Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur úr GR er úr leik á Opna breska meistaramótinu. Ólafía lék á 75 höggum í dag á öðrum keppnisdegi mótsins en hún lék einnig lék á 75 höggum eða +3 á fyrsta hringnum. Hún er því á +6 samtals á Kingsbarns vellinum og er Ólafía Þórunn í 141. sæti þessa stundina.
Þegar þetta er skrifað er niðurskurðarlínan miðuð við -1 og ljóst að Ólafía Þórunn var töluvert frá því að komast áfram.
Þetta er í þriðja sinn sem íslenskur kylfingur keppir á risamóti í golfi. Ólafía Þórunn var sú fyrsta sem lék á risamóti á KPMG meistaramótinu. Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni var önnur í röðinni á Opna bandaríska meistaramótinu og Ólafía leikur því í annað sinn á risamóti á Opna breska á Kingsbarns.
Ólafía Þórunn var í 123. sæti af alls 144 kylfingum þegar 2. keppnisdagur hófst í morgun.
Fylgst er með gangi mála á Twittersíðu GSÍ hér fyrir neðan.
1. dagur:
Hún lék Kingsbarns völlinn á 75 höggum eða +3 og er hún í 123. sæti af alls 144 keppendum. Það er ljóst að hún þarf að leika gríðarlega vel á öðrum hringnum til þess að komast í gegnum niðurskurðinn.
Ólafía hóf leik á 1. braut í dag og tapaði þar höggi en hún vann það upp strax á 4. braut með fugli. Hún tapaði höggi á 6. en fékk fugl á 8. og var á parinu eftir 9 holur. Hún hóf síðari 9 holurnar með pari og fékk síðan fjögur pör til viðbótar í röð. Hún tapaði höggi á 15. og tveimur höggum á næstu holu en lauk leik með tveimur pörum í röð.
Hún er í ráshóp með tveimur bandarískum keppendum, Jennifer Song og Laura Diaz. Sýnt er beint frá mótinu á Golfstöðinni og hófst útsendingin kl. 10.00.
Ólafía þekkir vel til Diaz sem er gift einum af fyrrum þjálfurum Ólafíu Þórunnar þegar hún var við nám í bandaríska háskólanum Wake Forest. Diaz gaf þar nemendum í Wake Forest liðinu góð ráð þegar hún kom þar í heimsókn á meðan Ólafía var við nám.
Ariya Jutanugarn frá Taílandi hefur titil að verja á þessu móti en hún er fyrsti kylfingurinn frá heimalandi sínu sem sigrar á risamóti. Hún lék hringina fjóra á Marquess’ Course í Woburn á 16 höggum undir pari samtals. Um 50.000 áhorfendur komu á mótið í fyrra og má gera ráð fyrir að sá fjöldi verði svipaður í ár og jafnvel enn fleiri.
Nánast allir bestu kylfingar heims í kvennaflokki eru á meðal keppenda. Má þar nefna;
Ariya Jutanugarn, Lydia Ko, Lexi Thompson, Michelle Wie, Stacy Lewis Paula Creamer, Inbee Park, Yani Tseng, Mo Martin, Charley Hull og Catriona Matthew.
Mótið í ár er það 42. í röðinni og er þetta í fyrsta sinn sem risamót fer fram á Kingsbarns vellinum í Skotlandi. Frá árinu 2001 hefur Kingsbarns verið einn af þremur keppnisvöllum á Dunhill mótinu á Evrópumótaröðinni. Á því móti er einnig keppt á St. Andrews og Carnoustie.
Opna breska meistaramótið fór fyrst fram í kvennaflokki árið 1976. Mótið er eitt af fimm risamótum LPGA mótaraðarinnar.
Sigurvegarar síðustu ára:
2016 / Woburn
Ariya Jutanugarn, Taíland, 272 högg
2015 / Turnberry
Inbee Park, Suður-Kórea 276 högg
2014 / Royal Birkdale
Mo Martin, Bandaríkin 287 högg
2013 / St Andrews
Stacy Lewis, Bandaríkin 280 högg
2012 / Hoylake
Jiyai Shin, Suður-Kórea 279 högg
2011 / Carnoustie
Yani Tseng, Taívan 272 högg
2010 / Royal Birkdale
Yani Tseng, Taívan 277 högg
2009 / Royal Lytham & St Annes
Catriona Matthew, Skotland 277 högg
2008 / Sunningdale
Jiyai Shin, Suður-Kórea 270 högg
2007 / St Andrews
Lorena Ochoa, Mexíkó 287 högg