Golfsamband Íslands

Púttæfingar og bingó – öflugt félagsstarf hjá eldri kylfingum GR

– Karl Jóhannsson stýrir öflugu félagsstarfi hjá eldri kylfingum í GR

„Ég byrjaði á þessu fyrir um þremur árum. Mér fannst vanta eitthvað fyrir okkur eldri kylfingana í GR yfir vetrartímann. Þetta hefur vaxið jafnt og þétt. Það er vel mætt á púttæfinguna sem fram fer á hverjum virkum degi kl. 10 – og þegar viðrar vel þá fara margir út á völl að spila og hittast síðan í kaffispjalli hér í Korpunni á eftir,“ segir Karl Jóhannsson við Golf á Íslandi.

Karl er heiðursfélagi GR og á stóran þátt í því að koma golfíþróttinni á framfæri. Synir hans, Jón og Karl Ómar eru báðir PGA golfkennarar og hafa því tekið við keflinu af karli föður sínum.

„Félagsþátturinn er stór hluti af þessu öllu saman. Að koma saman, spjalla og hafa gaman,“ bætir Karl við en hann stendur einnig fyrir bingósamkomum samhliða púttæfingunum.

„Við reynum að hafa bingó átta sinnum yfir veturinn, að meðaltali einu sinni í mánuði. Það kostar ekkert að taka þátt en á jóla- og páskabingóinu eru vinningarnir aðeins veglegri og þá kostar 1.500 kr. að taka þátt,“ segir Karl.

Þegar Golf á Íslandi fór í heimsókn á dögunum í Korpuna var Karl að undirbúa bingóið.
Vinningarnir voru glæsilegir og greinilegt að Karl er lunkinn við að ná í samstarfsaðila.

„Það eru margir sem koma að þessu og ég er þakklátur þeim sem styðja við bakið á okkur. Fyrirtækin sem gefa verðlaunin í bingóið eru farin að gera ráð fyrir því að ég hringi og óski eftir stuðningi,“ segir Karl.

Exit mobile version