Opnað hefur verið fyrir umsóknir vegna endurgreiðslna til eininga innan vébanda ÍSÍ á vef Vinnumálastofnunar en stofnuninni var falið af hálfu félags- og barnamálaráðherra að sjá um framkvæmd laga nr. 155/2020 um greiðslur vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍSÍ.
Hér er hægt að nálgast nánari upplýsingar um endurgreiðslur til íþróttafélaga.
Með lögunum er stuðlað að því að íþróttafélög og sambönd sem starfa innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands geti hafið óbreytta starfsemi að nýju eftir að þeim var gert að fella niður starfsemi á tilteknu tímabili, að hluta eða jafnvel öllu leyti vegna opinberra sóttvarnararráðstafanna. Markmiðið með þessari lagasetningu er að sem minnstar raskanir verði á íþróttastarfi á Íslandi til lengri tíma litið vegna faraldursins.
Lögin taka til greiðslna vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna hjáíþróttafélögum og öðrum samböndum sem starfa innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem hófu starfsemi fyrir 1. október 2020 og þurftu að fella niður starfsemi tímabundið, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnarráðstafana á tímabilinu 1. október 2020 til og með 30. júní 2021.
Umsóknir um greiðslur skulu berast Vinnumálastofnun fyrir 30. september 2021. Eftir þá dagsetningu fellur réttur til greiðslu niður.
Vinnumálastofnun og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands tóku höndum saman og hafa unnið í sameiningu að mótun verklags varðandi umsóknarferlið með það að leiðarljósi að einfalda umsýslu og ferlið í heild sinni.
ÍSÍ hvetur alla sambandsaðila sína og íþrótta- og ungmennafélög til að kynna sér skilyrði umsókna varðandi ofangreindar endurgreiðslur og nýta sér úrræðið til hlítar.
Hér er hægt að nálgast nánari upplýsingar um endurgreiðslur til íþróttafélaga.