Ákveðið hefur verið að fresta Ólympíuleikunum í Tókýó sem áttu að hefjast 24. júlí í sumar. Leikarnir verði þó haldnir, en í síðasta lagi sumarið 2021. Þetta var staðfest í dag.
Shinizo Abe, forsætisráðherra Japans, óskaði eftir því við IOC, Alþjóða Ólympíunefndina að leikunum yrði frestað vegna COVID-19 og Thomas Bach forseti IOC samþykkti það.
Golf er á keppnisdagskrá ÓL 2021. Á næstu dögum og vikum verða ýmsar upplýsingar gefnar út varðandi tímalínuna sem tengist dagsetningum á fresti til að ná lágmörkum inn á ÓL 2021.
Í þessu samhengi má nefna að íslenskir kylfingar áttu enn möguleika á að klifra upp ÓL-stigalistann á þessu ári. Og þá sérstaklega í kvennaflokki. Samkvæmt upplýsingum frá ÍSÍ munu alþjóðasérsamböndin senda frá sér upplýsingar varðandi dagsetningar og annað á næstu dögum og viku. Þar verði horft til þess að gæta hagsmuna íþróttafólksins.