Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék á 73 höggum eða +1 á fyrsta keppnisdeginum á Manulife mótinu á LPGA mótaröðinni í gær. Ólafía Þórunn byrjaði ekki vel en hún hóf leik á 10. teig. Hún tapaði þremur höggum á fyrstu tveimur holunum og var á +2 eftir 9 holur. Hún lagaði stöðu sína með tveimur fuglum fjórum síðustu holunum og endaði á +1 samtals. Ólafía er í 82. sæti eftir fyrsta daginn en alls eru 144 keppendur á mótinu. Skorið verður niður í keppendahópnum eftir hringinn í dag og á Ólafía Þórunn rástíma kl. 13:05 í dag.
Þetta er fjórða mótið í röð á fjórum vikum hjá Ólafíu en mótið fer fram í Cambridge í Ontario í Kanada. Alls verða leiknar 72 holur og mótinu lýkur á sunnudaginn.
Mótið er níunda mótið á LPGA ferli Ólafíu Þórunnar en hún er eini íslenski kylfingurinn sem hefur unnið sér inn keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð heims, LPGA. Ólafía hefur náð í gegnum niðurskurðinn á þremur mótum af alls níu og á einu móti komst hún í gegnum fyrri niðurskurðinn en ekki í gegnum lokaniðurskurðinn eftir 54 holur.
Ólafía er í sæti nr. 122 á stigalista LPGA en hún þarf að vera í hópi 100 efstu á listanum í lok keppnistímabilsins til þess að halda fullum keppnisrétti. Sæti nr. 101-125 gefa takmarkaðann keppnisrétt á næsta tímabili.
Þetta er sjötta árið sem þetta mót fer fram á þessum stað á LPGA mótaröðinni. Caroline Masson frá Þýskalandi hefur titil að verja en hún fagnaði sínum fyrsta LPGA sigri í fyrra á þessum velli.