Ólafur Björn Loftsson er úr leik á fyrsta stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golf. Ólafur, sem er í GKG, lék í gær á 78 höggum eða +7 á Hardelot vellinum í Frakklandi. Samtals lék Íslandsmeistarinn frá árinu 2009 á +12 (72-75-78) en þeir sem voru á +10 samtals komust í gegnum niðurskurðinn að loknum þriðja keppnisdegi. Ólafur endaði í 78.-79. sæti af alls 103 keppendum sem tóku þátt á þessum velli en 22 efstu komast áfram á annað stig úrtökumótsins.
Þar með hafa þrír íslenskir kylfingar reynt fyrir sér á þessu ári á fyrsta stigi úrtökumótsins. Þórður Rafn Gissurarson, Íslandsmeistari í golfi 2015, sem er í GR komst ekki í gegnum fyrsta stigið á móti sem fram fór í Þýskalandi. Axel Bóasson úr Keili var á sama keppnisvelli og Þórður og komst Axel ekki áfram. Axel varð Íslandsmeistari í golfi árið 2011.
Einn íslenskur kylfingur á eftir að reyna sig á öðru stigi úrtökumótsins en það er Birgir Leifur Hafþórsson. Hann hefur keppni í byrjun nóvember en keppt er á fjórum keppnisvöllum á Spáni dagana 6.–9. nóvember. Lokaúrtökumótið hefst strax í kjölfarið og fer það fram dagana 14.-19. nóvember á Spáni.