Golfsamband Íslands

Ragnhildur og Böðvar Bragi settu ný vallarmet og tylltu sér í efsta sæti

Frá 12. teig á Hólmsvelli í Leiru á Íslandsmótinu í golfi. Mynd/seth@golf.is

Ragnhildur Kristinsdóttir og Böðvar Bragi Pálsson, bæði úr GR, létu mikið að sér kveða á öðrum keppnisdegi Íslandsmótsins í golfi í dag. 

Ragnhildur og Böðvar Bragi settu ný vallarmet á Hólmsvelli í Leiru og eru þau í efsta sæti þegar keppni er hálfnuð.

Niðurskurður var gerður eftir 2. keppnisdag. Hjá konunum var niðurskurðarlínan við +18 en þeir kylfingar sem léku á +18 eða lægra samtals komust áfram, alls 35 kylfingar. 

Í karlaflokki var niðurskurðarlínan við +6 og komust 62 kylfingar áfram sem léku á +6 eða lægra skori. 

Aðstæður á Hólmsvelli í Leiru voru að mestu eins og best verður á kosið – en rétt eftir hádegi brast á með mikilli úrkomu – og ein flöt vallarins, sú 7., var á floti um tíma en vaskir sjálfboðaliðar sáu til þess að flötin var leikhæf. 

Böðvar Bragi fór upp um fimm sæti í dag en hann lék á 64 höggum eða 7 höggum undir pari vallar. Alls fékk Böðvar Bragi 9 fugla á hringnum í dag en hann hefur fengið alls 16 fugla og 1 örn. Lokakaflinn á hringnum í dag hjá Böðvari var stórkostlegur þar sem hann fékk fimm fugla á síðustu sex holunum og þar af fjóra í röð á síðustu fjórum holunum. 

Ragnhildur Kristinsdóttir fór upp um fjögur sæti í dag en hún lék frábært golf þar sem hún fékk fimm fugla og einn skolla. Hún lék á 67 höggum eða -4 og er það nýtt vallarmet á Hólmsvelli í Leiru. 

Eva Kristinsdóttir, GM, sem var efst eftir fyrsta daginn lék á 74 höggum í dag og er hún í öðru sæti á +1 samtals ásamt Huldu Clöru Gestsdóttur, GKG, sem lék á pari vallar í dag. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, fór upp um 12 sæti í dag en hún lék á 70 höggum eða einu höggi undir pari, og er hún í fjórða sæti á +4 samtals. Þar á eftir koma Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, og Andrea Björg Bergsdóttir úr GKG, á +5 samtals. 

Aron Snær Júlíusson, GKG, sem var jafn í efsta sæti eftir fyrsta keppnisdaginn, lék á 68 höggum í dag eða -3, og er hann í öðru sæti á -9. Hákon Örn Magnússon, GR, lék vel í dag eða 66 höggum (-3) og er hann í þriðja sæti á -8 samtals. Sigurður Arnar Garðarsson, GKG, sem var efstur eftir fyrsta daginn, er jafn í 4. sæti á -7 samtals eftir að hafa leikið á -1 í dag. Páll Birkir Reynisson, GR, lék á -5 í dag og er hann jafn í 4. sæti á -7 samtals. 

Ragnhildur Kristinsdóttir á 10 teig á Hólmsvelli í Leiru Myndsethgolfis
Böðvar Bragi Pálsson GR á 3 teig á Hólmsvelli í Leiru Myndsethgolfis

Exit mobile version