Site icon Golfsamband Íslands

Ólafía og Cheyenne byrjuðu ekki vel í liðakeppninni á LPGA mótaröðinni

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er á meðal keppenda á LPGA mótaröðinni í þessari viku. Mótið heitir The Dow Great Lakes Bay Invitational og er keppnisfyrirkomulagið með óhefðbundnum hætti.

Í fyrsta sinn er keppt í tveggja manna liðum á LPGA mótaröðinni, sterkustu atvinnumótaröð heims hjá atvinnukylfingum í kvennaflokki. Mótið fer fram á Midland vellinum í Michigan.

Keppendur eru alls 144 og er þeim skipt niður í 72 lið. Ólafía Þórunn er í liði með Cheyenne Woods, sem lék með Ólafíu í háskólaliðinu Wake Forest á sínum tíma. Bandaríski kylfingurinn er eins og nafnið gefur til kynna frænka Tiger Woods.

Í fyrstu og þriðju umferð skiptast kylfingarnir í liðunum á að slá einn bolta. Í annarri og fjórðu umferð telur betra skor á hverri holu.

Niðurskurður verður eftir 36 holur þar sem að 35 efstu liðin komast áfram.

Sigurliðið skiptir á milli sín 485.000 Bandaríkjadölum eða sem nemur 62 milljónum kr.

Ólafía og Cheyenne byrjuðu mótið á að leika á +6 og eru þær neðarlega á listanum eins og staðan er núna.

Exit mobile version