Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, og Andri Már Óskarsson, GOS, stóðu uppi sem sigurvegarar í Hvaleyrarbikarnum sem fram fór um liðna helgi á Hvaleyrarvelli hjá Golfklúbbnum Keili. Mótið er hluti af stigamótaröð GSÍ en Keilir sá um framkvæmd mótsins.
Ragnhildur lék á 218 höggum eða 5 höggum yfir pari vallar (74-69-75) og sigraði hún með 9 högga mun. Annar keppnisdagurinn var sérlega glæsilegur hjá Ragnhildi þar sem hún lék á 69. höggum eða 2 höggum undir pari vallar. Berglind Björnsdóttir, GR, lék á 227 höggum (+14) og Kristín Sól Guðmundsdóttir, GM, gerði slíkt hið sama og lék á 214 höggum.
Hvaleyrarbikarinn í karlaflokki fer á Selfoss í þetta skiptið en Andri Már Óskarsson úr Golfklúbbi Selfoss sigraði í mótinu hjá Keili á Hvaleyrarvelli í dag. Andri lék 54 holur á samtals 207 höggum og lauk leik á sex höggum undir pari samtals.
Aðstæður voru afskaplega góðar í Hafnarfirði. Hægviðri, skýjað og völlurinn mjög góður. Andri lagði grunninn að sigrinum með frábærum hring í gær þegar hann lék á 66 höggum. Hina hringina tvo lék hann á 71 og 70 höggum.
Andri sigraði með tveggja högga mun en hann sigraði með tveggja högga mun. Næstir komu heimamennirnir Daníel Ísak Steinarsson og Axel Bóasson á samtals fjórum undir pari. Þess má geta að Axel fékk tvo erni á síðustu sjö holunum í dag, á 12. og 16. holu.
,,Ég var að slá þokkalega alla dagana og pútterinn var heitur. Mér gekk mjög vel að pútta og þá líður mér vel á vellinum. Þá þarf maður ekki að hafa áhyggjur af því að slá sig nálægt holunni. Maður tekur þá yfirleitt tvípútt eða púttar í annað slagið. Ég hef alltaf kunnað vel við völlinn og ég varð í 3. sæti í þessu móti í fyrra. Ef golfið hefur verið gott hjá manni þegar maður kemur hingað þá spilar maður vel því völlurinn er alltaf flottur og flatirnar geggjaðar. Flatirnar hafa oft verið hraðari en í þetta skiptið en voru sanngjarnar,“ sagði Andri eftir að hafa veitt bikarnum viðtöku og framundan er mikið golf annars vegar í deildakeppni GSÍ og í Íslandsmótinu.
,,Spilamennskan verður alltaf betri og betri þegar líður á sumarið og ég er bara ánægður. Framundan er mikið golf. Sveitakeppni er um næstu helgi og æfingahringir fyrir hana í vikunni. Svo styttist í Íslandsmótið,“ sagði Andri Þór.
Bikar sem farið hefur víða
Keppt er um Hvaleyrarbikarinn og á verðlaunagripurinn sér nokkra sögu. Er hann einn af elstu bikurunum í safninu hjá golfklúbbnum Keili. Var bikarinn gefinn af Toyota umboðinu árið 1979 eða tólf árum eftir að klúbburinn var stofnaður. Var keppt um bikarinn á opnu móti hjá Keili sem var haldið var í nokkur ár.
Bikarinn er veglegur og fremur óvenjulegur í útliti. Var hann hannaður og sérsmíðaður í listagallerí í Japan á sínum tíma. Þegar stigamótinu Hvaleyrarbikarnum var komið á fót árið 2016 þurfti að búa til annað eintak enda keppt í tveimur flokkum í Hvaleyrarbikarnum. Var bikarinn sendur til Kína með það fyrir augum að búa til eftirlíkingu en Kínverjarnir sem ætluðu að taka verkið að sér treystu sér ekki til þess þegar á hólminn var komið.
Höfðu Keilismenn þá upp á listagalleríinu í Japan og var þar smíðaður annar bikar sem gefinn var af Icewear. Þá þurfti raunar einnig að gera lítillega við bikarinn sem hafði skemmst á heimleiðinni frá Kína. Bikarinn hefur því farið nokkrar ferðir á milli Íslands og Asíu.