Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR og Valdís Þóra Jónsdóttir úr GL hefja leik í dag á Open Generali de Dinard meistaramótinu sem fram fer í Frakklandi. Mótið er hluti af LET Access atvinnumótaröðinni í Evrópu – sem er næst sterkasta atvinnugolfmótaröð kvenna á eftir sjálfri LET Evrópumótaröðinni.
Ólafía, sem hefur tvívegis fagnað Íslandsmeistaratitlinum í golfi (2011 og 2014) hefur leik kl. 11.15 að íslenskum tíma. Valdís, sem hefur einnig sigrað tvívegis á Íslandsmótinu (2009 og 2012) er í næsta ráshóp á eftir sem fer af stað kl. 11.25.
Þetta er fyrsta mót keppnistímabilsins en íslensku kylfingarnir ætla að leggja áherslu á LET Access mótaröðina á þessu tímabili. Þetta er í fyrsta sinn sem tvær íslenskar konur eru með keppnisrétt á þessari mótaröð en Valdís Þóra er að hefja sitt annað tímabil á LET Access mótaröðinni.
Stigahæstu keppendurnir á LET Access mótaröðinni í lok keppnistímabilsins vinna sér inn keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni.
Hægt er að fylgjast með gangi mála með því að smella hér: