Golfsamband Íslands

Nýtt keppnistímabil hefst í Eyjum – rástímar fyrir Nýherjamótið liggja fyrir 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Mynd/seth@golf.is

Nýherjamótið á Eimskipsmótaröðinni fer fram um helgina í Vestmanneyjum. Mótið markar upphaf á nýju keppnistímabili á mótaröðinni 2016-2017. Það er að miklu að keppa fyrir kylfingana sem taka þátt á Nýherjamótinu til þess að safna stigum og koma sér í góða stöðu fyrir baráttuna um efstu sætin á Eimskipsmótaröðinni.  

Þetta er í fyrsta sinn sem keppnistímabil hefst að hausti á Eimskipsmótaröðinni en alls verða mótin átta á þessu tímabili. Tvö þeirra fara fram á þessu ári og sex á næsta ári. Keppni hefst á Nýherjamótinu á föstudaginn og verða leiknar 18 holur á dag og alls 54 holur.

Margir þekktir kylfingar eru á meðal keppenda á Nýherjamótinu og þar á meðal þrír sem hafa fagnað Íslandsmeistaratitlinum. Þeir eru; Kristján Þór Einarsson (GM), Sigurpáll Geir Sveinsson (GM) og Björgvin Þorsteinsson (GA).

Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GR er með lægstu forgjöfina í karlaflokknum en hann er með +3,5. Guðmundur er í landsliði Íslands sem tekur þátt á HM áhugamanna í Mexíkó í september. Meðalforgjöfin í karlaflokki er 2,1 og eru alls átta kylfingar með 0 eða lægri forgjöf.

Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR, sem tryggði sér stigameistaratitilinn á Eimskipsmótaröðinni á Securitasmótinu sem fram fór á Grafarholtsvelli 19.-21. ágúst s.l. er á meðal keppenda á Nýherjamótinu. Saga Traustadóttir úr GR, sem sigraði á Securitasmótinu er einnig á meðal keppenda í kvennaflokki í Eyjum. Meðalforgjöfin í kvennaflokki er 2,98 högg.

Screen Shot 2016-08-31 at 3.06.50 PM

Exit mobile version