Auglýsing
– Hugarfarið breyttist þegar Íslandsmeistarinn Signý Arnórsdóttir eignaðist soninn Styrmi – viðtal úr 5. tbl. Golf á Íslandi 2015

[dropcap]É[/dropcap]g er með Íslandsmeistarabikarinn hérna úti í gluggakistu og horfi á hann á hverjum degi. Ég er alveg jafnánægð með titilinn í dag og ég var í júlí á Akranesi. Samt líður mér aðeins öðruvísi, þetta er raunverulegra í dag en þá, ég var ekki alveg búinn að meðtaka að ég væri Íslandmeistari skömmu eftir að mótinu lauk,“ segir Signý Arnórsdóttir í samtali við Golf á Íslandi þegar hún var innt eftir því hvort hún þurrki af Íslandsmeistarabikarnum daglega og rifji upp góðar stundir frá Garðavelli.

Sigur Signýjar kom nokkuð á óvart þar sem hún eignaðist barn í upphafi ársins 2015 og hafði lítinn tíma til þess að æfa. Signý er ekki í vafa um að sonurinn, Styrmir Már, hafi breytti hugarfarinu og nálgun hennar á golfíþróttina.

[quote_box_center]„Það að eiga barn og hafa farið í gegnum það ferli breytti hugarfarinu mikið hjá mér. Ég naut þess betur að leika golf og að hafa gaman af því sem ég var að gera. Þetta hugarástand var ríkjandi hjá mér á Íslandsmótinu og fleiri mótum á síðasta sumri.“[/quote_box_center]
Signý segir að það hafi ekki verið sérstakt keppikefli hennar að ná sem bestum árangri á Íslandsmótinu þar sem sterkustu atvinnukylfingar landsins voru á meðal keppenda.

„Ég hef alltaf verið mikil keppnismanneskja. Ég fer ekki í mót nema til þess að sigra, það var bara gaman hversu sterkt Íslandsmótið var á Garðavelli. Valdís Þóra Jónsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir voru á meðal keppenda. Ég lagði það ekkert sérstaklega upp að vera betri en þær. Ég vildi bara vinna. Mótið var sterkt og það var gaman að setja mótsmet.“

Háskólanám samhliða 100% vinnu

Það er í mörg horn að líta hjá Íslandsmeistaranum sem er í krefjandi háskólanámi og fer samhliða því að vinna á nýju ári.

[quote_right]„Það hefur verið mikið að gera hjá mér í haust og það verður sama staða á næsta ári.[/quote_right]

Ég byrjaði í fjarnámi í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri í haust. Það tekur tíma og samhliða því er ég í fæðingarorlofi með soninn sem er 9 mánaða.

Það er ekkert orlof að vera með hann alla daga skal ég segja þér. Hann er ansi fjörugur. Á næsta ári fer ég að vinna 100% starf á mínum gamla vinnustað, Myllunni, og verð áfram í 100% námi. Það verður eflaust ekki mikill tími til þess að æfa golf, en ég ætla samt að reyna eins og ég get.“

Signý mun mæta í titilvörnina á Íslandsmótinu á Jaðarsvelli á næsta ári en hún er ekki með miklar væntingar um árangur. Allavega ekki á þessum tímapunkti þegar viðtalið er tekið.

 

Signý Arnórsdóttir.
Signý Arnórsdóttir.

„Ég ætla ekki að vera með stór orð um hvað ég ætla að gera á næsta tímabili á Eimskipsmótaröðinni. Það er alveg ljóst að ég get ekki setið á hliðarlínunni og ekki tekið þátt. Mér finnst þetta það gaman að ég mun halda áfram að keppa – bara til þess að hafa gaman af því og hitta aðra kylfinga. Það kemur bara í ljós næsta vor hversu háleit markmiðin verða hjá mér. Þetta er í raun bara spurning um hugarfarið, ég er með góðan grunn og get nýtt mér það í keppnisgolfinu. Ég æfði talsvert fyrir Íslandsmótið á Garðavelli og ég mun alveg halda slíku áfram þegar ég finn tíma til þess samhliða öllu öðru.“

Ómetanleg aðstoð

Sævar Ingi Sigurgeirsson, unnusti Signýjar, hefur verið aðstoðarmaður hennar á Eimskipsmótaröðinni undanfarin ár og hefur samvinna þeirra skilað góðum árangri. Signý segir að hún sé heppinn og lánsöm að hafa gott stuðningsnet ættingja og vina sem bjóði fram aðstoð sína á sumrin þegar keppnistímabilið stendur sem hæst.

[quote_right]„Foreldrar mínir, Margrjet Þórðardóttir og Arnór Skúlason, og tengdamóðir mín, Margrét Böðvarsdóttir, voru ómetanleg á keppnisferðunum s.l. sumar. [/quote_right]

Þau sáu bara um Styrmi á meðan ég var að keppa og Sævar var á „pokanum“. Þetta væri ekki hægt án þeirra. Ég veit ekki hvort Styrmir verði mikið úti á golfvelli á næsta ári, hann er það mikill orkubolti og getur verið hávær. Það á eftir að koma í ljós.“

Draumur um atvinnumennsku er ekki efst á forgangslistanum hjá Signýju, allavega ekki eins og staðan er í dag í hennar lífi.

„Ég veit það ekki, ég held ekki. Maður veit aldrei. Golfið er þannig að maður getur gert ýmislegt þótt maður verði eldri. Ég er með námið í forgangi núna, stefni á að klára það, en maður veit aldrei hvað gerist. Kannski reyni ég við úrtökumót síðar á ferlinum.“

Áhyggjuefni hve fáar stelpur eru í golfi

Signý hefur áhyggjur af því hversu fáar stelpur æfi golf og hún telur að það þurfi að nálgast þær með öðrum hætti en strákana.

[quote_box_right]„Við erum með fáar stelpur í Keili og það er áhyggjuefni. Ég veit ekki hvernig best er að vinna úr því en stelpur nálgast hlutina með öðrum hætti en strákar. Þær eru meiri félagsverur. Strákar geta æft 10 tíma á dag og verið einir, stelpur þurfa að spjalla og kjafta saman.
[/quote_box_right]
Ég byrjaði að æfa 14 ára, kynntist Jódísi Bóasdóttur og Rögnu Ólafsdóttur. Við vorum bestu vinkonur fyrstu árin sem við vorum að æfa. Það er ennþá talað um það í Keili hversu mikið við Jódís töluðum saman á æfingum. Það er lýsandi fyrir stelpur. Ég hef verið að þjálfa yngri kylfinga hjá Keili og það er mikill munur á því hvernig stelpur og strákar haga sér á æfingum. Stelpurnar þurfa bara að tala meira og við þurfum kannski að vinna eitthvað út frá því til þess að ná fleiri stelpum í golfið. Þær eru félagsverur og við þurfum að finna leiðir til þess að gera golfið enn skemmtilegra fyrir þær.

Það skiptir líka máli að hafa sterkar fyrirmyndir. Ólöf María Jónsdóttir var í Keili þegar ég var að byrja og hún hefur náð lengst allra í kvennagolfinu á Íslandi. Tinna Jóhannsdóttir var einnig á svæðinu og þetta skiptir allt máli.

Það er ekki mikill munur á umfjöllun fjölmiðla á Íslandi um karla – og kvennagolf á Eimskipsmótaröðinni. Það er hinsvegar meiri munur á því hvernig fjallað er um atvinnukylfinga erlendis. Ég efast um að stelpur sem eru í golfi viti hverjar helstu stjörnurnar eru erlendis í kvennagolfinu. Þær þekkja hinsvegar Rory McIlroy, Adam Scott og Jordan Spieth,“ sagði Signý.

Signý Arnórsdóttir.
Signý Arnórsdóttir.
IMG_9639
Sævar og Signý fara yfir stöðuna fyrir lokapúttið á Garðavelli.
IMG_1174
Feðgarnir Arnór Skúlason og Rúnar Arnórsson á góðri stund úti á velli.
IMG_9636
Sævar og Signý einbeitt á svip.

 

Signý Arnórsdóttir.
Signý Arnórsdóttir brosti breitt á verðlaunaafhendingunni á Íslandsmótinu á Akranesi.
IMG_1672
Rúnar Arnórsson fór með systurson sinn í göngutúr á meðan Signý var að keppa á Íslandsmótinu í holukeppni á Jaðarsvelli.
IMG_9408
Signý Arnórsdóttir slær hér við 13. braut á Garðavelli.
IMG_9621
Signý gerir sig klára fyrir síðasta púttið á Garðavelli á Íslandsmótinu.

IMG_9231

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ