Fulltrúar úr vallarmatshópi GSÍ, þeir Andrés I. Guðmundsson og Arnar Geirsson, kynntu stjórnendum golfklúbbsins Odds nýtt vallarmat og vægi fyrir Urriðavöll nú í vikunni. Heildarúttekt á vellinum var síðast gerð árið 2015 og því kominn tími á endurskoðun, en samkvæmt WHS/USGA ættu ekki að líða meira en tíu ár á milli slíkra úttekta. Golf.is tók viðtal við Andrés I. Guðmundsson til að fá skýringar á hvernig vallarmat fer fram og hvað veldur breyttu mati á Urriðavelli.
Hvað er það sem einkennir þá aðila sem eru í sjálfboðavinnu að meta golfvelli, safna og vinna úr gögnum um þá svo GSÍ geti gefið út vallarmat og vægi?
Hópurinn sem er að meta golfvellina í dag er mjög samrýmdur og hefur verið að slípast saman í tæp 20 ár. Flest í hópnum hafa sótt námskeið á vegum USGA í vallarmatsfræðum og hafa tilskilin leyfi frá þeim til að nota vallarmatskerfið. Við teljum að það sé nauðsynlegt að hafa góða þekkingu á golfíþróttinni, vera talnaglögg/-ur og þekkja mismunandi gerðir af golfvöllum á Íslandi. Svo hjálpar til að hafa ómældann tíma að gefa í þetta stúss frá júní fram í september.
Eru þetta allt lágforgjafarkylfingar í hópnum?
Nei, enda er það ekki endilega kostur, en allir í hópnum hafa góða þekkingu á hvað lág- og háforgjafarkylfingar eiga að geta, bæði karlar og konur.
Hvernig fer þetta fram á vellinum? Eru matsatriðin mörg?
Til að byrja með má nefna að flestir halda að þetta sé eitthvað huglægt mat hjá okkur sem erum í þessu. Það er rangt og væri í raun réttara að kalla þetta vallarmælingar þar sem við erum að safna upplýsingum af vellinum út frá tveimur kylfingum scratch og bogey hjá báðum kynjum. Þessir kylfingar slá ekki jafn langt og því eru lendingarsvæði og umhverfi þeirra mismunandi. Það er 10 atriði ásamt raunlengd vallar sem skipta máli. Sem dæmi má nefna hraða flata, hæð karga, glompur, vítasvæði, breidd brauta o.s.frv.
Hver er helsti munurinn á þessum kylfingum þ.e. scratch og bogey?
Samkvæmt viðmiðum vallarmatsins er scratch kylfingur með 0 í forgjöf, bogey karl um 20 í forgjöf og bogey kona um 24 í forgjöf. Kvenkylfingur með 0 í forgjöf slær 192 metra upphafshögg, bogey konan slær 137 metra upphafshögg. Karlkylfingur með 0 í forgjöf slær 229 metra upphafshögg en bogey karl slær 183 metra upphafshögg. Brautarhöggin eru svo hlutfallslega styttri.
Hvað tekur langan tíma að klára mat á 18 holu velli?
Vinnan við mælingar og athuganir á vellinum tekur u.þ.b. svipaðan tíma og að leika hann, eða rétt rúmlega það. Með úrvinnslu er svo hver matsmaður kannski að setja 10-12 klst. í 18 holur fyrir utan ferðatíma og annað sem tilheyrir að koma sér á og af vellinum. Sá sem er teymisstjóri og leiðir matið er kannski að leggja 24 tíma í verkefnið með undirbúningi mats, samræmingu á gögnum og yfirferð á niðurstöðum fyrir birtingu þess.
Nú er vallarmatið fyrir Urriðavöll að breytast töluvert þó svo að völlurinn hafi ekki breyst að ráði, hvað veldur því?
Vallarmatskerfi USGA/WHS hefur verið breytt tvisvar sinnum frá árinu 2015 og beinn samanburður við eldra mat er því erfiður. En sem dæmi má nefna að nú mældist hraðinn á flötum þannig að þær færðust upp um flokk og fengu hærri einkunn. Tré og gróður meðfram brautum og flötum hefur vaxið og aukist mikið á síðustu 8 árum og fær hærri einkunn í samræmi við það. Það hefur áhrif á önnur matsatriði þegar kemur að einkunnagjöf og að lokum hækkar sjálfvirkt sálfræðilegt mat kerfisins á vellinum líka þar sem mun fleiri háar einkunnir koma fyrir í matinu. Á flestum teigum fá kylfingar því 1-2 höggum meira í vallarforgjöf en þeir hafa hingað til fengið á þessum velli.
Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri við kylfinga?
Já, það má alveg benda fróðleiksfúsum kylfingum á að á golf.is er að finna góðar upplýsingar um vallarmat, vallarmatskerfið, mælingu golfvalla og annað það sem til þarf til mats á golfvelli.
Takk fyrir spjallið.