Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, nýkrýndur Íslandsmeistari í golfi 2022, er í úrvalsliði meginlands Evrópu sem keppir gegn úrvalsliði Bretlands og Írlands í Junior Vagliano liðakeppninni 2022.
Mótið er árlegur viðburður þar sem að úrvalslið kvenna 16 ára og yngri keppir sín á milli – og eru aðeins kylfingar í fremstu röð á heimsvísu valdir í þetta mót.
Perla Sól sigraði nýverið á Evrópumóti stúlkna 16 ára og yngri – og er hún fyrsti íslenski kylfingurinn sem nær þeim árangri í stúlknaflokki.
Valnefnd á vegum EGA setti saman liðið – sem er þannig skipað: Perla Sól Sigurbrandsdóttir, Johanna Axelsen (Danmörk), Anna Cañadó (Spánn), Andrea Revuelta (Spánn), Carla De Troia (Frakkland) og Lynn Van Der Sljuijs (Holland) sem sigraði nýverið á R&A áhugamannamótinu í stúlknaflokki fékk einnig sæti í liðinu eftir sigurinn.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit úr mótinu.
Mótið fer fram dagana 26.-27. ágúst á Blairgowrie golfvellinum í Skotlandi
Andrea Revuelta er á meðal 100 efstu á heimslista áhugakylfinga og hún var á meðal 25 efstu á Evrópumóti einstaklinga.
Margir af leikmönnum í Solheimbikar liði Evrópu hafa verið í Junior Vagliano úrvalsliðinu. Má þar nefna stórstjörnurnar Georgia Hall, Charley Hull og Emily Pedersen.
Fyrst var keppt á þessu móti árið 2011 og er þetta í sjöunda sinn sem mótið fer fram. Frá og með þessu ári verður mótið haldið árlega en fram til þessa hefur það farið fram á tveggja ára fresti.
Keppnisfyrirkomulagið er með svipuðu sniði og í Solheimbikarnum og Ryderbikarnum í karlaflokki.
Fyrir hádegi eru leiknir þrír fjórmenningsleikir, og eftir hádegi eru 6 tvímenningsleikir. Alls eru 18 stig í pottinum og þarf 9 1/2 stig til að tryggja sigur.
Úrvalslið Evrópu hefur ávallt sigrað á þessu móti í þau sex skipti sem það hefur farið fram.