"Íslandsmótið í höggleik. Golf, sumar 2014, GKG, Leirdalsvöllur. Birgir Leifur Hafþórsson Ólafía Þórunn Kristinsdóttir Íslandsmót"
Auglýsing

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, úr Golfklúbbi Reykjavíkur, tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í höggleik. Hún lék á tíu höggum yfir pari samanlagt en síðasta hringinn lék hún á þremur höggum yfir pari. Þetta er í annað sinn sem Ólafía Þórunn fagnar Íslandsmeistaratitlinum í höggleik en hún sigraði einnig árið 2011 í Leirunni.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, úr Golfklúbbnum Keili, lenti í öðru sæti á þrettán höggum yfir pari en hún lék lokahringinn á þremur höggum yfir pari. Valdís Þóra Jónsdóttir, úr Golfklúbbnum Leyni, lenti í þriðja sæti á 18 höggum yfir pari samanlagt en hún lék lokahringinn á níu höggum yfir pari.

Ólafía Þórunn lék á fimm höggum yfir pari á fyrsta degi en einu höggi undir pari á degi tvö og náði þá forystunni sem hún lét aldrei af hendi. Ólafía Þórunn vill samt að hún hafi aldrei verið örugg með sigurinn. “Það var alveg spenna í þessu fram á lokaholu,” segir hún skælbrosandi.

Á átjándu holu virtust taugarnar vera farnar að segja til sín því Ólafía missti upphafshöggið sitt út til hægri og lenti í smá vandræðum. Hún lék holuna á einu höggi yfir pari en hafði parað átta holur í röð áður en að lokaholunni var komið. “Þetta var í fyrsta skipti sem ég sló út í trén. Það kemur fyrir að ég slái aðeins til hægri og það gerðist þarna. Svo var svolítið sterkur vindur sem tók boltann,” segir Ólafía Þórunn brosandi.

Ólafía Þórunn segir að lokapúttið hafi verið það erfiðasta við helgina. “Ég átti innan við meter eftir og það voru allir að horfa, taugarnar þandar og ég var farin að átta mig á að þetta gæti verið komið í hús.”
Ólafía Þórunn fer nú í frí til Þýskalands í viku en framundan er svo heimsmeistaramótið í Japan sem fram fer í byrjun september. Hún ætlar svo að flytjast búferlum til Þýskaland með þýskum kærasta sínum og reyna fyrir sér í úrtökumóti í desember.

En fyrir utan Íslandsmeistaratitilinn sjálfan, hvað stendur upp úr hjá Ólafíu Þórunni eftir helgina? “Það var gaman að sjá hvað það voru margir áhorfendur og hvað margir úr fjölskyldunni voru að fylgjast með. Það krúttlegasta var að sjá alla úr fjölskyldunni og vinina með tár í augum eftir að sigurinn var í höfn.”

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ