Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, gerði sér lítið fyrir og sigraði á Evrópumeistaramóti 16 ára og yngri, European Young Masters, sem fram fór í Finnlandi.
Perla tryggði sér sigurinn á 18. holu þegar hún setti niður pútt til að tryggja sigurinn – en hún sigraði með minnsta mun og átti eitt högg fyrir lokaholuna.
Sigur Perlu er sögulegur þar sem þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur kvenkylfingur sigrar á þessu móti. Yfir 70 keppendur á mótinu voru 0 eða lægri forgjöf. Lægsta forgjöfin var -5 og 30 keppendur voru með -3 eða lægra í forgjöf á þessu móti.
Ómar Halldórsson, GA, fagnaði sigri á Evrópumeistaramóti unglinga árið 1997 og hafa því íslenskir kylfingar sigrað í báðum flokkum mótsins.
Perla Sól, sem er fædd árið 2006, verður 16 ára í haust. Hún lék hringina þrjá á 2 höggum undir pari Linna vallarins þar sem að mótið fór fram. Hún lék samtals á 214 höggum (72-72-70). Þrír keppendur voru jafnir á -1 samtals.
Fjórir keppendur frá Íslandi tóku þátt en mótið er fyrir kylfinga sem eru 16 ára og yngri.
Keppendur Íslands á þessu móti voru Skúli Gunnar Ágústsson, GA – Veigar Heiðarsson, GA – Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR og Helga Signý Pálsdóttir. Þau enduðu í 14. sæti í liðakeppninni.
Helga Signý lék á 239 höggum eða +23 og endaði í 39. sæti.
Veigar Heiðarsson lék á 231 höggi eða +15 samtals sem skilaði honum í 37. sæti.
Skúli Gunnar endaði í 50. sæti en hann lék á +25 samtals.
Skúli er með 1 í forgjöf, Veigar 1,1, Helga Signý 1,7 en Perla Sól er með lægstu forgjöfina af íslensku keppendunum eða -3,5.
Keppt er í einstaklings – og liðakeppni. Leiknir eru þrír keppnishringir á þremur keppnisdögum í þar sem að keppt er í höggleik. Í liðakeppninni telja þrjú bestu skorin hjá hverju liði á hverjum hring.
Alls eru 117 keppendur á þessu móti og koma þeir frá 31 þjóðum.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit frá mótinu í Finnlandi.