Páll Sævar Guðjónsson stendur vaktina á Íslandsmótinu í golfi sem ræsir og er þetta í fimmta sinn sem „Röddin“ kryddar Íslandsmótið í golfi með nærveru sinni.
Páll Sævar var í fyrsta sinn í þessu hlutverki árið 2020 þegar Íslandsmótið fór fram í Mosfellsbæ, og hann var einnig á Akureyri 2021, Vestmannaeyjum 2022 og á Urriðavelli í fyrra.
„Það er gaman að fá að vera hluti af þessu og mér finnst þetta skemmtilegt,“ segir Páll Sævar m.a. í þessu viðtali sem tekið var á fyrsta keppnisdegi Íslandsmótsins. Páll Sævar nýtir sumarfríið sitt til þess að vera hluti af Íslandsmótinu í golfi þetta árið og hann gerir þetta fyrir ánægjuna – sem sjálfboðaliði.
Páll Sævar hefur verið kynnir á landsleikjum á Laugardalsvelli hjá Knattspyrnusambandi Íslands undanfarin 25 ár – og hann ætlar sér að bæta mörgum Íslandsmótum í golfi í minningabankann á næstu árum og áratugum.