Golfsamband Íslands

Ólafía skrifaði nýjan kafla í golfsögu Íslands – til hamingju

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR skrifaði nýjan kafla í golfsögu Íslands í dag þegar hún varð önnur á lokaúrtökumótinu fyrir LGPA mótaröðina. Ólafía lék lokahringinn á +1 eða 73 höggum en Jaye Marie Green frá Bandaríkjunum tryggði sér sigur með því að fá fugl á lokaholunni.

Ólafía lék samtals á 12 höggum undir pari og var einu höggi á eftir Jaye Marie Green frá Bandaríkjunum. Alls komust 20 efstu inn á LPGA mótaröðina og má gera ráð fyrir að Ólafía fái tækifæri á fyrsta mótinu á Bahamas í lok janúar á næsta ári.

Með árangri sínum á lokaúrtökumótinu tryggði Ólafía sér sæti í 12. flokki á LPGA mótaröðinni. Það þýðir í raun að hún er í sæti 119-138 á styrkleikalistanum. Miklu máli skipti fyrir hana að vera svona ofarlega á lokaúrtökumótinu því þá er hún ávallt fremst í röðinni í þessum styrkleikaflokki þegar kemur að því að deila út sætum á þeim mótum sem eru á LPGA mótaröðinni.

Í fyrra fengu 15 kylfingar af þeim 20 sem tryggðu sér keppnisrétt á LPGA á lokaúrtökumótinu tækifæri á fyrsta mótin á tímabilinu 2016. Og á öðru mótinu fengu rúmlega tíu af nýliðunum tækfæri.

„Þetta er ótrúleg tilfinning ég er enn að átta mig á þessu. Ég var aldrei stressuð en ég var aðeins farin að þreytast. Það var erfitt að halda einbeitingunni, en ég náði að einbeita mér að einu höggi í einu. Ég hugsaði sem minnst um golf þegar ég var komin af vellinum, fór að versla og horfði á Friends þætti og eitthvað slíkt. Ég þakka aðstoðarmanninum mínum í mótinu fyrir árangurinn, fjölskyldunni, Forskot, það eru svo margir sem ég þarf að nefna. Án þeirra væri ég ekki hérna. Ég þarf ekki að fara á lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina og ég ætla að út að borða í kvöld og fagna síðan almennilega þegar ég kem heim til Íslands,“ sagði Ólafía við golf.is í kvöld.

Lokastaðan:

screen-shot-2016-12-04-at-8-00-39-pm

Fylgst var með gangi mála hjá Ólafíu í dag á Twittersíðu GSÍ sem er hægt að skoða hér fyrir neðan.

Hér má sjá stöðuna: 


Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék frábært golf á fjórða keppnisdeginum á lokaúrtökumótinu fyrir LPGA atvinnumótaröðina í Bandaríkjunum. Ólafía lék á 68 höggum eða -4 og er hún á -13 fyrir fimmta hringinn sem er jafnframt lokahringurinn. Ólafía hefur leik kl. 14:31 á sunnudaginn á Hills vellinum og verður hún í lokaráshópnum.

[quote_box_right]„Mér leið bara vel eins og hina dagana. Ég reyni að hugsa sem minnst um golf eftir hringina og ég vinn með  hugarþjálfunarverkefni á kvöldin,“ sagði Ólafía við golf.is þegar hún var innt eftir því hvernig hún hafði undirbúið sig fyrir fjórða hringinn. „Mér líður vel og þessi hringur var mjög svipaður og hinir, var með 27 pútt. Planið fyrir lokahringinn er að vera andlega sterk og þolinmóð.“[/quote_box_right]

Ólafía hefur fikrað sig upp töfluna með hverjum deginum sem líður. Hún var í 72.-91. sæti eftir fyrsta hringinn á +2 en frá þeim tíma hefur hún fengið 19 fugla og aðeins fjóra skolla. Ólafía, sem stundaði nám í Wake Forest háskólanum og lék þar með skólaliðinu, er á 275 höggum eða -13. „Mér leið ekki vel áður en hringurinn hófst á æfingasvæðinu. Ég fann til í bakinu og ég reyndi því ekki mikið á mig áður en hringurinn hófst. Þetta reyndist vera allt í lagi en ég sló tvö léleg högg út af bakinu. Allt annað var í lagi og pútterinn var sjóðandi heitur,“ sagði Ólafía Þórunn í viðtali við LPGA í gær.

[pull_quote_right]Mér leið ekki vel áður en hringurinn hófst á æfingasvæðinu. Ég fann til í bakinu og ég reyndi því ekki mikið á mig áður en hringurinn hófst. Þetta reyndist vera allt í lagi en ég sló tvö léleg högg út af bakinu. Allt annað var í lagi og pútterinn var sjóðandi heitur[/pull_quote_right]
Hún fékk þrjá fugla á þremur síðustu holunum.
Ólafía hefur leikið á sjö mótum á LET Evrópumótaröðinni á þessu tímabili en hún er nýliði á þeirri mótaröð. Hún er í 96. sæti á stigalista mótaraðarinnar og þarf að fara í gegnum lokaúrtökumótið í desember í Marokkó til þess að reyna að endurnýja keppnisréttinn. Hún varð í 26. sæti á sterku móti í Abu Dhabi snemma í nóvember þar sem hún var í efsta sæti fyrstu tvo keppnisdagana.

„Úrtökumótin snúast um að vera andlega sterkur, og ég þarf því að vera þolinmóð á lokahringnum. Ég vil ekki hugsa mikið útkomuna eða stöðuna fyrr en mótið er búið.“

Ólaf Þórunn þarf að enda í hópi 20 efstu eftir fimmta keppnisdaginn til þess að öðlast keppnisrétt á LPGA mótaröðinni. Í fyrra voru þrír kylfingar jafnir á -4 samtals eftir 90 holur í 19.-21. sæti og léku þær í bráðabana um sæti nr. 19. og 20. Sú sem varð í 21. sæti sat eftir með sárt ennið. Alls komast 70 efstu kylfingarnir í gegnum niðurskurðinn eftir fjórða keppnisdaginn.

Þeir kylfingar sem enda í sætum 1.-20. fá verðlaunafé. Sá sem sigrar fær um 550.000 kr. í sinn hlut og verðlaunféð fer síðan lækkandi. Sá sem endar í 20. sæti má gera ráð fyrir að fá um 150.000 kr. í verðlaunafé.

Hún hefur með árangri sínum á 2. stiginu tryggt sér keppnisrétt á Symetra mótaröðinni sem er næst sterkasta mótaröðin í Bandaríkjunum. Er samskonar mótaröð og LET Access mótaröð í Evrópu en er jafnvel á styrkleika við sjálfa LET Evrópumótaröðina.

Ólafía var í síðasta ráshópnum á Jones vellinum og lék með Solheimleikmanninum frá Englandi, Mel Reid, og Regan De Guzman sem er áhugakylfingur frá Filippseyjum.

3. keppnisdagur: 

Ólafía Þórunn lék frábært golf á þriðja keppnisdeginum á lokaúrtökumótinu fyrir LPGA mótaröðina í golfi. Hún lék á 67 höggum á Hills vellinum á föstudaginn eða -5 og er samtals á -9 þegar tveir hringir eru eftir. Íslandsmeistarinn í golfi er í þriðja sæti. Hún hefur bætt leik sinn jafnt og þétt alla þrjá keppnisdagana.

Magnaður árangur hjá Ólafíu sem þarf að enda á meðal 20 efstu til þess að fá keppnisrétt á LPGA mótaröðinni. Sæti 21-40 gefa einnig takmarkaðann keppnisrétt á LPGA mótaröðinni.

„Mér líður mjög vel, ég hef náð að halda mér í „núinu“ og vera þolinmóð. Ég er að ná þeim markmiðum sem ég setti mér fyrirm mótið og ég þarf að halda áfram að vera andlega sterk. Það er mikilvægast. Það voru hættulega mörg pútt sem voru nálægt því að fara ofaní en ég var með 25 pútt í dag,“ sagði Ólafía Þórunn við golf.is í kvöld.
[pull_quote_right]
Mér líður mjög vel, ég hef náð að halda mér í „núinu“ og vera þolinmóð.[/pull_quote_right]

 

 

2. keppnisdagur:

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék frábært golf á öðrum keppnisdegi á lokaúrtökumótinu fyrir sterkustu atvinnumótaröð kvenna í atvinnugolfi á miðvikudaginn – LPGA mótaröðina í Bandaríkjunum. Ólafía lék á 66 höggum á öðrum hringnum eða -6 og er hún samtals á -4 eftir 36 holur. Hún hóf daginn á +2 samtals eftir að hafa leikið á 74 höggum á fyrsta hringnum. Magnaður árangur hjá Ólafíu sem þarf að enda á meðal 20 efstu til þess að fá keppnisrétt á LPGA mótaröðinni. Sæti 21-40 gefa einnig takmarkaðann keppnisrétt á LPGA mótaröðinni.

Ólafía er í 10.-11. sæti og hefur hún leik kl. 15:01 á þriðja keppnisdeginum en það er sami völlur og hún lék á 66 höggum á öðrum keppnisdeginum. Hún leikur síðan fjórða hringinn á laugardaginn á Jones vellinum. Fimmti hringurinn fer fram á Hills vellinum en þangað komast 70 efstu að loknum fjórða hringnum.

[pull_quote_center]„Það var ótrúlega gaman í dag, ég spilaði ótrúlega stöðugt golf og púttaði mjög vel. Ég hitti 15 flatir í tilætluðum höggafjölda og var með 28 pútt.  Það var góð stemning á vellinum þar sem ég fékk góðan stuðning frá fjölda Íslendinga,“ sagði Ólafía eftir hringinn. [/pull_quote_center]

Hér má sjá stöðuna: 

GR-ingurinn lék fyrsta hringinn á 74 höggum á Hills vellinum eða +2. Hún byrjaði ekki vel og var +3 eftir fimm holur en hún náði aðeins að laga stöðu sína í kjölfarið og lék hún næstu 12 holur á parinu samtals.

Ólafía var í 72.-91. sæti eftir fyrsta hringinn. Besta skorið er -5. Athygli vekur að keppendur á Jones vellinum sem Ólafía leikur á öðrum hring eru mun fleiri á meðal efstu kylfinga. Skorið á Hills vellinum var mun hærra að meðaltali á fyrsta hringnum.

Hér má sjá stöðuna: 

Í þessari frétt má nálgast ýmsar upplýsingar um hvað Ólafía þarf að gera til þess að komast inn á mótaröð þeirra bestu í heiminum. Hún þarf að enda í einu af 20 efstu sætunum að loknum fimmta hringnum sem fram fer á sunnudaginn.

Golf.is mun fylgjast grannt með gangi mála og uppfæra stöðuna á Twittersíðu Golfsambandsins sem má sjá hér fyrir neðan.

Skor keppenda er uppfært hér:

 

GR-ingurinn keppir á LPGA-International golfsvæðinu í Daytona á Miami. Ólafía hefur keppni á Hills vellinum og slær hún fyrsta höggið kl. 14:17 miðvikudaginn 30. nóvember eða kl. 9.17 að staðartíma.

Ólafía verður með Mindy Kim frá Bandaríkjunum og Holly Clyburn frá Englandi í ráshóp fyrstu tvo keppnisdagana. Á þriðja keppnisdegi verður ræst út eftir skori og verður sá háttur hafður á það sem eftir er keppninnar.

Ólafía Þórunn: „Mér líður vel og keppnisvellirnir eru skemmtilegir“

Lokaúrtökumótið nálgast hjá Ólafíu – hvað þarf hún að gera?

Exit mobile version