Ólafía Þórunn lék fyrsta hringinn á LET Evrópumótaröðinni í Belgíu á pari vallar - Golfsamband Íslands
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Auglýsing

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, hóf leik í dag á Naxhelet mótinu sem fram fer í Belgíu dagana 27.-29. maí. Mótið er hluti af LET Evrópumótaröðinni og er annað mótið á keppnistímabilinu hjá Ólafíu Þórunni.

Ólafía Þórunn lék á pari vallar á fyrsta keppnisdeginum eða 72 höggum. Hún fékk tvo skolla (+1) á fyrri 9 holunum – en hún vann þau högg til baka með tveimur fuglum í röð á 14. og 15. holu. Eins og staðan er núna þá er Ólafía Þórunn í 20. sæti.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, er ekki á meðal keppenda á þessu móti en hún er með fullan keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni. Hún keppir næst á Opna ítalska meistaramótinu sem fram fer 2.-4. júní á Margara vellinum á Ítalíu.

Ólafía Þórunn og Guðrún Brá kepptu báðar á Jabra mótinu sem fram fór um s.l. helgi á hinum þekkta Evian golfvelli í Frakklandi. Þær komust ekki í gegnum niðurskurðinn á því móti. Guðrún Brá var einu höggi frá því að komast áfram og endaði í 63. sæti á +8 samtals en Ólafía Þórunn var sjö höggum frá niðurskurðinum og endaði hún í 100. sæti á +14 samtals.

Mótið í Frakklandi var fyrsta mótið hjá Ólafíu Þórunni á sterkustu atvinnumótaröð í kvennaflokki í Evrópu á þessau tímabili – en hún keppti síðast á atvinnumóti í september árið 2020. Ólafía Þórunn er með takmarkaðan keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni á þessu tímabili.

Guðrún Brá er með keppnisrétt á flestum mótum á LET Evrópumótaröðinni. Hún hefur leikið á níu mótum á tímabilinu. Besti árangur hennar er 27. sæti og hún hefur komist í gegnum niðurskurðinn á sex mótum.

Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit:

Eins og áður segir keppti Ólafía Þórunn síðast á atvinnumóti í september árið 2020. Hún er búsett í Þýskalandi ásamt unnusta sínum Thom­as Bojanowsk og syni þeirra Maroni sem fæddist þann 29. júní í fyrra.

Ólafía Þórunn fékk keppnisrétt árið 2016 á LET Evrópumótaröðinni. Hún lék á sjö mótum árið 2016 og besti árangur hennar var 14. sætið. Árið 2017 lék hún á 3 mótum og 13. sæti var besti árangur hennar á því tímabili. Árið 2018 lék Ólafía Þórunn á sex mótum – og bestir árangur hennar á því tímabili var 11. sætið. Árið 2019 lék Ólafía Þórunn á þremur mótum á LET Evrópumótaröðinni og hún lék á tveimur mótum árið 2020 á LET.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ