Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er úr leik á LPGA Volvik meistaramótinu sem fram fer á Ann Arbour í Michigan í Bandaríkjunum. Mótið er hluti af LPGA mótaröðinni sem er sú sterkasta í atvinnugolfi kvenna.
Ólafía lék á +2 samtals (71-75) á fyrstu tveimur hringjunum en niðurskurðurinn miðast við par vallar. Á öðrum hringnum hóf Ólafía leik á 10. teig og hún var á -2 samtals þegar hún átti þrjár holur eftir. Hún tapaði fjórum höggum samtals á 7. og 8. braut.
Ragnar Már Garðarsson úr GKG var aðstoðarmaður Ólafíu Þórunnar í þessu móti – en hann var einnig aðstoðarmaður hennar á síðasta móti. Ólafía var í ráshóp með Candie Kung og Dani Holmqvist fyrstu tvo keppnisdagana.
Volvik mótið er ellefta mótið á LPGA mótaröðinni á þessu tímabili hjá Ólafíu. Hún hefur komist í gegnum niðurskurðinn á þremur mótum og er hún í 108. sæti á CME stigalista LPGA mótaraðarinnar.
Shanshan Feng frá Kína hefur titil að verja á þessu móti.