar sem inniæfingaaðstaða er til staðar. Nýja húsið er á sama stað og gamli golfskálinn og geymsluhúsnæði voru áður.
„Við erum með frábæran golfvöll og Garðavöllur hefur verið í fremstu röð á landsvísu í mörg ár. Aðstaðan sem var til staðar hamlaði frekari vexti varðandi það að taka á móti hópum og í mótahaldi. Nú getum við tekið við hópum sem áður sögðu nei af því að aðstaðan var slæm. Með tilkomu frístundamiðstöðvarinnar breytist þetta allt. Rekstrargrundvöllur Leynis breytist til hins betra og við getum haldið áfram að byggja upp Garðavöll sem einn af bestu golfvöllum landsins.“
Fyrsta skóflustungan að mannvirkinu var tekin þann 19. janúar 2018. Vel hefur því tekist til við framkvæmdina sem tók rétt um 15 mánuði.
„Bæði Akraneskaupstaður og Golfklúbburinn Leynir geta borið höfuðið hátt með þessa framkvæmd. Guðmundur Sigvaldason framkvæmdastjóri Leynis á hrós skilið fyrir að stýra þessu verkefni og ljúka því á aðeins 15 mánuðum.“
Akraneskaupstaður á frístundamiðstöðina en Leynir er rekstraraðili. Yfir vetrartímann er markmiðið að húsið verði nýtt fyrir ýmsa starfsemi. Nýverið gerði Akraneskaupstaður nýjan rekstrarsamning við Leyni hvað varðar umhirðu Garðavallar. Töluverð hækkun er á framlagi Akraneskaupstaðar í nýja samningum. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri sagði á opnunarhátíðinni að framlagið hækki í tæplega 15 milljónir kr. á ári en rekstrarkostnaðurinn á vellinum er um 26 milljónir kr. á ári. Sævar Freyr sagði að bæjaryfirvöld litu á Garðavöll sem íþróttamannvirki.
Þórður Emil segir að ný hugsun hjá bæjaryfirvöldum sé lyftistöng fyrir Leyni.
„ Akraneskaupstaður mun koma meira að því að styðja við bakið á Leyni með rekstur golfvallarins. Það er í raun ný hugsun hjá bæjaryfirvöldum að koma að rekstri golfvallar sem íþróttamannvirkis. Bærinn viðurkennir að þetta er eitt af íþróttamannvirkum kaupstaðarins. Og hingað á Akranes koma á bilinu 12–14 þúsund manns til þess eins að spila golf. Það er gott að vera með bæjarfulltrúa sem viðurkenna golfíþróttina með þessum hætti. Önnur bæjarfélög fylgja vonandi í kjölfarið enda er golfíþróttin stór þáttur í lýðheilsu þeirra sem hana stunda.“
Þórður er bjartsýnn á golfsumarið 2019 – sem byrjar sannarlega vel.
„Mér líður að sjálfsögðu gríðarlega vel. Ég er mjög stoltur af þessu verkefni. Ekki skemmir fyrir að golfvöllurinn er 4–5 vikum á undan áætlun. Það er gaman að geta boðið félagsmönnum Leynis og öðrum gestum upp á slíka aðstöðu. Þegar þetta tvennt fer saman getum við borið höfuðið hátt.“
Það var margt í boði fyrir gesti við opnun frístundamiðstöðvarinnar og mikið líf og fjör. Gestir gátu spreytt sig í ýmsum golfþrautum, andlitsmálun var í boði og að sjálfsögðu var boðið upp á pylsur og hoppukastala.
Veitingastaður í hæsta gæðaflokki
Glæsilegur veitingastaður er í nýju frístundamiðstöðinni á Akranesi. Rekstraraðilarnar eru þaulreyndir í þessu fagi og hafa rekið veitingahúsið Galito með frábærum árangri í mörg ár.
Galito Bistro Cafe er nafnið á veitingastaðnum í frístundamiðstöðinni. Þar verður margt í boði fyrir kylfinga og aðra gesti. Fjöldi spennandi rétta í hæsta gæðaflokki og úrvalið gott. Eitthvað fyrir alla – á öllum aldri.