Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR lék á 73 (+1) höggum og Valdís Þóra Jónsdóttir úr GL var á 76 (+4) á fyrsta keppnisdeginum á lokaúrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina. Keppt er á tveimur keppnisvöllum í Marokkó. Ólafía Þórunn lék á Al Maaden vellinum og er hún í 42.-53. sæti af alls 120 kylfingum. Valdís Þóra lék á Samanah vellinum og er Valdís í 81.-95. sæti.
Eftir 72 holur eða fjóra keppnishringi komast 60 efstu kylfingarnir inn á lokahringinn sem verður leikinn á Samanah vellinum. Miðað við fyrsta daginn eru þeir kylfingar sem eru á +2 öruggir áfram en Valdís er tveimur höggum frá því. Það á margt eftir að breytast á næstu þremur keppnisdögum.
Í lok mótsins komast 30 efstu inn á LET Evrópumótaröðina.
Besta skorið á fyrsta deginum var 67 högg eða -5 en þar var að verki Georgia Hall frá Englandi.