Site icon Golfsamband Íslands

PGA nemendurnir Stefanía og Brynjar fengu námsstyrk frá GSÍ

Haukur Örn og Steindór.

Í ársbyrjun 2017 gerðu GSÍ og PGA með sér samkomulag þar sem m.a. var lögð áhersla á að styrkja PGA golfkennaraskólann með fjárhagslegum stuðningi. Í samkomulaginu kemur m.a. fram að veita nemendum námsstyrk á hverju ári.

Námsstyrkurinn er veittur í þeim tilgangi að efla golfkennslu á landsbyggðinni. Markmiðið er að á landsbyggðinni verði starfandi, allt árið um kring, menntaðir PGA golfkennarar.

Námsstyrkurinn var auglýstur til umsóknar og jafngildir hann einu skólagjaldi í PGA golfkennaraskólann á ári.

Stefanía Kristín Valgeirsdóttir frá Golfklúbbi Akureyrar og Brynjar Örn Rúnarsson frá Golfklúbbi Norðfjarðar fengu á dögunum úthlutað námsstyrk. Þau eru bæði nemendur í fjölmennum hópi PGA nemenda í PGA golfkennaraskólanum – en alls hófu 19 nemendur nám í haust.

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, afhenti styrkina á formannafundi GSÍ sem fram fór í lok nóvember í Grindavík. Steindór Kr. Ragnarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar, tók við styrknum fyrir hönd Stefaníu á fundinum. Brynjar eða fulltrúar frá GN gátu því miður ekki verið viðstaddir á fundinum. Styrknum hefur nú þegar verið komið til Brynjars.

Í máli Hauks kom m.a. fram að PGA kennarar séu milkilvægir hlekkir í starfi golfklúbba landsins. Þeirra hlutverk er mikilvægt þegar kemur að því að auka áhuga nýrra kylfinga og án PGA kennara væri barna – og unglingastarf golfklúbba landsins ekki eins öflugt og raun ber vitni. Haukur sagði ennfremur að Golfsamband Íslands og samtökin PGA á Íslandi hafi unnið markvisst saman að því að efla golfíþróttina á Íslandi á undanförnum árum og að hans mati hefur samstarfið gengið mjög vel.

 

Exit mobile version