Site icon Golfsamband Íslands

Opið bréf til félaga í GSÍ – Mótahald í Leirunni

Leirumótið

Séð yfir 9. flötin á Hólmsvelli í Leiru.

Opið bréf til félaga í GSÍ frá stjórn Stjórn Golfklúbbs Suðurnesja (GS): 

Stjórn Golfklúbbs Suðurnesja (GS) hefur tekið þá ákvörðun að halda ekki fyrsta stigamót Golfsambands Íslands (GSÍ) sem búið var að ákveða að yrði haldið 24. maí á Hólmsvelli í Leiru. Ástæða þeirrar ákvörðunar er einfaldlega fjárhagslegs eðlis.

Fjárhagslegt tjón klúbbsins við að halda svona mót er talsvert og því treystir stjórn GS sér ekki til að taka að sér tvö mót í ár. Golfklúbburinn er reiðubúinn að halda Íslandsmót golfklúbba eldri kylfinga í ágúst eins og til stendur en tvö mót er of stór biti fyrir jafn lítinn golfklúbb og okkar. 2018 reyndist GS erfitt rekstrarlega séð og hafa ráðstafanir verið gerðar til að draga saman í rekstri klúbbsins, t.d. með fækkun starfsfólks. Það er ekki á stefnuskrá núverandi stjórnar að auka kostnað við rekstur golfvallarins, hvorki við mótahald né annað. Ég hef tilkynnt mótanefnd GSÍ þessa ákvörðun stjórnar, beðið hana afsökunar og harmað hve seint hún hafi borist en eins og fyrr segir vorum við ekki meðvituð um þá breytingu að GSÍ taki ekki þátt í kostnaði við mót á þeirra vegum.

Á formannafundi sem haldinn var í lok síðasta árs var samþykkt tillaga þess efnis að GSÍ hætti að greiða klúbbum fyrir að halda mót sambandsins. Þó ég hafi sótt þennan formannafund hefur þetta mál algerlega farið fram hjá mér og biðst ég afsökunar á því.

Hins vegar finnst mér eðlilegt að fundargerð sé send út að fundi loknum eða gerð aðgengileg fyrir stjórnendur klúbbanna, í það minnsta helstu niðurstöður fundarins teknar saman á minnisblað og það sent til golfklúbbanna. Þess ber einnig að geta að fulltrúar einhverra klúbba innan GSÍ sáu sér ekki fært að mæta á þennan tiltekna fund, þeim mun ríkari ástæða til að senda niðurstöður hans á alla.

Undanfarin ár höfum við í Golfklúbbi Suðurnesja gagnrýnt það framlag sem GSÍ hefur lagt golfklúbbum til og hefur átt að vega upp á móti kostnaði klúbbanna við framkvæmd móta sambandsins. Okkur hefur þótt það framlag of lágt og í raun sé öll umgjörðin í kringum hvert GSÍ-mót svo miklu kostnaðarsamari en þær sárabætur sem GSÍ hefur lagt til. GS sendi GSÍ táknræn skilaboð árið 2017 þegar þáverandi framkvæmdastjóri klúbbsins gaf út reikning að loknu Eimskipsmóti sem var haldið í Leirunni og afhenti framkvæmdastjóra GSÍ. Í þeim reikningi var raunkostnaður klúbbsins tilgreindur; aukavinnustundirnar, dómaraskostnaður o.þ.h. GS afhenti einnig kreditreikning sömu upphæðar sem styrk til GSÍ. Ekki virðast Golfsambandið hafa skilið þessa sneið því þetta nýjasta útspil þess er síst til þess fallið að gera það meira aðlaðandi fyrir golfklúbba að taka að sér mót í mótaröð hinna bestu.

Það er mín skoðun, eins og margra annara, að miðað við fjölda þátttakenda í mótaröðum GSÍ ættu klúbbarnir á höfuðborgarsvæðinu að taka meiri þátt í mótahaldi mótaraðanna. Miðað við hlutfallslega þátttöku kylfinga í mótum ættu klúbbarnir á því svæði að gefa sínum kylfingum meiri möguleika á að leika á heimavelli. Mér finnst að Golfsambandið ætti að setja aukinn þrýsting á stóru klúbbana til að taka frekari þátt í þessu starfi en alveg eins og litlu klúbbarnir út á landi vilja þeir ekki verða fyrir því fjárhagslega tjóni og því raski sem mót stigaraðanna hafa í för með sér. Ég sé ekki þennan þrýsting verða að veruleika enda er stjórn og starfsfólk GSÍ að stærstum hluta skipað meðlimum klúbba höfuðborgarsvæðisins og, viljandi eða óafvitandi, virðist oft eins og meira tillit sé tekið til hagsmuna þeirra en okkar, litlu klúbbanna út á landi. Skemmst er þess að minnast að það eru ekki mörg ár síðan GSÍ stakk upp á að fjögur af hverjum fimm Íslandsmótum yrðu haldin á höfuðborgarsvæðinu, ef það er einhver möguleiki á að hala inn auglýsingastyrki í tengslum við mót þá er það í kringum Íslandsmót.

Fyrir hönd Golfklúbbs Suðurnesja,
Jóhann Páll Kristbjörnsson,
formaður.

Exit mobile version